31.7.05

Komin heim á Ísó

Já ég var snögg að breyta ferðaplaninu mínu. Hafði ætlað mér að fara vestur um verlsunarmannahelgina og vera hjá ömmu á Bökkunum fram á miðvikudag. Þá var planið að við Hildur færum austur fyrir og tækjum hringferð um landið. En á miðvikudaginn breyttist allt í einni svipan þegar ég frétti að amma og afi í sveitinni væru að leggja af stað vestur. Þau ætluðu að keyra sjálf en þar sem ég er svo frek og af því að mér leist ekkert á heilsufarið á afa til þess að keyra þetta allt sjálfur, þá tróð ég mér með þeim. Við Hildur áttum frábæra ferð með þeim vestur, með gistingu á leiðinni og skemmtilegri ferð út á Snæfjallaströnd.
Ólöf komst ekki með þar sem hún þurfti að vinna en hún fær að fara í skemmtilega ferð í næstu viku þegar hún fer með Ferðafélagi Íslands í unglingaferð á Hornstrandir.
Hildur ætlar að verða eftir hjá mömmu en við amma og afi ætlum að keyra suður í tveimur áföngum á mánudag og þriðjudag.

Heyrumst síðar....

22.7.05

Enn og aftur komin helgi

Úff hvað tíminn þýtur áfram, júlí bara bráðum búinn!!! Það styttist óðum í að skólinn byrji aftur og þá er það lokarverkefnið mikla :-/ Ég sem hélt alltaf að ég ætti allt sumarið eftir þangað til... en tíminn heldur víst alltaf áfram og áfram og áfram og....

En að öðru, hún Inda vinkona mín er nú komin með öll þau ökuréttindi sem hægt er að fá, held ég a.m.k. Veit ekki alveg með lyftara og vinnuvélaréttindin? En hún var sko að klára trailerinn og rútuprófið og stóð sig með þvílíkum glæsibrag að við ætlum að skála fyrir því í kvöld. Ekki stendur samt til að detta mikið í það enda áætluð mótorhjólaferð á morgun, í heimsókn á landsmót skáta á Úlfljótsvatni. Við Hildur ætlum að sníkja okkur far með einhverjum góðhjörtuðum hjólandi Sniglum.
Ég skutlaði Ólöfu og Rúti til Víkur í gærkvöldi þar sem þau ætla að vera um helgina. Sumum finnst voða skrítið að ég hafi bara skutlað þeim eins og ekkert sé en þegar maður er vanur að keyra milli Ísafjarðar og Reykjavíkur á öllum árstímum þá finnst manni ekki mikið mál að skreppa eina kvöldstund til Víkur í Mýrdal. Við Hildur vorum að vísu ekki komnar heim fyrr en kl. 3 í nótt og var ég þá orðin ansi sybbin. En það gerði ekkert til því veðrið var svo dásamlegt að það var bara flott að aka suðurlandið.

Góða helgi öll sömul og ef ykkur leiðist þá ætlum við Inda að skála heima hjá mér kl. 21:00 í kvöld. Góður félagsskapur vel þeginn!!! :)

18.7.05

Niðurdregni dagurinn

Jæja þá er það niðurdregni dagurinn, hann verður líka að koma stundum,ekki satt?
Það fór sem sagt eins og ég hélt, ég náði ekki nógu háu greiðslumati svo að ekkert verður af íbúðakaupum núna. Ég ætla þá að vera róleg fram á vordaga og reyna að vinna mig upp í að fá hærra mat svo ég geti keypt eitthvað sem passar. Ég veit þó allavega núna hvernig málin standa og hef markmið til að ná.

