29.8.08

Bara smá update

Það er lítið að frétta af okkur mæðgum í sjálfu sér. Lífið er farið að ganga sinn vanagang hérna í Edinborginni góðu og við höfum það mjög gott.
Ég hef verið að vinna svolítið á daginn, netið gerir það mögulegt að vinna eins og ég sé ennþá stödd á skrifstofunni í Kópavogi :) Ég er ekkert með mörg verkefni á minni könnu en er þó að reyna að klára tvö sem standa eftir.

Hildur var að kaupa sér tölvu. Hún er búin að sitja eins og ormur á gulli á fermingarpeningunum sínum síðan í apríl og nú var loksins komið að því. Það sem stelpan var orðin spennt :)
Hún keypti sér Dell Inspiron 1525 hjá Dell U.K. á netinu. Það tók um viku að fá hana senda heim að dyrum en það gerði nú ekkert til þar sem verðið á henni hérna er svo miklu lægra en heima að það var alveg biðarinnar virði. Við vorum s.s. búnar að skoða samskonar tölvu hjá EJS í Reykjavík, nákvæmleg eins, allt involsið og svoleiðis samsskonar og þar kostaði hún 109 þúsund krónur. Tölvan sem við keyptum hérna, (ath. einnig beint frá Dell...) kostaði a.á.m. 54 þúsund krónur!!! Finnst ykkur þetta hægt????? Ég bara spyr.....
Hildur er að sjálfsögðu ekkert smá glöð, átti allt í einu fullt af pening afgangs :)

Matarverðið hérna er líka lægra en heima en þó get ég ekki sagt að það sé svona rosalega mikill munur. Það er auðvitað eins hérna að maður hittir á sumt mjög ódýrt og annað dýrara. En það sem ég tek kannski helst eftir er verðið á ferskum kjúklingabringum og kalkúnabringum, það kostar ekki einn fót og hálfan handlegg eins og heima. Jú og svo lífrænær vörur og heilsuvörur, þær eru dýrari en hinar hérna eins og heima en samt ekki eins mikið dýrari og alveg viðráðanlegar. Þannig að það er í raun ódýrara að borða hollan mat hérna en heima. En vá hvað það er samt ráðandi óhollustan hérna í búðunum. Fleiri hillur af "crisps" (kartöfluflögum) í risaumbúðum og svo ég tali nú ekki um allar kökurnar og búðingana sem virðast vera stór hluti af daglegu fæði. Svo ég tali aftur um heilsufæðið, þá erum við íslendingar miklu framar í því að mörgu leiti. T.d. versla ég oftast í nokkuð stórri Sainsbury´s verslun, sem er svona nokkurs konar Hagkaup og þar eru heilsuvörur í hálfum hillurekka sem aftur á móti er mun meira bæði í Bónus og Krónunni heima. Ég fann t.d. ekkert spelt til að byrja með en fann svo bara grófmalað spelt í gær. Kepti það og svo einhverja mjölblöndu sem inniheldur ekkert hveiti og ætla að prófa að baka brauð úr þessu. Ég er nefnilega alveg orðið eins og Michelin-maðurinn af bjúg og ógeði eftir að hafa hakkað í mig venjulegt brauð og dót undanfarið.
Best að fara að baka og fara svo út í göngutúr, hérna er 17°C hiti og hálfskýjað, voðalega notalegt veður. Kveðjur heim í óveðrið ;) og góða helgi öll sömul.

p.s. takk fyrir allar góðu kveðjurnar í kommentunum það er svo gaman að sjá hvað að kíkja margir hérna inn og einmitt margir sem ég vissi ekkert að fylgdust með, æðislegt að "hitta" ykkur öll :)

26.8.08

Búin að finna draumastaðinn

Við mæðgurnar skruppum aðeins út fyrir borgina á laugardaginn til að heimsækja "Deep Sea World" . Þetta safn er staðsett í litlu þorpi sem heitir North Queensferry og er staðsett undir gömlu járnbrautarbrúnni yfir The Firth of Forth.
Safnið var mjög skemmtilegt þó það hafi verið mun minna en við héldum miðað við auglýsingar. Hildur tók að sjálfsögðu fullt af myndum af fiskum og finnst mér, sem brunahönnuði, þessi ferlega skemmtileg. Þarna sjáið þið bara, fiskar þurfa líka að vita hvert þeir eiga að synda ef þeir eiga að rýma bygginguna skyndilega :)

