28.6.05

Landsmót, hér kem ég!!!

Jæja þá er komið að landsmóti Snigla þetta árið. Ég ætla að fara annað kvöld, miðvikudagskvöld með Dagrúnu vestur í Tjarnarlund. Mótið byrjar að vísu ekki fyrr en á fimmtudagskvöld en við ætlum að byrja undirbúning ásamt einhverjum fleirum. Það verður sem sagt fjögurra nátta útilega og eins gott að það verði ekki rok og rigning allan tímann!
Að sjálfsögðu var það óhófleg bjartsýni hjá mér að ætla að prjóna mér lopapeysu fyrir mótið en hún verður bara kláruð seinna.
Bið að heilsa öllum sem ekki koma á landsmót og ég skal segja ykkur það að ég ætla sko að skemmta mér sem aldrei fyrr!!!jíííhaaa.....

24.6.05

Og enn fréttir af "litlu" stelpunni minni

Hún Ólöf er komin inn í Menntaskólann í Reykjavík!! Við fengum bréf um það í gær. Ég er enn að átta mig á því að ég geti virkilega átt svona fullorðið barn. Ég sem er næstum því á sama aldri sjálf!!! ;)

En að öðru, ég á stefnumót við ungan dreng á morgun. Það er hann Mikki vinur minn sem er 5 ára sonur Indu og Badda. Við Mikki fundum það nefnilega út um síðustu helgi að það væri orðið allt of langt síðan við hefðum spjallað almennilega saman og ákváðum að hittast næsta laugardag og dunda okkur eitthvað, bara við tvö. Við þurfum kanski aðeins að kíkja á Klapparstíginn þar sem er verið að grafa grunninn af húsinu sem ég hef umsjón með að byggja. Get ekki ímyndað mér annað en að 5 ára gutta finnist allt í lagi að kíkja á 1-2 gröfur ;)

Í kvöld verður setið við prjónaskapinn því að ég er að láta mig dreyma um að gera á mig eins og eina lopapeysu fyrir landsmót. Hmm... fer þangað næsta miðvikudag og er rétt byrjuð á peysunni, smá bjartsýni í gangi hérna! En jæja sjáum til hvernig fer, bless þangað til næst....

23.6.05

Þetta kom út úr svona prófi um "my true talent"

Anna, your true talent is mechanical ability

You're curious about how things work and enjoy tinkering with machines. People like you can be both self-sufficient and a great help to others. You are much better than most people at fixing things — whether it's changing a flat tire or tightening a leaky faucet.

How do we know that's your true talent? While you were taking the test, we calculated your responses to each test question and rated your skills in 5 areas. You scored highest on mechanical ability.

No matter what kind of career you choose, you'll enjoy it most if it involves working with your hands or seeing the tangible results of your efforts.

22.6.05

Það er bara svona...

... með vinnandi fólk að það hefur ekki tíma til að blogga oftar en einu sinni í viku!

Síðasta helgi var alveg frábær. Ég var á Sauðárkróki á 100 ára afmæli mótorhjólsins á Íslandi. Mikið fjör, margt skemmtilegt fólk en skítaveður! Það var svooo kalt, brrrrr!!! En engu að síður var, eins og áður segir, alveg hrikalega gaman. Vespan fékk að koma með, hún fékk sko far í bíl norður enda hefði ég líklega frosið föst á henni ef ég hefði hjólað á henni alla leið, greyið fer ekki mikið yfir 70 km/klst. En ég fór á henni í hópakstur frá Varmahlíð til Sauðárkróks og fékk mikil viðbrögð hjá vegfarendum fyrir vikið, hehehe...! Mér finnst ég sko BARA töff:)

Núna tekur svo við ein og hálf vinnuvika því að í lok næstu viku er svo komið að landsmóti Snigla. Í ár verður það haldið í Tjarnarlundi sem er nálægt Búðardal. Ég ætla ekki að láta mér verða kalt þar, svo að ég fitjaði upp á lopapeysu í gærkvöldi og verð að hafa prjónamaraþon til þess að klára hana fyrir landsmót.
En best að snúa sér að vinnunni, fyrir það fær maður jú borgað!!

15.6.05

Rauða Vespan

Ég lét mjög gamlan draum rætast í gærkvöldi þegar ég festi kaup á rauðri Vespu. Hún er af tegundinni Piaggio og er svona ekta ítölsk lítil vespa:) Ég er ekkert smá stollt af henni. Nú vantar mig bara hvíta siffon-slæðu sem flaksar aftur fyrir mig og þá er ég orðin ekta gamaldags.

En helgin var yndisleg fyrir norðan. Dísa systir útskrifaðist með láði frá Háskólanum á Akureyri og hélt tvær fínar veislur af því tilefni. Fyrst fengum við "brunch" í hádeginu heima hjá tengdaforeldrum hennar og svo seinni partinn fórum við út í Hrísey og þar var partý um kvöldið. Það er alltaf jafn notalegt að hitta Dísu og fjölskyldu og núna var engin undantekning á því.

Um næstu helgi fer ég svo á Sauðárkrók þar sem haldin verður hátíð í tilefni af 100 ára afmæli mótorhjólsins á Íslandi. Ég ætla að verða samferða Dagrúnu og líklega fær litla rauða Vespan að koma með. Við förum um hádegi á fimmtudag og ég hugsa að það verði mikið fjör, allaveg er heilmikil dagskrá og ég hef heyrt af mjög mörgum sem ætla að stefna þangað.
Svo að þið sjáið að það er nóg að gera þessa dagana!!!

