Titill bloggsíðunnar
Þar sem síðan heitir "hávísindalegar spekúleringar" þá ætla ég að ramba aðeins um í huga mínum í þessu bloggi.
Ég hef verið í mjög góðu jafnvægi undanfarið. Mér líður að mestu leiti vel með staðinn sem ég er á í lífinu og sé fram á að lífið fari bara fram á við á næstunni.
Það eru ákveðin tímamót að vera að klára námið og fara að vinna. Bæði tengist það tekjum, húsnæði og ábyrgð. Það er nefnilega þannig að núna þarf ég að skila mínu á mikið skemmri tíma en þegar ég er í skóla, ég meina, klukkustundin kostar helling og ég get ekki leyft mér að hugsa og hugsa og pæla í hlutunum. Vandamálið er bara að mig skortir svo tilfinnanlega reynslu sem er alveg 50% af þekkingunni á móti því sem ég lærði í skólanum. Þess vegna finnst mér ég aldrei vera að skila mínu í vinnunni :( Við þessu er ekkert annað að gera en afla sér reynslunnar og þá er bara að grafa upp þolinmæðina á meðan á því stendur.
Ég hef líka verið að velta fyrir mér stöðu minni sem einhleyp kona. Ég kann virkilega að njóta þess að vera óbundin og geta tekið allar mínar ákvarðanir án árekstra. En samt örlar á því að mig langi til þess að vera elskuð! Þá meina ég ekki að enginn elski mig, nei nei, ég veit að ég á góða fjölskyldu og vini í þeim hópi en þið vitið hvað ég meina ;) Ég hugsa að það sé mjög eðlilegt að langa til þess að eiga lífsförunaut, eða hvað???
Það er nú samt þannig að það er betra að vera einn og ánægður með lífið og tilveruna en að hoppa inn í eitthvert samband bara til þess að vera í sambandi. Mér þykir alltof vænt um sjálfa mig til þess að gera það. Það er alveg sorglegt hversu margir fara beint úr einu sambandi í annað bara af hræðslunni við að vera einn. Það er eins og fólk hafi ekki kjark til þess að horfast í augu við sjálfan sig en það er ekkert skrítið því að það er alveg svakalega erfitt. Ég kannast alveg við það, það tók mig langan tíma frá skilnaðinum að finna mig sjálfa, eins og ég er og hvað ég vill. Oft hélt ég að ég vissi það en sá svo eftir á að svo var ekki. Og það er búið að kosta mörg tárin og angistina að horfast í augu við mig eins og ég er en ég skal segja ykkur að það er alveg þess virði!!!
Ég get nefnt eitt lítið dæmi. Í mörg ár þá fór ég í veislur eða aðra mannfagnaði þar sem mér leið illa, bara af skyldurækni. Skyldurækni við hvern, spyr ég nú bara? Allavega ekki við sjálfa mig, það er á hreinu!!! Nei, núna þá segi ég bara að ég komi ekki ef ég sé fram á að mér komi til með að líða illa á staðnum og viti menn, það verður ekki heimsendir!?!
Vanlíðanin sem ég er að tala um í þessu tilfelli tengist kvíðaröskun minni og vanmætti gagnvart fortíðinni. Ég hef trú á því að því heiðarlegri sem ég verð við að horfast í augu við fortíðina því sterkari verð ég til þess að takast á við framtíðina.
OG... ef ég er sátt við sjálfa mig í fortíð, nútíð og framtíð, þá skiptir ekki öllu máli hvort ég fer makalaus (í öllum merkingum þess orðs, hehe) í gegnum restina af lífinu :)
3 Comments:
Mikið rosalega eru þetta heilbrigðar og skynsamar hugrenningar hjá þér. það vildi ég að fleiri tækju sig svona á og lærðu að þykja vænt um sig sjálf!!!
þú er flott!:)
Takk fyrir :)
Æ Anna...
Þú ert svo frábær!
Kveðja Inda!
Skrifa ummæli
<< Home