Það sem mér fannst flottast í þessu safni var færiband sem fór með mann í gegnum gler-göng þar sem fiskar og hákarlar voru að synda allt í kringum mann. Hildur náði þessari mynd af einum hákarlinum þegar hann synti ofan á okkur:












og svo af þessari skötu sem er með svo skemmtilegt andlit :)















Eins og þeir sem þekkja mig vita, þá er ég mjög heilluð af stórum mannvirkjum og eru brýr þar fremstar í flokki. Þetta litla þorp er svo yndislegt og fallegt að ég væri alveg til í að setja að þar. Ímyndið ykkur, lítið friðsælt sveitaþorp við sjóinn með tvær stórar brýr í útsýninu!!! Sjáið bara:





Þarna sjáið þið nýrri brúna, bílabrúna






og þarna er gamla járnbrautarbrúin:














Þarna má svo sjá litla húsið sem ég ætla að búa í þegar ég verð gömul með öllum köttunum mínum. Mér er alveg sama hvort húsið ég fæ sko...

22.8.08

Hver er dásamleg?

Ég talaði við ömmu í morgun fyrir leikinn því þegar svona keppnir eru í gangi þá verður maður að fylgjast með hvenær leikir eru og svoleiðis þó ég sé enginn íþrótta-unnandi , bara til þess að vita hvenær óhætt er að hringja í gömlu :)
Það er yndislegt að fylgjast með henni varðandi handboltalandsliðið, hún á í þeim hvert bein!

Sjá þessa frétt!

Fallegri verur

Hildi gengur vel að aðlagast í nýja skólanum. Ein stelpan úr bekknum var fengin til þess að vera henni til aðstoðar fyrstu dagana og hefur Hildur fengið að vera með henni og hennar vinkonum í frímínútum og svoleiðis. Þannig að þetta lítur allt saman bara ágætlega út :)

En þar sem skepnurnar á síðustu myndum vöktu viðbjóð margra ætla ég að sýna ykkur þau dýr sem við skoðuðum líka í sömu ferð og eru mun fallegri og þokkafyllri. Gjörið svo vel:


20.8.08

West Powburn og fleira

Jæja, Hildur er í skólanum í fyrsta skipi í dag. Við fórum í heimsókn í gær og fengum mjög góðar móttökur. Ég man að ég var með allt í hnút þega ég skildi hana eftir í fyrsta skipti á fyrsta skóladeginum hennar þegar hún var 6 ára en vá, ég var ekkert skárri í morgun! Það var ferlega skrítið að skilja hana eftir þarna í skólanum og labba í burtu :) En ég veit að hún spjarar sig vel stelpan.
Mér leist mjög vel á skólann í gær. Hann er frekar gamall og er í nokkrum byggingum sem hafa verið bætt við í gegnum árin. það eru um 1200 nemendur á 6 árum þarna. Hildur er á þriðja ári.
Eitt fengum við að vita í gær sem kom okkur á óvart, það eru engir skólabúningar í James Gillespie´s High School :) Hildur varð MJÖG glöð með það :)

Hérna eru svo nokkrar myndir eins og ég var búin að lofa:



Fyrsta kvöldmáltíðin á nýja heimilinu





Að komast á netið, þessar tvær myndir eru eiginlega teknar frá sama staðnum, bara í sitt hvora áttina.








Kósýkvöld með púslið okkar :)







Útsýnið úr stofuglugganum








Ég ekkert of ánægð með slönguna en lét mig samt hafa það ;)









Hildur var töluvert ánægðari með hana...

og hélt svo á þessu kvikindi líka.... það er óþarfi að taka það fram að ég kom ekki nálægt því !!!

