31.10.07

Nú er það orðið opinbert...

Við heilsufarsskoðun hjá dýralækni fékk nýja kisan þetta komment: kettlingurinn virðist heilbrigður og rétt skapaður, bæði eistu gengin niður í pung! Þá vitum við það, hún Mía litla er elsku Míó minn :) Þeir fóstbræður, Karíus og Míó eru farnir að leika sér eins og brjálæðingar og voru m.a.s. staðnir að því að sofa saman í rúminu mínu þegar þeir héldu að enginn sæi til!

En herðablöðin á mér og hálsvöðvarnir eru aumari en ég get líst. Kínverjinn er búinn að stinga mig með nálum aftur og svo setti hann á mig einhverja heita bolla sem hann svo lofttæmdi svo ég er núna með fimm stóra kringlótta sogbletti á bakinu. Depill heldur örugglega að ég hafi gert þetta svo ég gæti verið doppótt eins og hann :) Set inn mynd af þessum ósköpum seinna, núna ætla ég að halda áfram að vinna....

29.10.07

Kínverskt nudd og fleira

Síðasta vika var ömurleg hjá mér. Ég lá heima miðvikudag, fimmtudag og föstudag með þvílíkan hausverk og vesen. Hélt fyrst að þetta væri "bara" vegna vöðvabólgunnar í hálsvöðvunum en fór svo að hallast að því að þetta væri einhver flensuskratti þegar ég fékk eymsli í hálsinn og var alveg bakk í 3 daga. Skapið mitt er ekki hannað til þess að liggja heima í þrjá daga svo að aumingja dæturnar og dýrin fengu alveg að finna fyrir því :(

En á laugardaginn fór ég aðeins af stað og skrapp í smá búðasnatt með Hildi og Jónu sem varð svo til þess að ég þurfti að leggja mig þegar heim kom (meiri aumingjaskapurinn í manni!). Um kvöldið tók ég mig svo til og fór í partý - Já ótrúlegt en satt, ég drattaðist út úr húsi og á mannamót :) Leiðin lá í Hafnarfjörðinn til þeirra Hog Riders manna þar sem var fullt af mannskap frá flestum norðurlöndunum og þar á meðal slatti af fólki sem maður þekkti. Við sátum og drukkum þarna fram á klukkan 4 um nóttina og þegar Magga ætlaði svo að draga mig niður í bæ þá sagði ég stopp og fór heim, enda ekki þekkt fyrir að komast í hálfkvisti við svoleiðis djammdrottningu :)

En þá kem ég að því sem titilll þessa blogg ber með sér. Ég hef verið að drepast í vöðvabólgu í hálsi og herðum og svo eftir rúm-/sófaleguna fyrir helgina þá var eins og einhver taug hefði klemst hjá herðablöðunum og verkirnir alveg að fara með mig. Þá benti einn vinnufélagi minn mér á að fara hérna yfir götuna (í Hamraborginni) til Kínverjanna í nudd. Ó JÁ þvílíkt nudd!!! Ég átti að vera í klukkutíma en var í heila tvo tíma þar sem nálastungum var bætt við í lok nuddsins. Sú sem nuddaði mig var ekkert að taka á manni neinum vettlingatökum heldur bara almennilega og það bæði með höndum og fótum! Ég hef oft farið í nudd en þetta er sko það langbesta hingað til og svo er þetta alls ekki svo dýrt. Á morgun bauð hún mér upp á að koma aftur í nálastungur vegna hálsvöðvanna og svo ætla þau að leggja einhverja hitabakstra á þá líka. Já það er sko ekki alltaf neikvætt þegar gengið er yfir mann.......

