29.3.05

Og tíminn líður víst...

Jú jú ætli hann haldi ekki áfram að líða þrátt fyrir að stundum vildi maður getað hægt á honum!
Ég hef verið að velta fyrir mér undanfarið hvað mér finnst langt síðan stelpurnar voru litlar. Þá fer ég líka að hugsa um lífið sem ég lifði þá og hvernig mér leið. Það er engin spurning að ég naut þess virkilega að eiga lítil börn, að fylgjast með þeim stækka og þroskast á fyrstu árum þeirra er eitthvað alveg sérstakt. Mér finnst það líka alveg jafn gaman núna þegar þær eru orðnar svona stórar og sjálfstæðar manneskjur.
En ég sjálf á þessum árum, milli tvítugs og þrígtugs??? Úfffff....... ég var nú ekki upp á marga fiska. Þegar ég lít til baka þá finnst mér svo óralangt síðan ég skildi við Vignir. Ég veit að ég var löngu tilbúin til þess þegar ég lét loks til skara skríða en að það skuli bara vera 4 ár síðan, það er ótrúlegt. Ég get samt varla sagt að ég hafi endilega breyst svo mikið heldur frekar að ég sjálf hafi komið aftur í ljós.
Ég er mjög ánægð með manneskjuna sem ég er í dag og skal aldrei hleypta þessari óöruggu og klemmdu persónu fram aftur. En ég tel líka að það sé nauðsynlegt að vera gagnrýnin á sjálfan sig því að það er hollt að endurskoða sig reglulega til þess eins að halda áfram að þroskast út allt lífið. Ég vona að ég komi til með að hafa vit á því að gera það.
Mistök eru til þess að læra af þeim! Þetta er sko hverju orði sannara og þess vegna á maður ekki að vera hræddur við að gera mistök. Það er svo aftur spurningin um að hafa vit á því að gera ekki sömu mistökin oft !! Því að þá er maður varla að læra neitt af þeim, ekki satt? Ég lít t.d. á sum sambönd mín við hitt kynið sem skemmtilegt innlegg á lífsleiðinni en svo á önnur sem mistök sem ég á að læra af. Og þó það sé sárt að læra af svoleiðis mistökum, allt sem snertir tilfinningar er sárt, þá veit ég að ég á örugglega eftir að gera fleiri svona mistök. Einhver sagði að maður yrði að kyssa marga froska áður en maður finndi prinsinn ;)
Þá er bara að passa sig á að þetta séu örugglega froskar en ekki körtur!!! ojjj........

24.3.05

Tölvur-tölvur-tölvur....!

Vitið þið hvað kom fyrir hjá mér? ÚFFF!!!
Hún Björk vinkona mín, sem sé alveg um mín tölvumál, tók tölvuna mína í fyrradag og staujaði hana og setti allt upp aftur. Það var sko kominn tími á það því allt var í einhverju basli hjá mér. En ég, snillingurinn sjálfur, tók auðvitað allt (hélt ég) sem ég vildi eiga og vistaði á disk. Fullt af verkefnum og glósum, myndum og tónlist ásamt ýmsum nauðsynlegum upplýsingum. En viti menn, í fljótfærni minni þá tók ég möppu af desktoppinu og færði hana inn í Nero til að brenna. Sú mappa innihélt ekkert heldur var "short-cut" á aðal möppuna svo að ég MISSTI ALLT!!!
Ég var næstum því farin að grenja í morgun þegar ég komst að þessu.
Það vill til, að ég skilaði tveimur stórum verkefnum í vikunni svo að þau eru til útprentuð. Svo er líka lán í óláni að ég hafði verið svo mikill slóði í tveimur öðrum verkefnum sem ég þarf að gera núna yfir páskana, að ég var ekki búin að gera mikið í þeim. Þar verð ég s.s. að byrja frá byrjun. Glósur frá kennurum get ég nálgast hjá skólafélögunum og svo fann ég sitt af hvoru, eins og myndir á disk sem ég vistaði á í janúar. En úff maður, þetta verður til þess að ég verð duglegri að taka afrit á diska oftar!!!

Jæja best að hætta núna, er að fara í fermingarveislu hjá frænda mínum. Það verður gaman að hitta ömmu í sveitinni og afa og alla hina úr þessum anga fjölskyldunnar.

