31.3.08

Veikindi


Ég er búin að vera svo hund-veik síðan á miðvikudag í síðustu viku að ég hef ekki sest við tölvu fyrr en núna. Blogga meira seinna, t.d. um páskaferðina vestur og svoleiðis en vildi bara aðeins láta vita af því að ég er ekki alveg dauð!

Heyrumst brátt aftur...

18.3.08

Stundum fer ég vestur

Síðasta helgi var afskaplega falleg. Jónas afi var jarðaður á laugardaginn frá Árbæjarkirkju rétt hjá Hellu og skartaði sveitin hans sínu fegursta þann daginn. Sólin skein í kuldanum og útsýnið var alveg dásamlegt. Athöfnin var virkilega falleg, mikið sungið af fallegum ættjarðarlögum og sálmum enda hafði afi mikið yndi af söng. Ég held að allir hafi bara verið voðalega sáttir eftir þennan fallega dag. Amma komst því miður ekki austur í jarðaförina þar sem hún er rúmföst á landsspítalanum en Helena frænka mín var svo yndisleg að sitja hjá henni og hjálpa henni við að fylgjast með athöfninni í gegnum síma.
Við Dísa systir fengum að gista í Oddsparti og var Ebba litla voðalega sæl og glöð þar. Takk fyrir okkur Dagrún :)

Nú er svo komið að páskaferð til Ísó og er fyrirsögnin á þessari bl0ggfærslu í tilefni þess. Þar sem heiti tónlistarhátíðarinnar fyrir vestan um páskana er "aldrei fór ég suður" en það á ekki við hjá mér þar sem ég fór jú suður og m.a.s. ílengdist þar :) En á morgun ætlum við s.s. að aka vestur og ætlar Dagrún að koma með okkur. Björk bróðurdóttir mín á að fermast á skírdag og ætlum við Dísa að gista á Góustöðum með fjölskyldur okkar.
Sem sagt, framundan er fermingarveisla, tónlistarveisla og fullt af ömmu og afa - hittingi :)

Hafið það gott um páskana öll sömul og passið ykkur á ofáti (er ekki viss um að ég geti það sko...)


p.s. Elsku Inda og Magga, innilega til hamingju með fermingarbörnin ykkar um síðustu helgi!!

7.3.08

Sorg

Hann Jónas afi er dáinn. Hann varð bráðkvaddur í fyrrinótt heima hjá sér.
Eins og ég sagði í síðustu viku hérna þá voru ömmur mínar ótrúlegu báðar hætt komnar í aðgerðum og nú eru þær báðar á hægum batavegi. Alla, móðuramma mín, fór í stóra kviðarholsaðgerð fyrir viku síðan sem var hreinlega upp á líf og dauða. Allir voru búnir undir það að þetta gæti farið á báða vegu. Hún lét ekkert segja sér það og vaknaði eftir aðgerðina ákveðin í því að ná sér. En á meðan hún lá á Landspítalanum að jafna sig þá dó maðurinn hennar, hann Jónas afi. Hann var ekki heilsuheill eða eins og hann sjálfur sagði þá var skrokkurinn alveg búinn. En kannski vegna þess að hann var alltaf svo hress í anda og alltaf að hjálpa ömmu og hugsa um hana, þá kom þetta svo flatt upp á alla.
Þau afi og amma voru gift í um 60 ár og voru mjög samrýnd. Afi var í raun stjúp-afi minn en aldrei fundum við systikinin neinn mun á því hvort hann ætti í okkur einhvern blóðdropa, hann átti okkur öll barnabörnin jafnt. Jónas afi var einn besti maður sem ég hef kynnst og hans skarð verður ekki fyllt. Ég ætla að láta allar góðu minningarnar um hann hjálpa mér í gegnum næstu daga og vikur sem verða erfiðar. Sérstaklega erfiðar fyrir ömmu sem misst hefur svo mikið einmitt núna þegar hún hefði þurft á öllum sínum styrk að halda til þess að ná heilsunni eins vel og hægt er.

Elsku besti Jónas afi, þakka þér fyrir að hafa verið í lífi okkar mæðgnanna og takk fyrir að vera eins einstakur maður og þú varst. Hvíl í friði.

4.3.08

Vill ekki einhver eiga mig??