Ást og ýmislegt svoleiðis
Ég hef tvisvar verið ástfangin að einhverju marki. Þessi tvö skipti eru mjög ólík en eiga það þó sameiginlegt að hvorugur mannanna var eins og maður segir "góður fyrir mig". En það virðist sem maður stjórni því ekki algerlega sjálfur hvert maður tapar hjartanu heldur eru það einhver efnasambönd sem taka af manni völdin.
Líklega getur maður verið viss um að hafa verið ástfanginn í raun og veru ef sársaukinn eftir sambandsslitin er óbærilegur og lengi að hverfa. Ég hef upplifað það bæði eftir að ég sleit sambandinu og þegar hinn aðilinn sleit því. Þetta eru atvik í lífi manns sem gera ör á sálina.
Samt langar mig að verða ástfangin aftur. Eitthvað er það í fólki (allavega flestu) sem gerir það að verkum að þráin eftir lífsförunaut slokknar aldrei alveg. Ég hef það fínt í daglegu lífi. Ég er í góðri vinnu, allt gengur vel heima fyrir og bara bjart framundan. Samt hef ég staðið mig að því undanfarið að þrá náin samskipti við einhvern sem elskar mig. Ég er yfirleitt voða sátt við einveruna og er oftast mjög fegin því að geta ákveðið alla hluti sjálf án þess að þurfa að grípa til málamiðlana en það er einhver hluti þarna inni sem langar samt í maka.
Ég finn að ég er ekki manneskja sem karlmenn laðast að. Ég á oft í mjög skemmtilegum samræðum við menn sem láta það alveg uppi að ég sé fróð og dugleg og að þeir dáist að hörkunni í mér en það er samt ekki lýsing á konu sem menn vilja eiga fyrir maka. Þá vilja þeir frekar einhverja aðeins veikari fyrir svo að maður ógni ekki stöðu þeirra sem sterkara kynið. Og þetta er á meðan þeir slá um sig með kommentum um hvað konur séu ósjálfbjarga á ýmsum sviðum. Hmm, það er erftitt að vera sjálfstæð kona. Jú jú eins og ég sagði maður á fullt af vinum sem taka manni nokkurn vegin sem jafningja en eitthvað er minna um elskhuga.
Á ég kannski að brjóta odd af oflæti mínu og sýna einhverjar veikar hliðar? Taka frekar stríðninni um að kunna ekki eitthvað eða geta ekki eitthvað sjálf? Æi, veit ekki, það er einhvern vegin ekki svo mikið ég...! Ætli ég verði ekki frekar að bíða og sjá hvort það er einhver til þarna úti sem er nógu sterkur og stór til að þora í mig....!!!!
7 Comments:
Hann er þarna úti einhvers staðar.Passaðu bara að falla ekki í þá gryfju eins og svo margir að vera stöðugt að leita.Vonandi koma margir sterkir menn í afmælið fyrir þig,kveðja Magga.
Takk elskan mín, nei ég er ekki stöðugt að leita, engin hætta á því. Met frelsið mitt of mikils til þess að eyða tímanum í svoleiðis kjánaskap ;)
Enda eru þetta meira svona hugleiðingar hjá mér í amstri dagsins.
Þú ert að drepast úr kvenrembu mamma mín. Djöfulsins feministi
Og hvar værum við staddar án feminista Ólöf frænka? ;)
Þetta snýst ekki lengur um jafnréttindi hjá þeim heldur forréttindi!
Ég held að hún Ólöf mín átti sig ekki á því að hér er það frekar reynslan sem talar en ekki fordómar gagnvart karlkyninu.
Mér er ekkert illa við þá flesta og vill auðvitað jafnrétti en ekki forréttindi enda kemur það hvergi fram í mínum pistli góða mín!!!
Jæja stelpur! það er bara hiti í fólki, það væri nú gott systir og frænkur ef þið væruð allar eins og ég, blíð, undirgefin og laus við alla kvenrembu....þá væri nú lífið leikur einn skal ég segja ykkur....og talandi um feminista þá hef ég nú bara aldrei heyrt á þá minnst. Fallegt orð annars FEMINISTI.
Skrifa ummæli
<< Home