30.6.08

Ferðalagið sem breyttist aðeins

Ég var í fríi í síðustu viku og ætluðum við Dagrún í hjólaferð á austulandið. En við breyttum því aðeins og voru nokkrir samverkandi þættir sem urðu til þess. Í staðinn þá fór ég í Þykkvabæinn og hjálpaði Dagrúnu svolítið og hún hjálpaði mér á móti að stússast í hjólinu sem Einar var að lána mér. Já, ég er komin á Harley!! Mér finnst þetta stórt og þungt hjól þegar ég sit á því en þegar það stóð við hlið margra annarra hjóla um helgina þá virkaði það alls ekkert stórt!! Hmmm, ætli það geti stafað af því að ég sé bara svona lítil og vön léttu og meðfærilegu hjóli? Ja, mér er spurn...
Allavega, þá er ég síðan ég bloggaði síðast búin að hjóla á hálf-bremslulausum sportster austur í Þykkvabæ og aðeins meira, vinna í byggingarvinnu, pússa og bóna nýju græjuna og fara á afmælistmót hjá Óskabörnum Óðins. S.s. frábær vika :)

Landsmót bifhjólafólks er svo framundan um næstu helgi og þangað til brjálað að gera í vinnunni.
Reyni samt að blogga aðeins meira um skemmtilegheitin um síðustu helgi áður en skemmtilegheitin byrja aftur um næstu helgi :)

Bless till later....

18.6.08

Afhverju ...

... gerir maður ekki það sem er manni fyrir bestu?? Alveg er það ótrúlegt, finnst ykkur ekki?
Ég fékk eitt sinn mjög góðar leiðbeiningar um mataræðið ásamt því að ég fékk lyf til að hjálpa mér að ná almennri heilsu, hjá henni Kollu grasalækni hérna um árið. Ég var mjög dugleg að fara eftir öllum hennar ráðum í nokkra mánuði og svo fór að fjara undan dugnaðinum. Ég hef samt ekki alveg farið til baka í það sem fer illa í mig þangað til núna undanfarið að ég hef gersamlega dottið í það...! Vitandi vel hvaða afleiðingar það hefur þá hélt ég samt áfram í skyndibita og tilbúninni fæðu. Enda fékk ég það í bakið svo ekki sé meira sagt. Er komin með endalausan niðurgang og magaverki eins og ég var áður en ég byrjaði fyrst á þessum breytingum og er að auki alveg eins og vel fyllt vatnsblaðra af öllum bjúgnum sem er í skrokknum á mér. Þegar ég vakna á morgnana get ég varla kreppt hnefana af bjúg.
Þetta er ótrúlegt af mannskepnunni að geta ekki haldið sig við það sem er henni fyrir bestu, sérstaklega þar sem ég er búin að prófa að hitt virkar í alvöru og mér leið svo ofboðslega vel.

Jæja, það batnar svosem ekkert við það að berja á sjálfri sér, nú er bara að taka mataræðið föstum tökum og vera dugleg að laga það sem ég er búin að skemma.

12.6.08

Flutningavesen formlega hafið

Frá og með þessari viku verður íbúðin mín hálf lömuð vegna fyrirhugaðra flutninga. Það er kannski full mikið að vera í tvo mánuði að pakka og flytja en þannig er að Ólöf er að fara í mánaðar Interrail um í byrjun júlí og þarf að vera búin að flytja sig heim til Rúts áður en hún fer. Við Hildur gerum svo ráð fyrir að tæma íbúðina í lok júlí.
Fyrsti í flutningum var því núna í vikunni þegar Ólöf fékk bókahillurnar mínar úr stofunni. Þar með neyddist ég til að byrja að sortera og pakka því sem í þeim var. Ég ætla að vera svo dugleg að henda/selja/gefa þannig að núna er svaka flokkunarkerfi í gangi heima. Ja kannski ekki svaka kerfi en sumt fer til Ólafar, annað fer til Edinborgar með okkur Hildi, sumt fer í geymslu og restin fer á kompudaga í Kolaportinu og það sem ekki hverfur þar fer beint í Góða Hirðinn. Flott plan ekki satt??
Þar sem Ólöf fær líka lánaðan fataskápinn minn þá er næst á dagskrá að tæma hann. Vá hvað flokkunarkerfið verður þokkalega notað þar!! Er samt mest hrædd um að minnsti hlutinn fái að fara með út og stærsti hlutinn fer líklega í flokkinn sem ég gleymdi að telja upp hér að ofan - ruslið! Ástandið inni í þessum skáp er nefnilega orðið heldur dapurlegt, þarf kannski að reyna að þróa með mér ástríðu til þess að kaupa mér föt...!

Ó, er næstum að gleyma aðal fréttunum - ég seldi hjólið á laugardaginn!! :) Var bara sátt við það sem ég fékk fyrir það, hafði sett mér lágmark og fékk það. Núna er svo bara að ýta og ýta á Einar að koma Hallanum á götuna fyrir mig. Einar Marlboro ætlar s.s. að lána mér einn Harley sportster þangað til ég fer út, þessi elska :) Við Dagrún ætlum svo í viku ferðalag á hjólunum núna í lok júní.

Bless þar til næst...

4.6.08

Long time-no blog

Já ég veit, ég hef ekki sett neitt hérna inn í rúma viku. Ég ætlaði alltaf að setja inn mynd af nýstúdentinum mínum hérna í síðustu viku en komst aldrei til þess. Svo þegar ég loksins ætlaði að taka myndirnar úr myndavélinni þá hafði Hildur verið búin að því og myndirnar eru allar á tölvunni heima. Ég fer a.á.m. eiginlega aldrei í þá tölvu heldur geri allt tölvutengt í vinnunni svo þannig er nú það. Set inn mynd seinna.

Nýjustu fréttirnar af heimilinu eru þær að Depill er kominn með nýtt heimili. Hann fékk æðislegt heimili með hjálp www.dyrahjalp.org og ef hann hefði fengið að velja þá hefði þetta einmitt verið staðurinn sem hann hefði valið. Hann fór á sveitabæ rétt hjá Akureyri þar sem hann fær að hlaupa um víðan völl allan daginn og leika sér við tveggja ára gamlan Labrador. Auðvitað var svolítið erfitt að láta hann frá sér, sérstaklega fyrir Hildi en það var gott að hann fékk svona góðan stað til að vera á. Nú er allavega eitt mál úr sögunni og ég get einbeitt mér að því að leysa þau næstu :)

Næsta mál sem ég þarf virkilega að leysa er að selja hjólið mitt! Ég er löngu búin að lofa bankanum mínum andvirði þess og rúmlega það.

Annars er undirbúningur fyrir flutninginn á fullu og bara allt að gerast.

bless þar til seinna, er farin í klippingu og svo með stelpurnar í myndatöku, fermingar- og stúdents...