29.3.06

Tilvitnun vikunnar...

Ég bara varð að setja þetta inn. Fann þessa setningu á netinu hún segir allt sem segja þarf:

"Sometimes, when I look at myself through the microscope of cold, hard objectivity, I think to myself, "God, you are awesome!"

Ekki spara sjálfstraustið elskurnar!!!!!

Og lífið heldur áfram...

... sinn vanagang.
Ég fór í Þykkvabæinn um síðustu helgi og hjálpaði Dagrúnu að mála og ganga frá ýmsu smálegu. Við kíktum aðeins í afmælið til Möggu sem að sjálfsögðu brást ekki væntingum ;) en því miður var maginn minn eitthvað leiðinlegur svo ég gafst upp á því að fá mér í glas. Engu að síður hin besta skemmtun eins og þessu fólki öllu saman er von og vísa. Þið getið kíkt á myndirnar á síðunni hennar Möggu því til staðfestingar.
Það er nóg að gera í djamminu því að á næsta laugardag verður innflutningaspartý og ball í Þykkvabænum. Þá má maður gera ráð fyrir að lágmarki 20 tíma úthaldi!!!! úff úff, ég verð nú samt að láta mér nægja eitthvað færri tíma því að ég þarf að fljúga til London á sunnudaginn.

Já London hér kem ég! Ég er að fara á námskeið í University of Greenwich og stendur það frá mánudegi til föstudags í næstu viku. Stundataflan sýnir hvers vegna þeir kalla þetta: "five days INTENSE course" því að námskeiðið er frá 8:30 - 18:00 alla dagana, svo skilst mér að það séu heimaverkefni til að leysa á kvöldin :-/ Það verður því ekkert farið í búðir eða annað svoleiðis slór í þessari utanlandsferð.
Námskeiðið er mjög spennandi (allavega fyrir svona nörda eins og mig) það kallast: "Human behaviour in fire" og er í leiðinni kynning og smá kennsla á mjög öflugt rýmingarforrit sem VSI er að kaupa. Ég held að það sé gott að ég er nýskriðin úr skóla því að ég er enn í æfingu fyrir svona hevy-duty lærdóm!
Mamma, þessi elska, ætlar að koma og passa stelpurnar og hundinn fyrir mig á meðan.

Eins og sjá má þá er kominn nýr linkur hérna til hliðar. Hann er á síðu sem ein gömul skólasystir mín stofnaði fyrir árganginn okkar úr gaggó. Frábært framtak, alveg er það nauðsynlegt að hafa a.m.k. einn svona aðila í hverjum árgangi sem sér um að við hittumst og þekkjumst. Ég hlakka til að fylgjast með á þessari síðu því að við eigum 20 ára gagnfræðingaafmæli í vor (ótrúlegt, finnst ykkkur ekki???) og stefnum á að hittast fyrir vestan. Voðalega er það skrítið að það séu orðin 20 ár síðan ég kláraði gaggó!?! Mér finnst ég rétt að verða fullorðin núna!!! En jæja maður stoppar víst ekki tímann svo glatt! (sem betur fer, líklega).

Ég sé ekki fram á að skrifa mikið hérna á næstunni sökum annríkis en endilega kvittið í gestabókina, síðasta færsla var þar í júlí á síðasta ári!!!!

24.3.06

Árásin á Rút

Svona til fróðleiks þá datt mér í hug að setja hérna link á frétt mbl.is af hnífsstunguárásinni á kærastann hennar Ólafar minnar. Hann er á góðum batavegi strákurinn.
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1190632

Annars er helgin framundan og stefni ég á að eyða henni í Þykkvabænum. Að sjálfsögðu fer ég líka í afmælið hennar Möggu enda væri það algert glapræði að missa af svona viðburði :)

Góða helgi öll sömul !

20.3.06

Vissi ekki að nöfnin mín táknuðu þetta, en þið?

Anna --[noun]:A person who has the ability to be invisible
'How will you be defined in the dictionary?' at QuizGalaxy.com

Málfríður --[adjective]:Like in nature to a banana peel
'How will you be defined in the dictionary?' at QuizGalaxy.com

Samkvæmt þessu er ég ósýnilegt bananahýði (lauslega þýtt og staðfært!!!!

