25.7.08

Kveðjupartý!!!

Vegna mikilla áskoranna þá stefni ég að því að halda kveðjupartý laugardaginn 9.ágúst! Staðsetning er ekki alveg komin á hreint en verið er að athuga með húsnæði ÓÓ og læt ég fólk vita nánar þegar það er komið á hreint.


Alla vegana, takið frá þetta laugardagskvöld, allir sem vilja þekkja mig og skemmtum okkur duglega saman.

Svo eruð þið laus við mig í heilt ár... hehehe!


Eitt í viðbót: við Hildur verðum með bás á kompudögum í Kolaportinu um helgina, bæði laugardag og sunnudag, endilega kíkið á okkur :)

21.7.08

Brúðkaup og fleira

Ég fór í brúðkaup til frænku minnar á laugardaginn. Ótrúlegt þegar "litlu" frændsystkini manns eru farin að gifta sig! Ég er nefnilega í yngri kantinum á eldri hópi barnabarna bæði hjá föður- og móðurfjölskyldunni. Svo kemur smá bil í aldri og svo aftur yngri hópur frændsystkina. Núna eru s.s. þessi "litlu" frændsystkini allt í einu orðin stór. Þau eru farin að eignast börn, útskrifast með alls konar menntun og gifta sig. Ferlega skrítið þar sem það er svo stutt síðan ég var næstum fullorðin og þau þá bara lítil, núna er ég ennþá "næstum fullorðin" og þau bara búin að ná mér....! hehehe... það er ekki eins og ég eldist jafn mikið og þau... ;)

En að helginni, þá var voðalega fallegt brúðkaup í lítilli sætri sveitakirkju á suðurlandi og veislan haldin í gamla fjósinu á Brekkum (n.b. það er búið að gera þar hinn fínasta veislusal).
Það er alltaf jafn gaman að hitta fólkið mitt fyrir austan. Þvílíkt hresst og skemmtilegt lið. Það var bara verst að ég gat ekki verið fram á sunnudag og þ.a.l. gat ég ekki fengið mér í glas og djammað svolítið með þeim. En þegar mikið er að gera þá verður eitthvað undan að láta.
Sem sagt, fallegur dagur í sveitinni með frábæru fólki :)

Við Hildur réðumst svo í hið ógurlega verkefni að byrja að taka til í geymslunni á sunnudaginn. Þetta er að sjálfsögðu ekki eins dags verk svo það verður haldið áfram á kvöldin í vikunni. En... hálfnað verk þá hafið er...!

15.7.08

Þetta smá þokast

Jæja nú er ég búin að kaupa farmiðana fyrir okkur Hildi til Skotlands svo það er loksins komin föst dagsetning á brottför. Við förum út 12.ágúst eins og stefnt var að.
Tiltekt, sortering og pökkun gengur heldur hægt en þokast þó. Mikið andsk.. er þetta leiðinlegt!
Það er líka svo mikið að gera núna í sumar bara í því að vera mótorhjólapakk, alltaf eitthvað skemmtilegt um að vera helgi eftir helgi. Ég má bara ekkert vera að því að tæma íbúðina og svoleiðis :(
Við Hildur skruppum í heimsókn á "Potato Run" í Þykkvabænum á laugardaginn og þar sem ég var búin að ákveða að fara á hjólinu þá gerði ég það auðvitað! Datt ekki í hug að taka skynsemina á þetta og fara á bílnum vegna veðurs, nei nei, skynsemin var bara sett inn í skáp og purrað af stað. Ég hafði tekið farþegabakið (íslensk þýðing á "sissybar") af hjólinu hennar Jónu og sett á hjá mér svo ég gæti tekið Hildi með mér og Einar var búinn að finna fyrir mig farþegapedalana sem hafði vantað. Okkur mæðgum var því ekkert að vanbúnaði. Dúðuðum okkur í gallana, Hildur greyið sett í nokkrar peysur og svo í leðurgallann minn og svo af stað.
Ég held svona í fyllstu alvöru að einhverju æðra valdi hafi fundist þetta voða fyndið og ákveðið að leggja fyrir mig smá hjólapróf. Í fyrsta lagi þá var svo mikil rigning að maður þurfti að sæta lagi til að anda að sér ef maður ætlaði ekki að drukkna. Í öðru lagi ákvað lognið að flýta sér heldur hressilega á Hellisheiðinni. Í þriðja lagi þá var þokan þarna uppi svo þétt (til að auka við lélega skyggnið vegna rigningarinnar) að ég sá aldrei nema ca. 2 stikur fram á veginn og svo eins og ég hefði ekki nóg að gera við að halda hjólinu uppréttu og á réttum vegarhelmingi, þá er þarna á heiðinni dágóður kafli af svona líka stíf-póleruðu nýlögðu malbiki. Það þarf ekki að taka fram hversu sleypt það er í bleytu!!!
Úff, ég verð að viðurkenna að ég var ansi stíf í öllum skrokknum eftir þetta. Það er nógu stressandi að vera að berjast við vindinn svona venjulega en eiginlega ennþá verra ef maður er með barnið sitt aftaná.
En í Oddspart komumst við, gegndrepa og kaldar. Þar var slatti af fólki þrátt fyrir veðrið. Við ílengdumst þar fram eftir kvöldi við át, leiki og spjall og héldum svo heim á leið um miðnættið. Hildur var svo heppin að fá far með Indu og Badda í bæinn, henni leist ekkert á að fara að klæða sig aftur í hálf-þvalann leðurgallann og frjósa aftaná hjólinu. Mín föt voru a.á.m. orðin þurr og ferðin heim gekk bara vel.
Sunnudagurinn fór svo í tiltekt og pökkun.. jei gaman gaman!

8.7.08

Dásamleg helgi - frábært fólk

Landsmót stóð eins og venjulega alveg fyrir sínu. Þvílíkt dásemdar lið sem maður þekkir, bæði þeir sem maður þekki nokkuð vel og svo allir hinir sem maður er málkunnugur. Þið eruð sko bara frábær öll sömul og takk fyrir helgina!!!


Ég er "IN LOVE" eftir þessa helgi!!! Nei nei, það er ekkert brúðkaup í vændum strax því þetta samband þarf að þróast í nokkur ár áður en við getum loksins verið saman. Ég á ekki mynd af viðkomandi núna en fann á netinu eina sem ég er búin að prenta út og pinna á töfluna hjá mér til svo ég geti horft dreymandi augum á hana þegar ég á að vera að vinna, sjáið þið bara dýrgripinn:



Harley Davidson Heritage Softtail!! Ég var látin máta svona hjól á landsmótinu og ég bara endurtek orð mín hérna að ofan "I'm in love!" ég ætla að eignast svona hjól einhvern tíman!!