Skólinn byrjaður
Núna er námið hafið og strax komin heimaverkefni enda byggist þetta nám í töluverðu mæli á verkefnavinnu en minna á fyrirlestrum eða setu í tímum. Ég sé fram á að það verði mikið vinnuálag í vetur og svei mér þá ef ég hlakka ekki bara til ;)
Ég er allavega mjög fegin því að vera byrjuð að gera eitthvað af viti aftur. Þessi rúmi mánuður sem ég hef haft síðan við Hildur komum hingað út hefur verið helst til langur. Jú það var mjög gott að hafa tíma til þess að vera til staðar fyrir Hildi á meðan hún komst inn í skólaumhverfið sitt og til þess að átta okkur á umhverfinu og svoleiðis en ég man ekki hvenær ég var síðast í rúman mánuð í fríi að gera næstum ekki neitt!!! Fyrst fannst mér þetta æðislegt og lá í leti á milli þess sem ég kannaði umhverfið en svo var þetta bara farið að vera leiðinlegt. Ég held að það sé í eðli okkar mannanna að vilja hafa eitthvað fyrir stafni. En allavega þá varð þetta frí til þess að ég kem úthvíld og endurnærð til starfa í skólanum og ætti að hafa næga orku til að takast á við verkefni vetrarins.
Að lokum er hérna ein mynd sem Hildur tók um síðustu helgi. Haustlitirnir eru ekki orðnir alls ráðandi hérna ennþá en samt aðeins farnir að láta á sér kræla. Okkur fannst þetta tré ferlega fyndið, ein sjálfstæð grein í þessari risa-laufkrónu sem ákvað að það væri komið haust. Kannski vildi hún fá að vera "ein í hóp" eins og sumir.....!