Orðin ein í kotinu
Jæja Hildur er farin heim til Íslands og ég er orðin ein eftir í Skotlandinu.
Við leigðum okkur bíl á föstudaginn og lögðum af stað héðan frá Edinborg niður til Manchester um morguninn, keyrðum sem minnst eftir hraðbrautunum heldur tókum aðeins minni vegi og nutum útsýninsins. Við keyrðum í gegnum The Lake District og vá hvað það er fallegt þar. Stoppuðum í mjög fallegum litlum bæ sem heitir Keswick og drukkum í okkur andrúmsloftið í þessum gamla, enska bæ.
Þegar við komum á flugvöllinn í Manchester þá fengum við að vita að það væri um tveggja tíma seinkunn á fluginu hennar Hildar sem gerði í sjálfu sér ekki mikið til fyrir hana en gerði mig pínu stressaða. Sérstaklega þar sem ég lagði af stað keyrandi til Skotlands aftur eftir að hún var komin í gegnum öryggishliðið og þegar ég var komin langleiðina heim þá var hún ekki ennþá búin að fá að vita frá hvaða hliði flugvélin færi. En jæja þetta leystist allt að lokum og Einar Marlboro beið hennar á Keflavíkurflugvelli og kom henni í rúmi sitt í Grýtubakkanum.
Það var ekkert voðalega gaman að þeysa eftir hraðbrautinni í myrkrinu hingað heim en þegar ég sá ljósin í Edinborg þá fannst mér ég vera komin heim, - já HEIM! Því hérna líður mér svo vel og ég kom eiginega sjálfri mér á óvart þegar ég fann þessa "aaahhh, heima" tilfinningu við að sjá borgina. Þessa tilfinningu fæ ég alltaf þegar ég keyri inn Skutulsfjörðinn og sé Ísafjörð en ekki þegar ég nálgast Reykjavík.
Hildur er svo að fara í Bása með skólafélögunum úr Háteigsskóla í dag og fram á þriðjudag en ég er lögst yfir vinnuna fyrir lokaverkefnið mitt.
Kveðja heim á degi sjómannanna okkar!
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home