30.9.08

Skólinn byrjaður

Núna er námið hafið og strax komin heimaverkefni enda byggist þetta nám í töluverðu mæli á verkefnavinnu en minna á fyrirlestrum eða setu í tímum. Ég sé fram á að það verði mikið vinnuálag í vetur og svei mér þá ef ég hlakka ekki bara til ;)
Ég er allavega mjög fegin því að vera byrjuð að gera eitthvað af viti aftur. Þessi rúmi mánuður sem ég hef haft síðan við Hildur komum hingað út hefur verið helst til langur. Jú það var mjög gott að hafa tíma til þess að vera til staðar fyrir Hildi á meðan hún komst inn í skólaumhverfið sitt og til þess að átta okkur á umhverfinu og svoleiðis en ég man ekki hvenær ég var síðast í rúman mánuð í fríi að gera næstum ekki neitt!!! Fyrst fannst mér þetta æðislegt og lá í leti á milli þess sem ég kannaði umhverfið en svo var þetta bara farið að vera leiðinlegt. Ég held að það sé í eðli okkar mannanna að vilja hafa eitthvað fyrir stafni. En allavega þá varð þetta frí til þess að ég kem úthvíld og endurnærð til starfa í skólanum og ætti að hafa næga orku til að takast á við verkefni vetrarins.

Að lokum er hérna ein mynd sem Hildur tók um síðustu helgi. Haustlitirnir eru ekki orðnir alls ráðandi hérna ennþá en samt aðeins farnir að láta á sér kræla. Okkur fannst þetta tré ferlega fyndið, ein sjálfstæð grein í þessari risa-laufkrónu sem ákvað að það væri komið haust. Kannski vildi hún fá að vera "ein í hóp" eins og sumir.....!

23.9.08

Námskeið og skólabyrjun

Skólinn átti að byrja í gær en þar sem kennararnir sem áttu að kenna í gær og í dag eru á ráðstefnu í Þýskalandi þá verður fyrsti tíminn í fyrramálið.
Ég fór í síðustu viku og fékk stundatöflu og allar upplýsingar sem mig vantaði varðandi námið. Þetta er allt voðalega persónulegt, maður gengur að kennurunum þegar maður vill, engar tímapantanir eða svoleiðis. Deildin er það lítil og allir þekkja alla.
Ég þarf að velja mér efni til að skrifa um í lokaverkefninu mínu fyrir lok þessarar viku og fékk ég lista með nokkrum hugmyndum sem ég get valið úr. Ég get líka komið sjálf með hugmyndir en mér líst mjög vel á nokkrar á þessum lista svo ég held að ég haldi aðeins áfram að grúska í þeim áður en ég tek endanlega ákvörðun.
Eftir að hafa skoðað fögin sem ég verð í í vetur, þá er ég ennþá spenntari fyrir þessu námi og hlakka mjög til vetrarins.

Skólinn býður upp á alls konar tölvunámskeið frítt. Þetta eru yfirleitt hálfsdags námskeið sem taka á afmörkuðum atriðum sem nýtast manni bæði í náminu og öðru. T.d. er hægt að læra betur á Word, Exel, Powerpoint, Photoshop og fleira, þ.e. að nýta sér ýmsa möguleika sem þessi forrit bjóða upp á. En ég fór í morgun á námskeið sem kenndi undirstöðuatriðin í að skrifa html fyrir vefinn. Ég tók nefnilega að mér í vor að sjá um heimasíðu Brunatæknifélagsins án þess að hafa hundsvit á því hvað ég ætti að gera. Ég er búin að setja inn slatta af efni (síðan er óuppfærð síðastliðin tvö ár) en lenti svo í vandræðum með að halda áfram. Svo að núna fór ég á þriggja tíma námskeið í að skrifa html og get þ.a.l. kraflað mig aðeins meira áfram. Nú svo get ég skráð mig á áframhaldandi námskeið seinna ef ég vill. Ég á örugglega eftir að skoða þetta mikla úrval af námskeiðum seinna í vetur.