19.10.07

Af dýrum

Þar sem ég veit að sumir sem lesa þetta blogg eru líka svona smá klikk dýrafólk eins og ég þá má ég til með að koma með smá update af samskiptunum heima hjá mér þessar dagana.
Ltili kisinn er líklega Míó (sbr. "Elsku Míó minn") en ekki Mía litla! Allavega finnst okkur grunsamlegt þykkildi þarna á milli afturfótanna að greyinu ;) Það kemur endanlega í ljós á þriðjudaginn þegar hann/hún fer í sprautu og tilheyrandi. En það er svo fyndið að fylgjast með samskiptunum á milli Depils, Karíusar og Míó/Míu. Sá litli er nefnilega ekkert hrædd(ur) við Depil og spókar sig bara um heima eins og hann/hún eigi heimilið skuldlaust og sé aðaldýrið á bænum. Kemur hlaupandi og mjálmandi hástöfum á móti okkur þegar við komum heim og kíkti meira að segja í matardallinn hans Depils á meðan Depill var að borða. Þið hefðuð átt að sjá hissa svipinn á hundinum, HAHAHAHA...! Hann er nefnilega vanur því að Karíus stekkur alltaf í örugga fjarlægð þegar Depill hnusar af honum og býður honum alltaf upp á hasar eltingaleik. Depill er því líka farinn að passa upp á beinin sín, hann tekur bein í kjaftinn og labbar að litla kisa og urrar, bara svona til að segja: "hey, ég á þetta bein, ef þér skildi detta eitthvað annað í hug"! Hann áttar sig auðvitað ekki á því að beinið er litlu minna en allur kettlingurinn :)
Karíus er a.á.m. mjög súr yfir þessu litla kattardýri og hvæsir og urrar á hann/hana úr fjarlægð. Hann er svo fúll við okkur að hann er meira úti en áður og fyrsta sólarhringinn vildi hann ekkert við okkur tala. En hann er nú farinn að koma aftur til mín og kúra og mala á kvöldin svo ég vona að hann venjist þessu. En þetta er samt svo fyndið, bæði Depill og Karíus eru svo abbó út í litla krílið :) Depill krefst meiri athygli (eins og það hafi nú ekki verið nóg fyrir!) og hinn dregur sig til baka svo við verðum að passa alltaf að tala jafnt við alla þrjá. Úff þetta er eins og eldri systkini sem fá lítil barn inn á heimilið, hehehe...

Talandu um dýr, þá kjaga ég eins og önd núna. Í gær fór ég að finna fyrir svo miklum stirðleika í mjóbakinu að ég á svo erfitt með að rétta úr mér þegar ég stend upp. Þess vegna verður göngulagið á mér eins og ég sé komin svona 8 mánuði á leið og þar sem bumban á mér lítur nú eiginlega þannig út líka þá mundi ég ekki vera hissa á því að það yrði staðið upp fyrir mér í strætó (ef á annað borð þannig væri gert á Íslandi sko). Sem sagt, ég er EKKI ólétt þó útlit og göngulag gæti gefið annað í skyn :)

Eigið þið góða helgi öll sömul....

16.10.07

Ný kisa á heimilinu

Ég er alltaf jafn soft fyrir kisum í neyð og það þurfti ekki mikið til að brjóta niður sýndarmúrinn á laugardaginn þegar ég fékk símtal þess efnis að eina litla sæta læðu vantaði svo heimili. Auðvitað tókum við hana að okkur og vonumst til þess að hún og Karíus verði vinir svo hann minnki kannski aðeins mjálmið og óhóflega athyglisýki sína. Þar sem við vorum búnar að sjá munstur í dýranöfnum hjá okkur í gegnum tíðina (þau virðast oftast hafa komið úr barnabókum) þá var sú stutta skýrð Mía litla (úr múmínálfunum). Nafnið fer henni vel, hún er svo mikil skotta :)
Strákarnir tóku henni ekkert of vel í fyrstu og hún ekki þeim. Depill var eins og honum er von og vísa, voðalega spenntur og vildi þefa og þefa fast af henni svo hún bara hvæssti á hann. Þau Karíus hvæsstu líka á hvort annað og vildu ekkert við hvort annað tala. En í gærkvöldi (sólarhring eftir komu hennar) þá var hún farin að skoppa um frammi hjá okkur þrátt fyrir Depil, voða hugrökk lítil kisa :) Karíus hefur aftur á móti ekki komið mikið inn og er í hálfgerðri fýlu við mig. Þetta jafnar sig allt saman, sérstaklega þar sem sú stutta er svo hugrökk og mannelsk. Hérna eru tvær myndir sem ég tók í gærkvöldi, hún var að vísu voðalega syfjuð þegar þetta var tekið en kostulegur svipurinn á henni þar sem Depill er að troða nefinu á sér í hana: "Æi hundur láttu mig vera..."