Ég veit ekki hve margir muna eftir því sem gerðist í vetur í sambandi við skólaferðalagið sem bekkurinn minn fór í, en ég sem sagt komst ekki með. Ég álpaðist til að skoða myndir úr þeirri ferð á síðu hjá einum skólabróðir mínum og varð við það svoooo döpur. Mig langaði svo svakalega að fara í svona ævintýraferð. Þau fóru til Tælands og ég ætla ekki að fara út í það hér af hverju ég komst ekki með en allavega fannst mér á sínum tíma illa að mér vegið í því sambandi. Og þó það sé ljótt að hugsa svona, þá fannst mér eiginlega ömurlegt að sjá á myndunum hvað einn aðili í hópnum virtist skemmta sér vel, þ.e. sá sem átti hvað stærstan hlut í því að bola mér í burtu. URRRR....!!!
Varð bara aðeins að fá að sleppa mér hérna, ætla samt ekkert að dvelja við svona særindi en þetta særði bara ansi djúpt á sínum tíma og það hruflaðist aðeins af hrúðrinu sem var að gróa yfir þegar ég skoðaði myndirnar.
En ég sá líka að ég hefði ekki átt neitt erindi með þessum annars skemmtilega hóp. Þarna voru nefnilega eintóm pör svo maður hefði líklega verið eins og einhjóla vagn.

Annars er mikið að gera í vinnunni, ég er t.d. búin að vera að klífa steinlassa upp 4 hæðir í dag til þess að mæla þakkanta o.fl. Vonandi fer svo að líða að fyrstu steypunni á Klapparstígnum, það fer sko alveg að verða kominn tími á að þetta verk fari að ganga eitthvað!!!!

13.7.05

Drauma íbúðin

Ég rakst á drauma íbúðina mína í vikunni. Var að skoða fasteignavefi og sá til sölu tvær íbúðir í Hlíðunum sem mér leist á og fór og skoðaði þær. Önnur var kjallaraíbúð, björt og fín en með allt of litlum barnaherbergjum. Þ.e.a.s. annað var það lítið að það kallaðist eiginlega bara smá skrifstofukompa, varla hægt að koma rúmi þar inn!! Gengur ekki! :(
Hin íbúðin er uppi í risi í fjögurra íbúða húsi. Er undir súð og með stórum kvistum. Þessi íbúð er algert æði, með þremur góðum herbergjum, rúmgóð og krúttileg. Algerlega sniðin fyrir okkur mæðgurnar. Hún er frekar dýr eins og búast má við í þessu hverfi en ég ætla nú samt að bjóða í hana með fyrirvara um greiðslumat. Ég á ekki von á því að fá nógu hátt greiðlsumat en tel að þetta sé ágætis tækifæri til þess að sjá hvernig ég er metin og þá get ég bara unnið í því næsta árið að hækka þetta mat. Þannig að þó að mig langi svakalega í þessa íbúð þá ætla ég ekki að gera mér of miklar vonir. Læt ykkur vita hvernig fer.

Ég er farin að halda að þetta hús niðri á Klapparstíg, sem ég er í forsvari fyrir að byggja, komist aldrei upp úr jörðinni. Það er alltaf eitthvað sem tefur. Við erum enn ekki farin að steypa fyrstu steypu :( Það er nú vonandi að þetta fari að ganga betur úr þessu. Þetta er alveg til þess að draga úr trú minni á hæfni mína í þessu starfi, finnst að ég eigi að geta gert betur. Ekki það að þessar tafir séu mér að kenna en ef ég hefði meiri reynslu þá hefði ég kanski getað unnið þetta betur. Maður verður því bara að læra af þessu núna.
Talandi um það, best að halda áfram að vinna.... :)

7.7.05

Titill bloggsíðunnar

Þar sem síðan heitir "hávísindalegar spekúleringar" þá ætla ég að ramba aðeins um í huga mínum í þessu bloggi.

Ég hef verið í mjög góðu jafnvægi undanfarið. Mér líður að mestu leiti vel með staðinn sem ég er á í lífinu og sé fram á að lífið fari bara fram á við á næstunni.
Það eru ákveðin tímamót að vera að klára námið og fara að vinna. Bæði tengist það tekjum, húsnæði og ábyrgð. Það er nefnilega þannig að núna þarf ég að skila mínu á mikið skemmri tíma en þegar ég er í skóla, ég meina, klukkustundin kostar helling og ég get ekki leyft mér að hugsa og hugsa og pæla í hlutunum. Vandamálið er bara að mig skortir svo tilfinnanlega reynslu sem er alveg 50% af þekkingunni á móti því sem ég lærði í skólanum. Þess vegna finnst mér ég aldrei vera að skila mínu í vinnunni :( Við þessu er ekkert annað að gera en afla sér reynslunnar og þá er bara að grafa upp þolinmæðina á meðan á því stendur.

