31.8.06

Breytingar á síðunni

Ég var aðeins að laga til í tenglunum hérna til hliðar og bætti við krílaflokki :) Ég vona að foreldrum þeirra sé sama annars láta þau mig bara vita. Þessi kríli eru börn vina minna sem mér finnst gaman að fylgjast með enda alger krútt öll sömul :)

Svo setti ég hérna fyrir ofan svona "quote of the day". Ég hef alltaf haft voða gaman af svona alls konar tilvitnunum og mismunandi visku. Nú er bara að sjá hvort þetta breytist dag frá degi, það hef ég ekki hugmynd um!!

Að lokum ætla ég að stela einni mynd af síðunni frá litla frænda mínum honum Hauki. Strákurinn er alveg frábær ljósmyndari eins og ég hef örugglega áður sagt hérna. En þetta er alveg týpísk mynd af henni Löngu (eins og langa-langömmubörnin hennar kalla hana) í eldhúsglugganum, er hún ekki alveg dásamleg???


29.8.06

Húsverkin

Takk fyrir samhuginn elskurnar vegna Súkku litlu! Baldvin er búinn að rífa mótorinn í spað og er á fullu að leita að varahlutum fyrir mig þessi elska!! Gott er að eiga góða vini, það hef ég alltaf sagt :)

En lífið heldur víst áfram þrátt fyrir að ég geti ekki farið út að hjóla enda lifði ég í heilmörg ár án þess, hehehe...!
Húsverkin voru tekin með trompi um helgina og ég kláraði að búa mér til skrifstofuhorn í svefnherberginu. Setti upp hillu og snaga og svoleiðis, á bara eftir að koma einhverju á veggina. Þegar við vorum allar þrjár búnar að taka allan óhreinan þvott úr herbergjunum þá beið heilt fjall við þvottavélina og hef ég verið að reyna að minnka það síðustu daga. Ótrúlegt hvað það getur safnast mikið upp þó svo mér finnist ég alltaf vera að reyna að þvo jafnóðum?!?

Jæja ég nenni ekki að skrifa mikið núna, langar helst bara að liggja uppi í rúmi og lesa en maður fær víst lítið borgað fyrir það...,

Bið að heilsa í bili....

23.8.06

Og þannig fór nú ferðin sú...

Ferðin vestur gekk ekki eins og til stóð. Þegar ég var komin um 20 km frá Hólmavík, upp í Staðardal sem liggur að Steingrímsfjarðarheiði, þá ákvað litla Súkkan mín að fara ekki lengra af því hún hafði ekki fengið neina olíu! Afturdekkið læstist af því mótorinn festist og ég var bara stopp!!! ARRRRG.....! Hjólið úrbrætt :(
Fyrst þurfti ég að labba með það um 100 m áfram til þess að koma því út fyrir veg, svo er ekkert símasamband þarna svo að þegar ég var búin að stappa niður fótunum og sparka í grjót og bölva vel og lengi, þá húkkaði ég mér far til Hólmavíkur til þess að komast í símasamband. Þar hringdi ég í pabba minn sem fór strax í að redda kerru, sliskju og böndum og lagði svo af stað til að bjarga litlu dóttur sinni úr vandræðunum.
Þá ákvað ég að reyna að húkka mér far aftur að hjólinu svo að pabbi þyrfti ekki að koma alla leið til Hólmavíkur en það gekk nú ekki þrautarlaust. Í fyrsta lagi þá er ekki eins mikil umferð þarna eins og ég hélt því að á meðan Þorksafjarðarheiðin er svona góð þá fer fólk frekar þá leiðina. Svo fannst þessum fáu hræðum sem áttu leið þarna um ekkert freistandi að stoppa fyrir leðurklæddri manneskju sem stóð úti í vegkannti með hjálminn í hendinni og ekkert hjól sjáanlegt!! Helv... kellingar!!!!! það var bara gefið í þegar ég rétti upp puttann (sko þumalinn!).
Mér tókst lokst að fá far um 2/3 af leiðinni og þurfti svo að labba restina. Það er algert æði þegar maður er búinn að klæða sig fyrir langa hjólaferð, einmitt sami fatnaðurinn sem maður notar til að fara í svona hike, eða hitt þó heldur :(