16.3.06

Ást og ýmislegt svoleiðis

Ég hef tvisvar verið ástfangin að einhverju marki. Þessi tvö skipti eru mjög ólík en eiga það þó sameiginlegt að hvorugur mannanna var eins og maður segir "góður fyrir mig". En það virðist sem maður stjórni því ekki algerlega sjálfur hvert maður tapar hjartanu heldur eru það einhver efnasambönd sem taka af manni völdin.
Líklega getur maður verið viss um að hafa verið ástfanginn í raun og veru ef sársaukinn eftir sambandsslitin er óbærilegur og lengi að hverfa. Ég hef upplifað það bæði eftir að ég sleit sambandinu og þegar hinn aðilinn sleit því. Þetta eru atvik í lífi manns sem gera ör á sálina.

Samt langar mig að verða ástfangin aftur. Eitthvað er það í fólki (allavega flestu) sem gerir það að verkum að þráin eftir lífsförunaut slokknar aldrei alveg. Ég hef það fínt í daglegu lífi. Ég er í góðri vinnu, allt gengur vel heima fyrir og bara bjart framundan. Samt hef ég staðið mig að því undanfarið að þrá náin samskipti við einhvern sem elskar mig. Ég er yfirleitt voða sátt við einveruna og er oftast mjög fegin því að geta ákveðið alla hluti sjálf án þess að þurfa að grípa til málamiðlana en það er einhver hluti þarna inni sem langar samt í maka.

Ég finn að ég er ekki manneskja sem karlmenn laðast að. Ég á oft í mjög skemmtilegum samræðum við menn sem láta það alveg uppi að ég sé fróð og dugleg og að þeir dáist að hörkunni í mér en það er samt ekki lýsing á konu sem menn vilja eiga fyrir maka. Þá vilja þeir frekar einhverja aðeins veikari fyrir svo að maður ógni ekki stöðu þeirra sem sterkara kynið. Og þetta er á meðan þeir slá um sig með kommentum um hvað konur séu ósjálfbjarga á ýmsum sviðum. Hmm, það er erftitt að vera sjálfstæð kona. Jú jú eins og ég sagði maður á fullt af vinum sem taka manni nokkurn vegin sem jafningja en eitthvað er minna um elskhuga.

Á ég kannski að brjóta odd af oflæti mínu og sýna einhverjar veikar hliðar? Taka frekar stríðninni um að kunna ekki eitthvað eða geta ekki eitthvað sjálf? Æi, veit ekki, það er einhvern vegin ekki svo mikið ég...! Ætli ég verði ekki frekar að bíða og sjá hvort það er einhver til þarna úti sem er nógu sterkur og stór til að þora í mig....!!!!

14.3.06

Mikið að gera

Já það er svo mikið að gera hjá mér þessa dagana að ég hef ekki haft tíma til þess að blogga. Það verður því miður bara að sitja á hakanum og ég vona að dyggir lesendur mínir sýni þolinmæði :)

Mikið var gaman að heyra frá henni Helgu Haralds í commentinu hérna fyrir neðan. Vá hvað það var gaman hjá okkur að vera óléttar saman fyrir 12 árum, það sem við gátum blaðrað ;) Ég vona að allt gangi vel hjá þér Helga og endilega láttu heyra í þér aftur hérna. Ég lofa svo að kíkja á ykkur næst þegar ég kem vestur.

Eins og ég sagði, þá er svo mikið að gera hjá mér og mér líkar það stórvel. Verkefnin hlaðast upp í vinnunni og mér er alltaf treyst fyrir meiru og meiru. Stundum verður mér nú um og ó yfir traustinu, úff úff... En það er bara frábært að hafa mikið að gera.

Best að halda áfram að vinna, heyrumst síðar!

