25.10.05

Ræktin jejeje

Já þeir sem ekki sitja nú þegar við lesturinn, vinsamlega setjist niður áður en þið lesið lengra!
Hún ég, er búin að kaupa árskort í líkamsrækt!!! Þeir sem þekkja mig eitthvað smá, vita að ég hef haft algera fóbíu á líkamsræktarstöðvum og eins og örugglega flestir, þá hef ég nokkrum sinnum farið í smá tíma og gefist upp í hvert og eitt einasta skipti. En nei nei, maður er allt í einu svona svakalega bjartsýnn!!! Við skulum svo bara bíða og sjá til hvernig þetta fer, engar stórar yfirlýsingar í byrjun.
Ég byrjaði s.s. á laugardaginn í Baðhúsinu og var hún Inda svo almennileg að leiða mig í gegnum stöðina svona í byrjun og miðla til mín af reynslu sinni. Hún er búin að vera svo ofboðslega dugleg þarna að maður verður að taka hana sér til fyrirmyndar. Síðan á laugardaginn er ég svo búin að fara tvisvar sinnum aftur og meira að segja var ég mætt þarna fyrir kl. 7 í morgun ;) OG... viti menn, mér finnst þetta bara gaman og get ekki beðið eftir að fara aftur, það hefur aldrei komið fyrir mig áður. Nú vona ég bara að það sé merki um að ég sé tilbúin núna til þess að taka mig á!!!

Lokaverkefnið gengur hrikalega illa núna, ég kann bara hreinlega ekki nógu mikið!!! úff - púff, nú er bara að spíta í lófana og argast áfram. Það er bara verst að svona stress fer beint í mallann minn og eftir pestina um daginn þá er hann ekkert of hrifinn af svona óróleika (eins gott að vera nálægt WC!!!).

En jæja, tíminn líður og það þýðir ekkert að sitja hér og blogga, vinnan til hádegis og svo að læra-læra-læra :(

Bið að heilsa í bili

18.10.05

Menntaskólapía á árshátíð

Sjáið þið bara stóru stelpuna mína :) Svona fór hún klædd á árshátíð MR í síðustu viku:



17.10.05

Kvíðinn

Ég hef ekki talað lengi um veikindin mín, þ.e. ofsakvíðann sem ég hef þjáðst af núna í nokkur ár. Ástæðan er sú að þetta hefur ekki verið að þjaka mig mikið undanfarna mánuði. Þegar þetta liggur svona í dvala þá hefur maður tilhneigingu til að halda að núna sé þetta bara hætt og hættir að fatta að bregðast við fyrstu einkennum þegar köstin eru að koma.

Í morgun vaknaði ég alveg þvílíkt hress, með algert ógeð á letinni og slugsinu undanfarið og þá sérstaklega á mataræðinu sem ég hef verið að stunda. Ég hef nefnilega verið með óhemju matarlyst og hreinlega étið eins og svín. En í morgun þá vaknaði ég s.s. eftir að hafa legið andvaka hluta næturinnar og ákvað að nú skyldi sko tekið á málunum. Byrja aftur á Herbalife og fara að hreyfa mig. Ég er búin að vera að hugsa um það í marga mánuði hvað mig langi til að fara að hreyfa mig en hef ekki gert neitt í því, bara legið í sófanum og prjónað!!!
Svona fór ég, full af orku og góðum fyrirheitum, í vinnuna í morgun. EN viti menn... upp úr kl. 11 byrjaði allt kerfið í líkamanum að gefa til kynna að núna væri ég að fá mitt gamla, "góða" kvíðakast með öllu tilheyrandi. Kaldur sviti, hraður hjartsláttur, ógleði, niðurgangur og einbeitningarskortur. Þegar ég hafði hunsað þetta í um klukkutíma, af því að ég hef hreinlega ekki tíma til þess að standa í þessu núna, þá fóru að læðast að mér kvíðahugsanir og angist.
Úff, úff, að maður skuli ekki hafa stjórn á þessu helv...! Það er svo mikið að gera á öllum vígstöðvum að ég get ekki leyft mér að fara heim og taka eina pillu og sofa fram á kvöld. Það er nú samt það sem virkar best við þessu :(
Ég hugsa að ástæðan fyrir því að þetta lætur á sér kræla núna sé stress og "overload".

Það er eitt svo skrítið að þegar ég verð svona þá verð ég svo viðkvæm fyrir öllu. Varnirnar hreinlega hrynja. Þá fer ég líka að hugsa um alls konar atriði sem láta mér líða verr og alltaf skal þar vera fyrst á dagskrá samskipti dætra minna við pabba sinn eða öllu heldur engin samskipti hans við þær. Ég vildi óska að það væri hægt að þurrka svona út úr mynninu á manni. En maður er líklega eins og tölvur, það sem fer inn á harða diskinn skilur alltaf eftir einhver spor þar þó maður reyni að eyða því!!!
Ég bara get ekki skilið hvernig hægt er að ganga í burtu frá börnum sem maður bjó með fram á 8 og 12 ára aldur og láta eins og manni komi þeirra líf ekkert við lengur. Þetta hlýtur að vera rannsóknarefni fyrir einhvern fræðinginn í mannlegri hegðun???