17.8.08

Mikið djö... er ég klár :)

Já, eins og ég hef alltaf sagt, ef maður hrósar sér ekki sjálfur hver gerir það þá??? hehehehe....
Við mæðgurnar höfum verið að keyra svolítið um undanfarna daga og ég er bara orðin nokkuð klár í þessu öfuga dæmi hérna. En ég mæli samt eindregið með því að ef þið ætlið að leigja bílaleigubíl í Bretlandi í fyrsta skipti, fáið ykkur sjálfskiptan. Það er nefnilega allt of erfitt að þurfa líka að muna eftir því að skipta um gír (með vinstri auðvitað) þegar maður er á fullu að mynna sjálfan sig á að vera réttu (-röngu) megin á götunni!!! Sem betur fer er Vauxhallinn sem ég er á voðalega þolinmóður við mig og tekur alveg af stað í öðrum gír, hann mótmælir a.á.m. ef ég reyni þriðja eða þaðan af hærra :)
Það sem ég er alltaf jafn hissa á líka, er að mér er að takast ágætlega að rata. Að vísu komst ég ekki alveg að ASDA superstore í gær en ég sá hana í fjarlægð.... við fórum bara aftur í Sainsbury's að kaupa í matinn eftir smá auka bíltúr :)

Í gær stóð ég líka við loforð mitt við Hildi um að halda á slöngu. Meira um það í næstu færslu ásamt myndum til að sanna mál mitt!

Á morgum skila ég svo bílnum og við Hildur förum að ganga frá skráningunni hennar í skólann. Ætli við fáum þá ekki upplýsingar um hvers konar skólabúnng við þurfum að kaupa og svoleiðis því að skólinn hennar byrjar á miðvikudaginn.

Í dag er bara leti og ljúft líf, biðjum að heilsa heim....

14.8.08

Nýja heimilið

Hæ hæ allir saman,
ég vill byrja á því að þakka góðar kveðjur til okkar mæðgna :)
En við erum s.s. komnar heim til okkar í Edinborg og gekk ferðin bara vel. Við villtumst að vísu aðeins á leiðinni inn í borgina á bílaleigubílnum sem við tókum í Glasgow en vorum ekki villtar nema í ca. klukkutíma þá fundum við leiðina heim. En boy-oh-boy hvað ég var skítnervus að keyra öfugu megin á götunni!!!!
Leigusalarnir mínir eru yndisleg hjón sem tóku á móti okkur hérna. Þau voru búin að setja kaffi te og kex ásamt ávöxtum á borðið og mjólk og safa í ísskápinn. Það var sápa og pappír og allt sem þarf inni á klósetti. Rosalega "welcoming" móttökur. Svo eru þau öll af vilja gerð til þess að greiða götu okkar í hverju sem er.
Við vorum að vonum nokkuð þreyttar og fórum snemma að sofa en um nóttina vaknaði ég með hita og hálsbólgu og var gærdagurinn þess vegna ekki voðalega merkilegur. Það eina sem við gerðum fyrir utan að taka upp úr töskum var að skreppa út að versla í matinn og fá okkur skosk gsm-númer. Ég er öll betri í dag og við fórum þess vegna í smá túristaleik. Skruppum aðeins í miðbæinn og skoðuðum okkur um.

Hverfið okkar er voðalega fallegt og virkar rólegt.

Við biðjum að heilsa í bili, vonandi kemst ég fljótlega aftr inn á netið, það eru einhver vandræði með það hérna heima en ég hlýt að finna út úr því.

Túlílúúúú....

11.8.08

Komið að brottför - vonandi

Jæja, það virðist vera komið aððí loksins, brottför er fyrirhuguð í fyrramálið. Það kemur að vísu í ljós þegar líða tekur á daginn hvort það borgi sig að fresta brottför um tvo daga eða svo eftir heilsufari Hildar. Við eyddum nefnilega gærdeginum á bráðamóttöku barna!!! Hildur vaknaði í gærmorgum með ofboðslegar kvalir og kastaði upp aftur og aftur vegna þeirra. Lýsingin var eins og í júní þegar við enduðum einnig á Barnaspítalanum og eftir þá ferð féll grunur helst á ristilkrampa. Ég brunaði með stelpuna niður á spítala í gær þar sem kvalirnar voru þvílíkar að ekki var um neitt annað að ræða en að fá sterk verkjalyf í æð og það strax! Úff, til að gera langa sögu stutta þá var hún aftur rannsökuð hátt og lágt en ekkert fannst og að lokum var ristillinn ennþá helst grunaður. Hún var útskrifuð í gærkvöldi þegar þetta var í rénum en eftir að heim kom hélt þetta aðeins áfram en við náðum að slá á verkina þá með töflum og svo náði hún að sofa vel í nótt. Ég ætla að halda áfram fram yfir hádegi að undirbúa það að fljúga út í fyrramálið en ef Hildur verður ennþá mjög slöpp og ekkert farin að borða eftir hádegið þá fresta ég auðvitað fluginu. Við byrjum svo bara á því þegar til Edinborgar verður komið að finna góðan lækni til þess að rannsaka stelpuna almennilega!!!