8.10.07

Dásamlegt- dásamlegt

Helgin í Kerlingafjöllum var alveg frábær. Við vorum ekki komin þangað uppeftir fyrr en um kl. 10 á föstudagskvöldið svo að við sáum ekkert hvar við vorum eða hvernig það leit út vegna svarta-myrkurs. Þegar lagst var í koju um miðnættið var hellirigning og vindur en þegar við vöknuðum á laugardagsmorgun var komin snjóföl yfir allt og 6 stiga frost. Ohh, það var svo yndislega vetrarlegt :) Það bætti svo í vindinn og við fengum voða venjulegt vetrarveður með kuldabola og skafrenningi. Ég er svo mikið vetrarbarn (líklega í blóðinu og uppeldinu) að ég naut þess í botn að vera í þessum þræsingi eins og sjá má á þessari mynd sem tekin var af okkur mæðgum í gönguferð:


Vindinn lægði svo þegar líða tók á daginn og var komin sól um kvöldið. Þá var tekið til við að grilla og borða þangað til allir stóðu á blístri og að lokum var sest með Swiss Miss og Stroh :)

En þegar fólk er komið aðeins (já bara aðeins!!!) ofan í þá frændur Captain Morgan og Stroh þá lítur það svona út eins og sést hér til hliðar (!)


Sunnudagurinn var svo fagur að mann langaði alls ekkert heim. Heiðskýrt, sól og snjór uppi á fjöllum, það verður ekki mikið dásamlegra en það! Það liggur við að ég verði að kaupa mér jeppa svo ég geti farið oftar í svona ferðir... ohh, gaman -gaman! Sem betur fer þá nýttum við daginn vel og flýttum okkur ekkert heim. Það var ekið um þarna í kring og stoppað oft til þess að skoða sig um. Við komum ekki til byggða fyrr en um kl. 10 í gærkvöldi, allir mjög þreyttir og útiteknir (nema kannski Depill sem var bara þreyttur).


Ég held að allir hafi skemmt sér mjög vel, allavega heyrist mér það á þeim sem ég hef hitt í dag hérna í vinnunni, svo þetta var virkilega vel heppnuð ferð í alla staði. Við vorum um 24 manns með börnum og einn hundur.


Að lokum má ég til með að setja inn eina fallega mynd sem var tekin á sunnudaginn í bíltúr sem við fórum í upp á hverasvæði þarna nálægt:

5.10.07

Kerlingafjöll um helgina

Starfsmenn VSI ætla að fara í Kerlingafjöll um helgina. Vonandi þóknast vegðurguðunum að minnka aðeins vatnsflóðið sem staðið hefur undanfarið svo við hreinlega drukknum ekki þarna uppfrá. Hver veit, kannski er orðið svo kalt uppi á hálendinu að úrkoman verði frekar snjókoma, ég er alveg sátt við það! Þoli bara ekki þessa helv.... bleytu :(

Ég er búin að pakka niður Stroh-inu (aðeins 80% alc.vol!!!) og einhver annar ætlar að muna eftir Swiss-Missinu svo annað minna mikilvægt má þess vegna gleymast, hehehe.....!


Hafið það gott um helgina dýrin mín stór og smá...

1.10.07

Löt - latari - Lötust

Já það er ég, latasta manneskja jarðarinnar, allavega nýliðna helgi! Ég gerði næstum ekki neitt alla helgina, var heima hjá mér án þess að taka til hendinni þar, skrapp aðeins út með hundinn og aðeins út að hjóla en annars bara las ég eða horfði á sjónvarpið. Þangað til seinnipartinn í gær þá var mér farið að ofbjóða og drattaðist upp í vinnu og tók smá vinnutörn.
Úff já, stundum er gott að gera ekki neitt en stundum getur það líka farið út í öfgar. Ojæja það er búið og gert!!!

Framundan er busy vika í vinnunni, allt kolklikkað að gera þar og svo kemur Dísa systir í bæinn með Ebbu litlu og ég ætla að gefa mér smá tíma með þeim.

Kveðja frá Latastabæ....