Ég hef líka verið að velta fyrir mér stöðu minni sem einhleyp kona. Ég kann virkilega að njóta þess að vera óbundin og geta tekið allar mínar ákvarðanir án árekstra. En samt örlar á því að mig langi til þess að vera elskuð! Þá meina ég ekki að enginn elski mig, nei nei, ég veit að ég á góða fjölskyldu og vini í þeim hópi en þið vitið hvað ég meina ;) Ég hugsa að það sé mjög eðlilegt að langa til þess að eiga lífsförunaut, eða hvað???

Það er nú samt þannig að það er betra að vera einn og ánægður með lífið og tilveruna en að hoppa inn í eitthvert samband bara til þess að vera í sambandi. Mér þykir alltof vænt um sjálfa mig til þess að gera það. Það er alveg sorglegt hversu margir fara beint úr einu sambandi í annað bara af hræðslunni við að vera einn. Það er eins og fólk hafi ekki kjark til þess að horfast í augu við sjálfan sig en það er ekkert skrítið því að það er alveg svakalega erfitt. Ég kannast alveg við það, það tók mig langan tíma frá skilnaðinum að finna mig sjálfa, eins og ég er og hvað ég vill. Oft hélt ég að ég vissi það en sá svo eftir á að svo var ekki. Og það er búið að kosta mörg tárin og angistina að horfast í augu við mig eins og ég er en ég skal segja ykkur að það er alveg þess virði!!!

Ég get nefnt eitt lítið dæmi. Í mörg ár þá fór ég í veislur eða aðra mannfagnaði þar sem mér leið illa, bara af skyldurækni. Skyldurækni við hvern, spyr ég nú bara? Allavega ekki við sjálfa mig, það er á hreinu!!! Nei, núna þá segi ég bara að ég komi ekki ef ég sé fram á að mér komi til með að líða illa á staðnum og viti menn, það verður ekki heimsendir!?!
Vanlíðanin sem ég er að tala um í þessu tilfelli tengist kvíðaröskun minni og vanmætti gagnvart fortíðinni. Ég hef trú á því að því heiðarlegri sem ég verð við að horfast í augu við fortíðina því sterkari verð ég til þess að takast á við framtíðina.

OG... ef ég er sátt við sjálfa mig í fortíð, nútíð og framtíð, þá skiptir ekki öllu máli hvort ég fer makalaus (í öllum merkingum þess orðs, hehe) í gegnum restina af lífinu :)

5.7.05

Frábært landsmót

Já það er óhætt að segja það að landsmótið hafi verið æðislegt!! Hún Dagrún á heiður skilið fyrir allan undirbúninginn og er ég viss um að margir gera sér enga grein fyrir hversu mikla vinnu hún hefur lagt í þetta. Það er nefnilega svoleiðis að fólk heldur að margir hlutir gerist sjálfkrafa!! Ég vona bara að hún nái að miðla af reynslu sinni til annara svo að áfram megi halda svona góð og vel undirbúin landsmót án þess að hún þurfi endilega að sjá um það.
En eins og áður sagði þá var helgin alveg frábær. Veðrið var alveg þolanlegt, ekki alveg þurrt en heldur ekki mikil rigning. Bleytan var töluvert meiri innan í fólki en utan á :) Alveg er það merkilegt hvað ólíkir hópar af fólki mætast þarna og allir taka öllum nákvæmlega eins og þeir eru. Á þessu móti var mikið fyllerý, 3 dansleikir og dagar og nætur runnu saman. þó voru engin slagsmál eða fíkniefni á staðnum. Allt fór mjög vel fram og mikil gleði var við völd.
Alveg er það víst að fjölmiðlum finnst ekkert fréttnæmt við það að 250 mótorhjólamenn hafi skemmt sér í sátt og samlyndi í rúma 3 sólarhringa en ef einn maður sem hugsanlega hefur einhvern tíman ekið mótorhjóli lendir í kasti við lögin þá er því slegið upp á forsíðum blaðanna.

Núna er ég búin að fá hana Hildi mína heim. Hún kom að vestan áðan með mömmu og Didda. Þó ég kunni alveg að njóta þess að vera barnlaus stundum þá finnst mér best að hafa þær báðar hjá mér.

Ekki meira frá mér í bili, bless bless...