Það er þá best að fara að athuga hvort eittvað sem ég lærði í morgun kemur að notum við þetta rugl sem ég var komin í við heimasíðugerðina, kveðjur frá okkur Hildi til allra sem kíkja hingað inn!

21.9.08

Mmm, góður matur

Við mæðgur fórum á "Farmers Market" niðri í bæ í gær. Ekki mjög stór markaður en athygliverður. Við keyptum okkur tvær nautasteikur, alveg svakalega flottar og fersk jarðaber og hindber. Þarna var líka hægt að kaupa heimabökuð brauð, alls konar kjöt- og fiskmeti, grænmeti, heimagerðar sápur og margt fleira.
Kvöldmaturinn í gær var því alveg dásamlegur. Þetta nautakjöt sem ég keypti var svo flott að meira að segja ég gat ekki eyðilagt það með eldamennsku, mmmmm!!!
Og með berjunum hafði ég sósu sem ég keypti líka á markaðnum, "Butterscotsch"! Hún er einhvers konar karamellusósa (heimatilbúin á einhverjum bænum) sem samanstendur af rjóma, sýrópi og brúnum sykri. Mér fannst hún eiginlega allt of sæt þegar ég smakkaði hana en hún er mjög passleg með ferskum berjum. Sem sagt, átveisla á laugardagskvöldi í West Powburn :)

15.9.08

Allt í rólegheitunum

Síðasta vika og nýliðin helgi hafa liðið í mestu rólegheitum. Það eina sem ég hef afrekað fyrir utan hefðbundin heimilisstörf er að kaupa mér ný föt. Þeir sem þekkja mig vel vita að það er meiriháttar afrek! Ég þoli ekki að kaupa föt á sjálfa mig en það kemur víst alltaf að því að lokum að ekki verður lengur hjá því komist. Við Hildur fórum í verslunarleiðangur á laugardaginn og náði ég að kaupa mér eitt pils, tvo hlýraboli og tvo langermaboli. Áður var ég búin að kaupa mér eina skó svo mér finnst þetta bara heill hellingur :) Ég þarf að vísu að kíkja eftir buxum en þetta er sko nóg í bili, fresta því aðeins fram eftir haustinu.

Annars er bara ekkert að frétta, lífið er ljúft og skólinn byrjar bráðum!

Bið að heilsa heim....

10.9.08

Vísa

Ég fékk þessa vísu senda frá Jóni Leví:


Varúð!
Víst það okkur sæmir sönnum
syndina helst vel að boða.
En varaðu þig á pilsamönnum
pínulítið samt að skoða.

9.9.08

Hálöndin

Við mæðgur fórum í 12 tíma rútuferð upp í Hálöndin á sunnudaginn. Ferðin var alveg dásamleg okkur fannst æðislegt að fara út fyrir borgina og skoða okkur um úti í sveit. Eins og Hildur sagði, við erum svo mikið landsbyggðarpakk að okkur líður alltaf best úti á landi :)

Hér eru nokkrar myndir:


Ekki ólíkt íslensku heiðalandslagi...




















Þetta er hann "Hamish" mjög frægt skoskt fjallanaut, ferlega flottur og kunni vel við athyglina sem hann fékk.










Umsjónarmaður hans var ekki síður athygliverður, ekta skoti ;) En hann var ekki eins hrifinn af athyglinni sem hann fékk. Það var samt frábært að sjá hvað þeir voru miklir félagar. Kallinn muldraði eitthvað við nautið og þeir virtust alveg skilja hvorn annan :)








Svo fórum við í siglingu um Loch Ness og leituðum að Nessie, vatnaskrímslinu fræga...


Þið megið giska á á hvorri myndinni skrímslið sést.....!!