10.6.05

Stollt - stolltari - stolltust!

Það eins og það hafi verið í gær sem ég stóð með frumburðinn fyrir utan Grunnskólann á Ísafirði á fyrsta skóladeginum hennar. Hún var í brakandi nýjum skólafötum með fína rauða tösku og tilbúin að takast á við heiminn. Síðan eru liðin mörg ár, eins og segir í textanum góða!! Í gærkvöldið útskrifaðist hún úr 10.bekk Vogaskóla í Reykjavík og var athöfnin hátíðleg og fín. Ólöf fékk bókarverðlaun fyrir hæstu einkunn í samfélagsfræði og meðaleinkun úr öllu var yfir 9!!! Er þetta ekki frábært hjá henni? :)

En ég er að fara til Akureyrar og óska ykkur góðrar helgi, bæ bæ...

7.6.05

Duglega-duglega stelpan mín :)

Hún Ólöf fékk einkunnirnar úr samræmdu prófunum í gær og ekki að spyrja að því að hún stóð sig svakalega vel!! Hún er búin að sækja um í Kvennó næsta vetur og hafði MR sem valkost nr.2. Ég er svoooo stolt af stelpunni minni, hún er alger gullmoli þessi elska!

Loksins virðist vera að nást einhver niðurstaða með sumarið hjá henni. Til stóð að hún færi til Svíþjóð að passa en það breyttist vegna óviðráðanlegra aðstæðna. Þá vorum við að spá í að nota miðann sem ég var búin að kaupa til Köben og leyfa henni að skreppa þangað í viku til vinafólks til þess að læra dönsku. Þegar málið var skoðað betur og hún komin með vinnu á Hrafnistu í sumar, þá ákváðum við að sleppa öllum utanlandsferðum í bili og hún ætlar bara að vera dugleg að vinna og safna sér pening fyrir næsta vetur. Við verðum því tvær að dúllast heima næsta mánuðinn þar sem Hildur fór til pabba síns í gær.

Eitt að lokum: passið ykkur á hraðbönkum Landsbankans!! Ekki það að þeir séu gjarnari en aðrir á að bila, ég veit ekkert um það en einn slíkur gleypti kortið mitt á mánudaginn í síðustu viku. Ég hringdi 1 og 1/2 tíma seinna í "þjónustuver" Landsbankans og tilkynnti þetta og bað um að kortið yrði EKKI sent í minn banka þar sem hann væri á Ísafirði. Var mér boðið að velja mér í hvaða útibú ég vildi sækja það og sagt að það tæki um 2 daga. Ég var frekar fúl yfir þessum 2 dögum en varð að láta mig hafa það. N.B. kortið hvarf vegna bilunar í hraðbankanum en ekki vegna þess að það væri útrunnið eða ég svona mikill glæpon!!
Til að gera langa sögu stutta þá sendu þeir það samt til Ísafjarðar og það fékk ég að vita eftir lokun banka á þriðjudaginn (eftir nokkur orðaskipti og "smá" reiði af minni hálfu!). Kortið fékk ég í hendurnar í gær, nákvæmlega viku eftir að það hvarf í gin hins illa hraðbanka.
Það sem gerði mig mest fúla var að ég bað sérstaklega um að það færi ekki vestur af því að það tæki svo langan tíma og þetta "þjónustuver" kom þeim skilaboðum ekki áleiðis. Svo var KELLING (sko svona ekta, það er örugglega mynd af henni við útskýringu á orðinu "kelling" í orðabók) í Landsbankanum í Bæjarhrauni (þar sem til stóð að ná í umrætt kort) sem talaði svooo niður til mín og sagði að það kæmi nú aldrei fyrir að kort væru tekin af ástæðulausu! "ertu nú alveg viss vinan?" GRRR.....!!!!!

2.6.05

Skrítið þetta líf

Já ég er búin að vera voðalega mikið hugsi undanfarna daga. Heilinn á mér er á fullu í frekar háfleygum hugsunum en á meðan er framkvæmdahliðin í verkfalli. Ég kem ekki neinu í verk heima hjá mér. Sest bara niður þegar ég kem heim úr vinnunni og hekla og horfi á sjónvarpið. Ég hugsa að ég gæti sofið endalaust ef ég mundi láta á það reyna.

Hugurinn á mér er svo fullur af alls konar pælingum og síðan ég var hjá ömmu og afa í sveitinni á laugardaginn, þar sem við vorum að skoða ljóð og vísur saman, þá hef ég voðalega mikið verið að velta fyrir mér ljóðum. Margir sjá ekkert skemmtilegt við ljóð en mér finnst þau oft segja svo miklu meira í fáum vel völdum orðum en óbundið mál getur gert. Ég á ekki margar ljóðabækur en stefni að því að fjölga þeim. Ég ætla að deila með ykkur uppáhalds stökunni minni en stökur eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér:

Víða til þess vott ég fann
þótt venjist margur hinu,
að Guð á margan gimsteinn þann
sem glóir í mannsorpinu.

Bólu-Hjálmar


Já það eru svo sannarlega gimsteinar í mannsorpinu en það er erfitt að finna þá innan um alla kolamolana og grágrýtið. Ég tel líka að þegar maður finnur slíkan gimstein, þá er hann miklu verðmætari en hinir eðal-steinarnir sem hafa alltaf glitrað svo skært.