28.6.09

Góðir dagar

Ólöf er komin og farin. Við áttum saman skemmtilega daga, skoðuðum sögulega staði í borginni og slatta af búðum :) Það var sól og 20-30 stiga hiti þessa daga sem hún stoppaði og ég held að hún hafi ekki átt von á svoleiðis veðri í Skotlandi enda landið þekkt fyrir flest annað en sólstrandaveður. Góður tími saman og margt spjallað og spekúlerað!

Núna verð ég að halda vel á spöðunum í verkefninu ef ég á að ná að klára það á réttum tíma og skila af mér góðri ritgerð.

Góðar kveðjur til allra....

20.6.09

Óvissa og tilhlökkun

Síðan í desember 1989, þegar hún Ólöf litla fæddist, hef ég aldrei verið svona lengi í burtu frá henni eins og núna þetta síðasta ár. Það er búið að vera skrítið á köflum þar sem hún hefur verið á tímamótum í sínu lífi, að byrja í háskóla og að byrja að búa. En vegna þess hve hún er ótrúlega dugleg og mikill forkur þá hef ég verið róleg hérna úti, því henni gengur svo vel og er svo úrræðagóð að leysa þau vandamál sem upp hafa komið. Samt finnst mér stundum að ég sé ekki nógu góð mamma að vera ekki til staðar fyrir hana til að hjálpa til þegar þess hefur þurft. Þessi elska berst alltaf áfram og ef vinnan minnkaði á einum staðnum þá fann hún sér aðra vinnu til að bæta það upp - og það á meðan hún var að standa sig með miklum sóma í háskólanum!!!
En á morgun, sunnudag, kemur hún hingað til Edinborgar og ætlar að stoppa hjá mér í 4 daga - JIBBÍÍÍÍ!!! Ég hlakka svo til að knúsa hana og að sýna henni hvernig við Hildur höfum búið síðasta árið og ekki síst að sitja með henni og spjalla um lífið og tilveruna.
Eins og ég er mikill barnakelling og naut þess í botn að eiga stelpurnar mínar þegar þær voru litlar, þá finnst mér svo merkilegt og skemmtilegt að fylgjast með þeim verða að fullorðnum einstaklingum með sínar skoðanir á lífinu og tilverunni :)

En að öðru og ekki eins gleðilegu efni, þá fékk ég í vikunni uppsögn á samningi mínum hjá VSI svo ég hef enga vinnu að snúa til þegar ég klára námið í lok sumars. Ég var innst inni búin að búa mig undir að þetta gæti gerst þar sem ástandið í þjóðfélaginu er þannig að ekki er mikið um framkvæmdir eins og er en samt var ákveðið sjokk að sjá þetta svart á hvítu.
Ég er að þýða ferilskrána mína yfir á ensku og nú fer ég, með aðstoð kennaranna minna hérna, að leita að vinnu í mínu fagi hvar sem er í heiminum. Nú, ef ekkert kemur út úr því þá er ekkert að gera nema að reyna að halda höfði og leita áfram þangað til einhver vinna finnst!

EN í millitíðinni þá held ég áfram að skrifa lokaritgerðina, sem gengur bara ágætlega og nýt Edinborgar í sumar.

7.6.09

Orðin ein í kotinu

Jæja Hildur er farin heim til Íslands og ég er orðin ein eftir í Skotlandinu.
Við leigðum okkur bíl á föstudaginn og lögðum af stað héðan frá Edinborg niður til Manchester um morguninn, keyrðum sem minnst eftir hraðbrautunum heldur tókum aðeins minni vegi og nutum útsýninsins. Við keyrðum í gegnum The Lake District og vá hvað það er fallegt þar. Stoppuðum í mjög fallegum litlum bæ sem heitir Keswick og drukkum í okkur andrúmsloftið í þessum gamla, enska bæ.

Þegar við komum á flugvöllinn í Manchester þá fengum við að vita að það væri um tveggja tíma seinkunn á fluginu hennar Hildar sem gerði í sjálfu sér ekki mikið til fyrir hana en gerði mig pínu stressaða. Sérstaklega þar sem ég lagði af stað keyrandi til Skotlands aftur eftir að hún var komin í gegnum öryggishliðið og þegar ég var komin langleiðina heim þá var hún ekki ennþá búin að fá að vita frá hvaða hliði flugvélin færi. En jæja þetta leystist allt að lokum og Einar Marlboro beið hennar á Keflavíkurflugvelli og kom henni í rúmi sitt í Grýtubakkanum.

Það var ekkert voðalega gaman að þeysa eftir hraðbrautinni í myrkrinu hingað heim en þegar ég sá ljósin í Edinborg þá fannst mér ég vera komin heim, - já HEIM! Því hérna líður mér svo vel og ég kom eiginega sjálfri mér á óvart þegar ég fann þessa "aaahhh, heima" tilfinningu við að sjá borgina. Þessa tilfinningu fæ ég alltaf þegar ég keyri inn Skutulsfjörðinn og sé Ísafjörð en ekki þegar ég nálgast Reykjavík.

Hildur er svo að fara í Bása með skólafélögunum úr Háteigsskóla í dag og fram á þriðjudag en ég er lögst yfir vinnuna fyrir lokaverkefnið mitt.

Kveðja heim á degi sjómannanna okkar!