6.3.06

Viðburðarrík helgi

Það er óhætt að segja að helgin hafi verið viðburðarrík hjá okku mæðgunum.
Um klukkan 5 á laugardagsmorguninn hringdi Rútur kærastinn hennar Ólafar í mig og spurði hvort við Ólöf gætum komið niður á slysó þar sem hann hefði verið stunginn. Við drifum okkur að sjálfsögðu niður eftir og fengum að vita þar að hann væri ekki í lífshættu en hefði verið stunginn tvisvar sinnum í bakið og það væri verið að skoða hann nánar og gera að sárum hans.
Eftir 3 tíma bið fengum við að sjá hann og var hann ósköp mikið lasinn og illa farinn. Hann hafði verið barinn og stunginn og er með sauma í nefinu og hökunni, auk þessara tveggja stungusára í bakinu. Önnur stungan fór um 4 cm inn og gerði gat á lunga sem þ.a.l. féll saman. Því þurfti að setja í hann slöngu sem gengur inn í lungað og blæs það upp. Hann var svo fluttur á lungnaskurðdeild á Hringbraut þar sem honum hefur farið ótrúlega fram síðasta sólarhringinn.

Okkur er öllum mjög brugðið, að sjálfsögðu. Það mátti litlu muna að verr færi og er jafnvel hægt að þakka fyrir að strákurinn var í leðurjakka sem hefur tekið aðeins úr högginu.
Búið er að finna þá sem réðust á hann og líklegt er talið að þetta tengist ákveðnum manni sem laug upp á hann ljótri sögu og átti þessi árás að vera hefnd fyrir einhverjar upplognar sakir.

Okkur er að sjálfsögðu mjög brugðið og ég tala nú ekki um eftir fréttirnar um aðra hnífsstungu nóttina á eftir. Hvað er eiginlega að gerast í þessu litla samfélagi okkar?

Jæja, ég verð bara blogga seinna um afmælið hennar Indu á laugardagskvöldið og kvalirnar sem það olli á sunnudaginn (já og í dag, mánudag líka!!).

Bless þar til síðar og farið varlega í miðbænum!!!

3.3.06

Fjall vikunnar er...

... Helgafell ofan Hafnarfjarðar.
Við Depill vorum svo dugleg í blíðunni í gær að ganga upp á það. Það er að vísu ekkert voðalega hátt eða erfið ganga en útsýnið var fagurt og útiveran góð.
Þegar upp var komið settist Depill niður og horfði lengi yfir allt saman eins og kóngur í ríki sínu :) Við fengum félagsskap 12 Hrafna sem sveimuðu yfir okkur, hundinum til mikillar undrunar.
Þessa mynd tók ég á símann minn og er mest hissa á því hvað hún er góð.


"vá hvað heimurinn er stór!"

Hérna sést niður í Kaldárbotna þar sem sumarbúðir KFUM og K eru, Kaldársel.


2.3.06

Varðhundur

Litli héppinn minn er viss um að hann sé stór og sterkur varðhundur og geltir eins dimmraddað og hann getur ef einhver gengur um útidyrnar að nóttu til!! Ferlega fyndið þar sem svo kemur stökkvandi á móti fólki voðalega glaður doppóttur hvolpur :)

Annars gengur lífið sinn vanagang á okkar heimili. Ólöf er í skólanum og vinnunni og svo hitti ég hana öðru hvoru heima við. Hildur hefur verið hjá pabba sínum þessa viku og kemur aftur heim á sunnudag svo að nú er ég á naggrísavakt. Það er sko passað upp á að ég gleymi ekki að gefa greyinu að borða því Hildur hringir reglugega og tékkar á því.
Hjá mér er nóg að gera í vinnunni og fór ég m.a. í dag og náði í ráðherrabréf sem segir að nú megi ég skv. lögum kalla mig tæknifræðing!!! :=)

Ég keypti mér bíl um síðustu helgi, yngdi upp um 6 ár en er samt ekki búin að ná því að eiga bíl sem framleiddur er tvöþúsundogeitthvað....! Það gerir ekkert til, þessi er líka Toyota eins og sá gamli nema aðeins nýrri eins og áður segir og einnig station svo að nú er pláss fyrir vesalings bílveika hundinn. Ef ykkur vantar gamlan ódýran bíl sem enn er hellingur eftir af, þá er ég með einn til sölu!

Það stefnir í svaðalegt djamm á laugardagskvöldið þegar Inda vinkona mín ætlar að halda uppá þrítugsafmælið sitt. Ég er strax farin að kvíða sunnudeginum :/ En ég efast ekki um að það verði stuð í afmælinu, allavega ætla ég að leggja mitt af mörkum til þess að svo geti orðið.

Heyrumst síðar...