28.4.08

Búin að ferma

Jæja þá er ég búin að ferma yngri dótturina. Dagurinn í gær var yndislegur í alla staði. Veðrið fallegt þrátt fyrir smá kulda og allt gekk eins og í sögu. Athöfnin var mjög skemmtileg og gekk atriðið okkar Hildar fínt. Ég er svo heppin að eiga góða að, bæði fjölskyldu og vini sem hjálpuðu okkur mæðgunum að gera daginn eftirmynnilegan. Takk takk fyrir alla hjálpina, þið eruð æðisleg!
Hildur er mjög ánægð með daginn, bæði athöfnina, veisluna og allar gjafirnar :) Hún var stórglæsileg í upphlutnum sem ég saumaði á hana og það er ekki laust við að mamman hafi verið að farast úr stolti yfir báðum ungunum sínum, sniff - sniff, smá væmni leyfileg núna...!

Svona vorum við mamma og Hildur fínar í Háskólabíói í gær:

23.4.08

Dimmitering og ferming

Ólöf er bleikur kærleiksbjörn í dag. Ég var því miður ekki með neina nothæfa myndavél heima í morgun þegar hún fór út að dimmitera en því líkt krútt sem hún var í bleika mjúka kærleiksbjarnarbúningnum sínum :) set bara inn gúglaða mynd af svoleiðis bangsa í staðinn:

Hún var einmitt líka með svona regnboga á maganum :) Mér þykir verst hvað búningurinn er lítill, ég get alls ekki stolið honum til að taka með á landsmót í sumar!!!

Við Hildur erum í rólegheitunum að undirbúa ferminguna á sunnudaginn. Allt að verða tilbúið með góðri hjálp frá Dísu, mömmu og Dagrúnu. Ég er ekkert að fara á hvolf yfir þessu en það er samt í mörg horn að líta.

Jæja, ég er farin út að mótmæla... neee, ég er svoddan vesalingur að ég læt aðra um það fyrir mig ;)


Gleðilegt sumar öll sömul og takk fyrir veturinn!!

18.4.08

Þetta er ekki alveg í lagi

Smá svona neytendablogg hérna...
Ég fór í apótek í gær til að kaupa sjóveikistöflur fyrir hann pabba minn, sem er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi nema hvað mér blöskraði verðmunurinn á milli apóteka. Fyrst fór ég í Lyf og Heilsu í Austurveri, þar var bara til einn pakki af "Postafen" með 10 töflum og kostaði hann 454 kr. En þar sem kallinn ætlar að vera á sjó í a.m.k. 6 daga og hver tafla virkar í ca. 12 klst. þá vildi ég fá annan pakka. Ég þurfti því að fara í aðra lyfjabúð og fór í Lyfju í Lágmúla. Þar kostaði samskonar pakki 365 kr eða u.þ.b. 20% minna!!! Hvernig stendur á þessu?
Ég veit vel að þessi krónumunur kemur ekki til með að breyta neinu í heimilisfjármálunum en ég tek alltaf sérstaklega eftir verðmuni á svona lágum tölum vegna þess að þá er prósentutalan svo hrikalega há. Margt smátt gerir eitt stórt - svo - fylgjumst vel með verði og látum ekki bjóða okkur svona fíflaskap!!!

16.4.08

Tónlistarsnillingurinn ég.. eða þannig sko

Lífið gengur sinn vanagang og það styttist í ferminguna. Ég er voða róleg yfir þessu tilstandi enda er þetta ekki mikið mál ef maður velur að standa þannig að hlutunum. Það helsta sem ég þarf að hafa áhyggjur af er sú staðreynd að Hildur ætlar að spila á flautuna í fermingarathöfninni og ég ætla að spila undir á píanó! Sko ég hef engar áhyggjur af stelpunni, hún stendur sig með prýði en ég.... úff, ég hef ekki spilað á píanóið í þónokkur ár og hvað þá komið fram einhvers staðar!! Hvað er þá gáfulegra en að taka þetta bara með trompi og koma fram í stóra salnum í Háskólabíói? Ja ég bara spyr!! Vona bara að ég verði stelpunni minni ekki til skammar....
Held samt að við verðum bara flottar mæðgurnar báðar í upphlut :)