Það þarf ekki að hafa mörg orð um skapið sem kraumaði í mér á þessari stundu. Jú jú, það var yndislegt veður og fuglarnir sungu úti í móa en ég held að ég hafi einhvern tíman notið náttúrunnar betur en þetta kvöld. Ég gekk t.d. fram á fjórar rollur sem stóðu og jórtruðu tugguna sína og gláptu á mig eins og rollum er einum lagið. Þegar þeim datt svo í hug að jarma í áttina að mér alveg eins og þær væru að gera grín að mér þá hvæssti ég á þær: "þið verðið étnar í haust helvítin ykkar" !!! hmmm, já alltaf gaman að vera í göngutúr úti í náttúrunni!!!

Annars var best sem Hildur sagði þegar systir mín hringdi í hana á laugardaginn: "mamma fór til Ísafjarðar og hjólið hennar bráðnaði á leiðinni" !!! :) hehehe...

Jæja það þýði ekki að ergja sig endalaust á þessu, hjólið kom suður með flutningabíl og nú verður bara farið í að gera við. Ég á voða góða vini sem geta örugglega hjálpað mér við það en ég veit líka að vinir mínir eiga eftir að stríða mér endalaust á þessu þar sem ég bræddi nú úr Vespunni síðasta sumar!!

17.8.06

Og nú skal hjólað heim

Útilegan í Húsafelli var alveg dásamleg, allir í sínu besta skapi og mikið borðað og skemmt sér. Myndavélin gleymdist að sjálfsögðu heima en það er bara týpísk ég...!

En á morgun ætla ég að hjóla heim til Ísafjarðar. Ég verð ekki ánægð með mig fyrr en ég er búin að því. Held að það sé fíni hjólaæfing að taka mjóu-slitlögðu-kræklóttu vegina á vestfjörðum ásamt þessum stuttu spottum sem enn eru ekki slitlagðir. Allar litlar og stórar heiðar og svo framvegis. Þetta verður spennandi :)
Ég ætla að stoppa fram á þriðjudag og njóta allra ættingja og vina þarna. Ég á svoddan slatta af öfum og ömmum fyrir utan foreldra og frændfólk þarna að ég má hafa mig alla við ef ég á að hitta þó ekki væri nema hluta af fólkinu. Annars var ég svo sniðug að ég hringdi í Helgu vinkonu mína, sem ég finn aldrei tíma til að hitta þegar ég kem vestur og sagði henni að bjóða mér í mat á laugardagskvöldið :) Hún tók vel í það og fannst þetta sniðug leið hjá mér til að við mundum loksins hittast.

Dætur mínar eru orðnar svo stórar að þær ætla að vera heima að passa Depil. En þar sem Ólöf er að vinna svo mikið þessa daga sem ég verð í burtu þá ætlar Gunna frænka þeirra að vera Hildi til halds og trausts. Ég er nú ekki róleg að skilja þær alveg einar eftir í 5 daga, gott að hafa svona frænku til að leita til þegar svo ber undir!

Bless þar til í næstu viku og gerið ekkert sem ég mundi ekki gera.....! ;)

11.8.06

Útilega og útilega

Um síðustu helgi, verslunarmannahelgina, fórum við mæðgurnar (allar 3) og Depill til Akureyrar þar sem við tjölduðum nýja fína hústjaldinu okkar í garðinum hjá Dísu systir. Ég keypti nefnilega notað hústjald af vinnufélaga mínum eftir að litla RL-tjaldið mitt dó eftir síðasta Landsmót ;)
Að sjálfsögðu gleymdi ég að taka myndavélina með norður svo að engin mynd er til af frum-tjöldun okkar. Eftir að hafa verið í litlu kúlutjaldi alla mína útilegutíð, þá leið mér eins og ég væri búin að byggja heilt einbýlishús þegar þetta flykki var komið upp. En það stóð sig með prýði og hélt vatni og vindum.
Við dúlluðum okkur þarna í höfuðstað norðurlands alla helgina og tókum lífinu með ró. Depill stóð sig með prýði og fékk að sofa í tjaldinu eina nóttina en hann svaf svo í bílnum hinar tvær svo að við Hildur fengjum að sofa í friði. Hann tekur hlutverk sitt sem varðhundur nefnilega mjög alvarlega og þurfti að láta í sér heyra í hvert sinn sem hann heyrði umgang úti fyrir. Það er svolítið erfitt þegar maður tjaldar í miðbæ Akureyrar á meðan útihátíð er í gangi!!!