23.3.05

Ein í kotinu

Já ég er orðin ein í kotinu og verð það fram á mánudag.
Þetta skeður nú ekki oft hjá mér en ég kann alveg að njóta þess þegar það er. Ég fór í Kringluna eftir að hafa farið með Hildi út á flugvöll og spanderaði smá dekri í sjálfa mig. Fyrst keypti ég mér 10 stóra appelsínugula túlipana svo 1 pakka af eðal-dökku súkkulaði og fjóra sérvalda súkkulaðimola í konfektbúðinni. Þá lá leiðin í ÁTVR þar sem ég náði mér í stóra flösku af rósavíni svo í Body-shop þar sem keypt var góð og freyðandi baðmjólk og endaði ég ferðina í Hagkaup þar sem jarðarber og ýmsir ávextir og grænmeti settu punktinn yfir iið.
Núna er ég sem sagt sest við tölvuna, búin að fá mér smá súkkulaði og jarðarber, túlipanarnir brosa við mér og ég er tilbúin í lærdóminn. Stefnan er tekin á rósavínsglas í freyðibaði þegar ég er búin að læra nóg í kvöld.

Bless þar til síðar elskurnar....

20.3.05

Vá hvað ég á gamlan bróðir!!

Já haldið þið ekki bara að stóri bróðir minn sé fertugur í dag! Til hamingju Búbbi!! Ótrúlegt hvað allir í kringum mig eldast á meðan ég er ennþá unglingur! Mér líður allavega alltaf eins og unglingur enda segir spakmælið að maður sé aldrei eldri en manni finnst maður vera.

Stelpurnar eru komnar í páskafrí en það er kennt í mínum skóla á mánudag og þriðjudag. Ekki það að ég sé neitt komin í frí eftir það, nei nei, verkefnin hrannast upp og ég sé fram á heví vinnu alla páskana. En það er líka allt í lagi, ég verð ein heima og þarf því ekki að elda eða spá í neinum nema sjálfri mér og þá verður mér alltaf alveg heilmikið úr verki. Ólöf fór vestur til pabba síns í dag og ætlar að vinna í skóbúðinni hjá mömmu fram að páskum. Hildur fer vestur á miðvikudaginn og svo koma þær heim á annan í páskum.

Dagrún og Einar komu í mat til okkar á föstudagskvöldið. Sko ég keypti í matinn og Dagrún eldaði fyrir okkur. Svo sátum við stelpurnar og fengum okkur aðeins í glas þangað til Einar kom aftur af fundi og þá skelltum við okkur í heimsókn til Berserkja sem voru með opið hús hjá sér. Þar sátum við og kjöftuðum í 1-2 tíma eða þangað til bílstjórinn okkar vildi fara að komast heim. Klukkan var þá eitthvað á milli 3 og 4 og við ákváðum að fara báðar heim til mín þar sem bíllinn hennar Dagrúnar var þar og hún átti að fara á fund morguninn eftir.
En lítið breytist þó maður fullorðnist eitthvað smá. Þegar vinkonur fengu að gista hjá manni í gamla daga þá var kjaftað fram eftir nóttu þangað til mamma eða pabbi voru búin að sussa á okkur einum of oft. Og það var einmitt svoleiðis hjá okkur núna. En þar sem engir foreldrar voru á staðnum þá kjöftuðum við allt of lengi eða fram á hálf 6 ;)
Laugardagurinn fór svo í slæping og að dunda með stelpunum og litlu kisunum sem við erum að passa.
Núna (sunnudagur) er aftur á móti ekki boðið upp á neinn slæping heldur er ég uppi í skóla að undibúa vörn á verkefni fyrir morgundaginn. Ætli það sé þá ekki best að láta staðar numið við þessi skrif núna og fara að snúa mér að þrýstireikningum á virkjuninni sem við Pétur
hönnuðum :=/

Bless þar til næst

18.3.05

Hér er ég komin aftur!

Já, eftir margar áskoranir og vegna eigin löngunnar hef ég ákveðið að byrja aftur að blogga.
Ég á eftir að koma síðunni í gott horf aftur þar sem ég í geðvonsku minni eyddi öllu sem á henni var hérna síðast. En bíðum bara róleg og sjáum til, kanski verður þetta flott aftur.

Endilega komið blogginu mínu á framfæri við þá sem áhuga hafa. Skrifa ekki meira í bili því nú ætla ég að reyna að setja inn linka og gestabók svo eitthvað sé nefnt.
Bless þar til seinna.....