11.4.08

Edinborg - allt að gerast

Þó ég sé ekki búin að fá staðfestingu á inngöngu í skólann úti í Edinborg þá er ég búin að fá íbúð þar :) Fyrir algera tilviljun þá fór af stað svona "maður þekkir mann" atburðarrás sem varð til þess að við Hildur erum komnar með fína þriggja herbergja íbúð með húsgögnum og öllum húsbúnaði, í u.þ.b. 10 mínútna göngufjarlægð frá skólanum mínum. Ég er búin að vera í e-mail sambandi við hjónin sem eiga íbúðina og líst svakalega vel á. Það er enginn smá munur að vera komin með þetta á hreint áður en maður fer út. Þá get ég verið búin að skrá Hildi í réttan skóla og svo er bara að pakka saman fötunum sínum og fara...! Oooo, ég er farin að hlakka svo til...!!! Get varla beðið fram í ágúst!
Svo er bara eins gott að ég komist inn í skólann, annars skríð ég ofaní næstu holu og verð þar næsta árið :)

Hundspottið mitt fékk næstum því nýja fjölskyldu um daginn, var hjá þeim um páskana og svo ákváðu þau að prófa aðeins áfram. En þar sem þau eru með 3 hress börn þá passaði einn "ofur-hress" hundur enganveginn inn í heimilishaldið. Þeim þótti samt ósköp vænt um hann og hann hafði það svakalega gott hjá þeim en hafði ekki vit á því að haga sér skikkanlega svo hann fengi þarna framtíðarheimili. Hann er svo mikill asni greyið!!!

Jæja, helgin framundan og ég nenni ekki norður í afmælið hans Jóa Rækju. Þarf að gera svo mikið heima og að vinna líka svo ég ætla að eyða helginni í bænum. Gangið hægt um gleðinnar dyr og njótið helgarinnar.

7.4.08

Kartöfluball og mótorhjól

Hið árlega kartöfluball var haldið í Þykkvabænum á laugardaginn. Ég fór austur á föstudagskvöldið og notaði laugardaginn til að pússa hjólið mitt og gera það fínt. Það varð líka til þess að ég mætti með svakalega fínt "manicure" á ballið ;) Hvaða maður getur staðist konu með þessar líka fínu olíurendur undir nöglunum??? Ja ég bara spyr...!
Maturinn var alveg frábær, kartöfluréttir í tugatali og ekki skemmdi félagsskapurinn. Okkur Einar Marlboro lenti aðeins saman (aðallega í gríni samt) sem varð til þess að eftir að hann hafði eitrað fyrir mér með vodka þá gat ég ekki drukkið meira og var því bara stillt og edrú :) Það er ekki alveg hægt að segja það sama um alla aðra (nefni engin nöfn) en aumingja Dagrún sem var búin að standa í undirbúningi og eldamennsku í marga daga og svo í því að taka af borðum og vaska upp á ballinu, þegar hún loksins komst til þess að skemmta sér þá var klukkan um 2 og allir hennar félagar, þessir líka partý-bikerar, farnir heim að sofa :) Þvílíkt sukk - lið eða hitt þó heldur... enda kom hún líka heim í Oddspart þegar ballið var búið og vakti okkur með offorsi og skipaði fólki út úr rúmunum og niður í partý!!! Ég held bara að einhvern tíman hafi maður nú verið hressari í skemmtanadæminu heldur en akkurat þarna. Við verðum bara að reyna betur næst....!
Á sunnudaginn kláraði ég svo að sjæna hjólið og hjólaði svo í bæjinn. Nú er bara að reyna að selja gripinn þannig að ef einhver veit um byrjanda á hjóli þá er ég með akkurat rétta hjólið, alveg frábærlega lipurt og þægilegt þó gamalt sé.

Að lokum ætla ég að byrta niðurstöður úr strumpaprófi sem ég tók. Ég hef alltaf haft mikla trú á lífsgildum þessara bláu vera og auðvitað tekur maður svona niðurstöður mjög alvarlega ;)

4.4.08

Lífið og dauðinn

Enn einu sinni kemst maður að því hvað lífið er brygðult og hvað dauðinn getur verið ósanngjarn. Ég tek undir með stóru systir sem hún skrifaði á síðunni sinni, hvernig stendur á því að fólk í fullu fjöri er hrifsað frá okkur á meðan þeir sem saddir eru lífdaga og tilbúnir til þess að kveðja sitja og bíða? Ein uppáhalds frænka mín var að missa manninn sinn af slysförum og erum við öll mjög slegin. Það er rétt tæpur mánuður síðan hún fylgdi elskulegum föður sínum til grafar sem dó líka frekar skyndilega. Það er ekki í lagi að leggja svona miklar raunir á eina góða konu ég segi það bara alveg eins og er :(
Hvíl í friði kæri Flosi, við reynum eins og við getum að styðja við Siggu og strákana þína.