Hérna sjást nokkrir bátar á leið upp í skipastigann í Fort Augustus











Fallegt í Fort Augustus við Loch Ness










Og að lokum kastalarústir, Urguhart Castle









6.9.08

Skrítinn draumur

Ég hugsa nú ekki oft um merkingu drauma en stundum festist einn og einn svo í manni að hugsunin um hann fer ekki strax í burtu. Þannig var að mig hefur dreymt nokkurn vegin sama drauminn tvær nætur í röð. Kannski ekki alveg sama drauminn en hann var um nákvæmlega sama efnið. Í stuttu máli þá voru báðir draumarnir þannig að ég var að eignast son (nb. það kom aldrei fram að barnið ætti föður!) og ég var algerlega peningalaus. Ég átti ekkert fyrir barnið og var t.d. að senda tölvupóst á vini og vinnufélaga til að spurja hvort einhver gæti átt barnavagn í geymslunni sem hann gæti lánað mér. Ég var samt alveg í mínu mesta "sjálfstæðis-/þrjósku-attitudi" sem til er. Þ.e. ég þurfti í sjálfu sér enga hjálp (fannst mér) ég gat þetta allt saman sjálf. Var að spá í að fara í Góða Hirðinn og athuga með það sem vantaði fyrir barnið. Að auki (og þetta kom sterkt fram báðar næturnar) þá varð ég að nefna drenginn "Dagbjartur"!!! Ég vissi sjálf ekki hvers vegna en þetta var eitthvað sem sat fast í mér eins og ég gæti engu um þetta ráðið.

Venjulega vaknar maður bara eftir svona drauma og hristir hausinn og það gerði ég eftir fyrri nóttina. Hugsaði ekkert meira um þetta nema hvað mér fannst þetta ekki sérstaklega heillandi nafn (!). En að dreyma nákvæmlega það sama næstu nótt á eftir, það situr í mér.
Það eina sem ég veit um draumaráðningar er þessi setning: "böl er af ef barnið dreymir nema sveinbarn sé og þitt eigið". Þannig að þessir draumar hljóta að vera fyrir einhverju góðu og nafnið Dagbjartur getur ekki verið fyrir öðru en einhverju björtu og fallegu, haldið þið það ekki???

Ef einhver hefur einhverja hugmynd þá eru allar tillögur vel þegnar :)
Langaði bara að deila þessu með ykkur....

1.9.08

Flugeldatónleikar og nafnarugl

Ég skrapp niður í bæ í gærkvöldi til að horfa á flugeldasýningu sem var skotið upp í takt við frábæra klassíska tónlist. Hildur nennti ekki með mér og var bara heima í rólegheitunum á meðan. En þetta var alveg frábært. Auðvitað voru flugeldarnir ekkert miklir miðað við það sem við Íslendingar erum vanir en að þeim skuli hafa verið skotið upp í takt við tónlistina var alveg frábært. Svo var útsýnið ekki af verri endanum þar sem kastalinn var í bakgrunni. Hérna er frétt um þetta.

Ég ruglaði aðeins saman "Addýjum" núna fyrir helgina. Fór að leita uppi bloggsíðu sem ég vissi um hjá gamalli skólasystir minni til að svara fyrirspurn í kommenti við síðustu færslu varðandi tölvna hennar Hildar :) Komst svo að því að það var ekki þessi Addý sem var að spurja heldur Addý Snigill!! Sorrý Snigla-Addý ég var ekkert búin að gleyma þér en heilinn hljóp bara aðeins hraðar en ég svo ég náði ekki að hugsa! Það er nefnilega þannig að ég þekki t.d. tvær Sóleyjar og að minnsta kosti tvær Siggur líka sem kommenta stundum hjá mér og ég er ekki alltaf alveg viss hver er hver.....!
En varðandi tölvuna hennar Hildar þá eru hérna linkar sem sýna hvað um er að ræða, við mæðgurnar tókum að vísu ekki eftir því að myndavélin í lokinu væri "optional" í þeirri bresku svo við fengum enga myndavél. Það skiptir ekki öllu máli, verðið er samt miklu lægra.
Sú íslenska og sú breska (það er sú sem er fyrst á listanum þarna).

Að lokum, stóra stelpan mín er að byrja í Háskóla Íslands í dag!!! Ó mæ.... hún er nú ekki nema 18 ára ennþá, verður 19 í desember, svo hún er örugglega með þeim yngstu þarna. En dugnaðurinn í þessari stelpu er engu líkur svo ég veit að hún klárar sig vel. Gangi þér vel í dag ástin mín!!!!