14.10.05

Jamm og jæja

Ég þurfti að snúa öllu við heima hjá mér í gærkvöldi til að leyta að einni möppu síðan í skólanum í vor. Að sjálfsögðu fann ég fullt af möppum, troðfullum af námsefni en ekki þá sem ég var að leita að.
En ég fór að hugsa þegar ég var að fletta í gegnum glósur og námsefni síðustu 3-4 ára, úff hvað ég er búin að fara í gegnum mikið af efni!!! Mér hefur ekki fundist ég kunna neitt sérstaklega mikið í mínu fagi þegar á hefur reynt í vinnunni en þegar ég skoðaði allt þetta námsefni þá rann það upp fyrir mér að ég kann líklega meira en ég hélt. Þarna voru alls konar hlutir sem ég gæti alveg kraflað mig í gegnum ef á reyndi og ég fékk meira að segja áhuga á því að renna í gegnum slatta af þessu aftur!!! Bara svona til að bursta rykið af ýmsu og svo held ég að skilningurinn hafi vaxið á mörgum þáttum eftir að ég fór út á vinnumarkaðinn.
Ég er svo ánægð með að hafa drifið mig í þetta nám og er svo ánægð með að hafa valið byggingatæknifræði :) Er alveg að fíla mig í tætlur og er meira að segja farin að hugsa um mastersnám. Ætla samt að vinna í 1-2 ár áður en ég tek ákvörðun um það.

7.10.05

Að batna

Já mér er að batna og er farin í vinnuna og skólann. Stóri bústni mallakúturinn minn er að vísu ansi aumur og þarf ég að passa vel hvað ég set ofan í hann, enda engin furða eftir átökin síðustu daga.

Annars er lítið að frétta úr þessum herbúðum, bara same old same old...

Ætla að vera dugleg að læra um helgina og á svo að hitta leiðbeinanda minn á mánudaginn til að fara yfir stöðuna.
Set kannski inn einhverjar hávísindalegar spekúleringar hérna bráðum því að ég hef hugsað mikið upp á síðkastið um lífið og tilveruna í nútíð, fortíð og framtíð.

Bless þangað til...

5.10.05

Heilsuleysi

Já síðustu dagar eru ekki búnir að vera skemmtilegir hjá mér.
Ég byrjaði með timburmönnum a-la Anna á sunnudaginn en var byrjuð að jafna mig á þeim magakvölum um kvöldið og meira að segja farin að geta borðað. Vaknaði svo upp um nóttina, aðfararnótt mánudagsins og gubbaði og gubbaði með þessum líka magakrömpum að ég hélt ég mundi ekki lifa það af. Þegar ég svo vaknaði um morguninn til að koma stelpunum í skólann þá var ég enn að drepast í maganum og hríðskalf og svitnaði svo mér datt í huga að mæla mig. Viti menn, ég var bara komin með um 39° hita!! Ég sem fæ aldrei hita! Þannig að það var bara rúmið fyrir mig og þar hef ég verið til blands við þegar ég færi mig fram í sófa, allan mánudaginn og þriðjudaginn. Magakramparnir hafa haldið áfram og ef ég hef látið eitthvað annað ofan í mig en kók, þá fæ ég verulega að finna fyrir því. Arrgg.... ég þoli ekki að vera veik!!! Ég hef enga þolinmæði í það :(
Ég gat að vísu borðað smá núna í kvöldmatnum (þriðjudagur) án þess að maginn færi í stóran hnút, en þá svolítið seinna kom það sér vel að vera ekki of fjarri klósettinu því að nú var kominn tími til að snúa hinum endanum að því (if you know what I mean!!!) Svoleiðis hefur kvöldið sem sagt liðið!

Ég hef hreinlega engan tíma til að liggja heima veik núna. Brjálað að gera í vinnunni og þyrfti að vinna massa mikið í lokaverkefninu. En það er víst ekki spurt að því.
Ótrúlegt hvað maður verður samt ósjálfbjarga svona lasin. Ólöf hefur verið í skólanum fram á kvöld þessa daga og í vinnunni líka svo að ég hef verið að senda Hildi út í búð eftir meira kóki (ætla sko ekki að hugsa um hvað ég hef drukkið marga lítra af því síðustu sólarhringa!!!) og svo fékk ég Dagrúnu til að fara fyrir mig í búð og kaupa nauðsynjar. Uppvaskið hleðst svo bara upp og annað sem þarf að gera hérna heima. Líklega væri stundum ágætt að hafa maka sem gæti hjálpað upp á í svona aðstæðum?? Æi, ætli þeir hjálpi svo mikið hvort eð er, ekki er það mín reynsla allavega!!!

Jæja þá er ég búin að fá að væla smá hérna. Skrifa ekki meira fyrr en eitthvað jákvæðara er að frétta...