En að skemmtilegra málefni. Partýið á föstudagskvöldið var yndislegt, ekki svo margmennt en svakalega góðmennt! Magga, þú gleymdir að knúsa mig áður en þú stakkst af.....!!!
Takk fyrir kvöldið elskurnar og eins og ég sagði þarna um nóttina, ef einhverntíman er tími til að láta gamminn geysa og gera það sem maður vill, þá er það einmitt þegar maður er að fara að flytja burt af landinu í kjölfarið... hehehe.....!

Ég læt ykkur vita ef ég fresta fluginu en annars þá blogga ég næst þegar ég kemst í netsamband úti.

Túlilúúúú allesammen... :)

7.8.08

Kveðjupartýið!!

Jæja, það er komið á hreint að kveðjupartýið verður haldið samhliða opnu húsi hjá Sniglunum á föstudagskvöldið (ath. breyttan dag!) í Sniglaheimilinu við Skerjafjörð. Barinn opnar kl.21 og verður hægt að kaupa þar áfengar og óáfengar veigar eitthvað fram á nótt.

Allir sem vilja þekkja mig, hvort sem þeir eru Sniglar eða ekki eru hjartanlega velkomnir!
Við skulum skemmta okkur saman þetta kvöld því að svo eruð þið laus við mig í rúmt ár á eftir hehehe...!

Ég treysti á að allt skemmtilega fólkið látið sjá sig og láti boðin berast áfram til þeirra sem vilja kannast við að þekkja mig en eru ekki tölvuvæddir eða ég ekki með símanúmerið þeirra í símanum mínum.

Sjáumst kát og hress...!

p.s. ef þið rekist á gaurinn á myndinni, endilega takið hann með! Ég hef alveg nokkur atriði í huga sem hægt væri að nota hann í............

5.8.08

Flutt

Ég á bestu vini í heimi!!!
Ég hef ekki haft tíma til að blogga alla síðustu viku þar sem ég var að tæma íbúðina og mikið að gera í vinnunni. En síðasta þriðjudag fékk ég her fólks til að hjálpa mér að flytja. Anna Birna og Egill hennar, Jón Óli og Nonni Metall, Jói Bringa og Jóna og síðast en alls ekki síst Dagrún komu og hjálpuðu mér að koma dótinu mínu í geymsluna. Þau voru eitthvað efins um að allt kæmist fyrir enda kom það svo í ljós að þrátt fyrir mjög góða stöflun hjá henni Dagrúnu þá fékk sófinn minn og einn stóll að fara í Sniglaheimilið og ísskápurinn og sjónvarpið fór austur á Rauðalæk. Þegar karlpeningurinn var búinn að hjálpa til með að fara með dótið þá tóku þær valkyrjurnar til við þrif og kláruðu fyrir mig 2/3 af íbúðinni þarna um kvöldið. Takk fyrir alla hjálpina elskurnar mínar, þið eruð frábær!!!
Við Hildur tókum svo tarnir eftir vinnu á miðvikudag og fimmtudag til að klára að losa restarnar og þrífa út úr dyrum. Um miðnættið á fimmtudagskvöldið skellti ég svo í lás í Blönduhlíð 1 í síðasta skiptið.
Snemma á föstudagsmorguninn flugum við mæðgur svo til Ísafjarðar þar sem við áttum yndislega rólega og góða helgi. Hittum ömmur og afa og annað gott fólk og slökuðum vel á. Við erum svo með gistinu í Grýtubakka hjá foreldrum Dagrúnar fram að brottför.

Næstu dagar fara í alls konar lokafrágang vegna flutninganna auk þess sem ég þarf að klára nokkur verkefni í vinnunni.

Það lítur út fyrir að partýið á laugardaginn verði haldið samhliða bjórkvöldi hjá Sniglunum í Sniglaheimilinu en ég á aðeins eftir að staðfesta það svo læt ég dygga lesendur mína vita :)