Nú um helgina er stefnan tekin á Húsafell þar sem VSI ætlar að vera með árlega sumarferð sína. Ég held að það geti bara orðið gaman. Núna verður myndavélin tekin með :)

Hafið það gott um helgina elskurnar (já og hinir, hahaha...) !

8.8.06

Umburðarlyndi

Ég hef alltaf verið mjög viðkvæm fyrir framkomu annarra. Mér finnst einhvern vegin eins og "öll dýrin í skóginum" eigi að vera vinir og hef oft tekið nærri mér ef svo er ekki. Líklega er þetta hluti ástæðunnar fyrir veikindum mínum á geðsviðinu, ég þoli mjög illa misklíð.
En undanfarin tvö ár hef ég farið að sortera úr það fólk sem ég umgengst því að sumir hafa reinlega heilsuspillandi áhrif á mig. Það er helst fólk sem er ósanngjarnt og getur ekki tekið tillit til þess að það eru ekki allir eins. Ég tek yfirleitt mjög nærri mér og reiðist ef mér finnst fólk ósanngjarnt í minn garð. Ég tel mig frekar "ligeglad" manneskju og tek fólki yfirleitt eins og það er. Auðvitað eru alltaf einhverjir einstaklingar sem maður fær grænar bólur yfir og getur alls ekki þolað, en það er líka allt í lagi, það þarf ekkert öllum að líka við alla. Þess vegna velur maður hverja maður umgengst.
En stundum kemst maður ekki hjá því að umgangast ósanngjarnt fólk vegna vinnu, tengsla í fjölskyldu, vegna barnanna eða einhvers annars. Þá verður maður bara að setja í hlutlausan og renna í gegnum þau samskipti algerlega neutral.

Ég er t.d. hætt að taka þátt í einhverjum umræðum um hraðakstur mótorhjólamanna. Þar virðist sem sumir haldi að það sé sjálfsagður réttur þeirra að aka hratt (á ofsahraða) af því að einhverjir aðrir geri líka eitthvað ólöglegt. Þetta er svona sandkassa hugsunarháttur og hann pirrar mig. Þess vegna nenni ég þessu ekki lengur, ætla bara að hjóla á mínu hjóli fyrir sjálfa mig og með mínum vinum.

Hef ekki tíma til að blogga neitt um verslunarmannahelgina núna, verð víst að vinna eitthvað líka :-/ hehehe.... bless í bili og verið vinir þó svo að sumir séu birnir og aðrir ljón, öll dýrin í skóginu eiga að vera vinir!!!!!

1.8.06

Daglegt líf

Það er lítið merkilegt um að vera í mínu lífi þessa dagana. Eiginlega hefur mér hálf leiðst og er það engum að kenna nema mér sjálfri. Ég er eiginlega svolítið hissa því mér leiðist ekki oft, er yfirleitt sjálfri mér nóg og finnst mjög gott að dunda mér. En ég er búin að vera frekar þung í skapi síðustu dagana og kem engu í verk.
Einn lítill og ljós punktur var samt hjá mér á föstudagskvöldið þegar ég fékk að passa hana Höllu Katrínnu litlu þeirra Önnu og Óla. Við Hildur dúlluðumst með hana allt kvöldið og mmmm hvað mér finnst yndislegt að snúllast svona með ungabarn, enda er hún algert yndi :)

Vikan er svo bara vinna og vinna, eiginlega mjög gaman því það er svo rólegt á skrifstofunni núna, margir í sumarfríi og þá get ég leift mér að stúdera fræðin svolítið. Er búin að lesa fullt af greinum um brunahönnun sem ég hef ekki getað gefið mér tíma í síðan í vetur og svo var að koma hérna inn um dyrnar bók um brunahönnun á burðarvirkjum sem er akkurat mín deild. Já, já ég veit hvað sumir ætla að segja núna og ég viðurkenni það bara: Ég er alger nörd!!! he he he... En þetta er bara svo spennandi ;) !!!!

Best að halda áfram að nördast, see ya later...