27.2.09

Bolludagur - Sprengidagur/pancakeday

Það var að sjálfsögðu haldið í íslenska siði á þessu heimili í vikunni. Ég bakaði nokkrar gerbollur fyrir okkur Hildi á síðasta sunnudag og svo var okkur boðið í bollukaffi á bolludaginn sjálfan til Ragnars og Agnesar. Mmmm, fengum yndislegar vatnsdeigsbollur og sko nóg af þeim...! Sem betur fer er heimleiðin aðeins niður á móti svo við gátum rúllað hingað heim eftir allt átið :)
Hérna halda þeir líka upp á sprengidaginn en ekki með saltkjöti og baunum, heldur pönnukökum. Dagurinn heitir s.s. "Pancakeday" í þessu landi. Ég var búin að ákveða að gera pönnukökumáltíð eða "crepes" en þegar leið á daginn í skólanum þá fór mig að langa meira og meira í baunasúpu svo ég kom við í Sainsbury's á leiðinni heim og keypti baunir, bacon og lauk, gulrætur og rófur. Ég keypti líka einn góðan bita af nýju lambakjöti til að hafa með. Mmmm, baunasúpan var svo góð þó það vantaði saltkjötið (setti bara extra mikið bacon í hana í staðinn) og hún dugði okkur vel í tvo daga. Þannig að pönnukökudagurinn var bara hjá okkur í gær (fimmtudag) í staðinn.

Að lokum set ég hérna inn myndir frá tilraunum sem ég var að gera í vikunni á eldi í fljótandi eldsneyti ("pool fires"), get ekki sagt annað en að það var alveg rosalega gaman!!



Gaman í skólanum!!!

Flottur logi!

21.2.09

Enn meiri missir í fjölskyldunni

Í dag er borinn til grafar á Ísafirði fyrrverandi tengdapabbi minn og afi stelpnanna minna. Hann Guðmundur, eða Gummi afi eins og þær kalla hann alltaf, lést á þriðjudaginn og er mikill missir af honum kallinum. Hann var mér alltaf mjög góður þótt við værum ekki alltaf sammála um lífið og tilveruna, sérstaklega ekki kynjahlutverkin ;) en þar var hann af gamla skólanum þessi elska og fannst ég oft vera óttaleg grybba að ætlast til þess að Vignir tæki þátt í heimilisverkunum :) En við vorum samt góðir vinir og eftir að við Vignir skildum þá tók Gummi mér alltaf eins og ég væri áfram í fjölskyldunni og kunni ég virkilega að meta það.
Hann var líka óskaplega góður afi. Blíður og notalegur og stelpurnar elskuðu hann og dáðu. Eins og þær eru lánsamar að eiga fullt af ömmu og öfum, langömmum og langöfum ásamt langa-langömmu mínum megin þá var Gummi afi sá eini sem eftir var pabba þeirra megin í fjölskyldunni. Mikill er missirinn fyrir Vigni núna og sendi ég honum og allri fjölskyldunni hans mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Það er voðalega leiðinlegt á svona stundum að okkar litla fjölskylda skuli vera sitt hvoru megin Atlandshafsins. Ólöf er fyrir vestan í jarðaförinni og langar mig til þess að vera til staðar fyrir hana þessa elsku en Hildur er jafn döpur hérna úti yfir því að geta ekki verið hjá pabba sínum á svona stundu.
Hvíl í friði elsku Gummi, ég efast ekki um að hún Lufa þín tekur vel á móti þér eftir tuttugu ára bið. Þakka þér samfylgdina með mér og stelpunum mínum -Blessuð sé minning Guðmundar Ólasonar!

12.2.09

Allt í rólegheitunum

Já það er allt í voðalega miklum rólegheitum hjá okkur Hildi. Hún er að ná sér upp úr flensunni en það hefur tekið hana mikið lengri tíma heldur en það tók mig, hún er enn með ljótan hósta.
Skólinn hjá mér er núna fyrst kominn á fullt og nóg að gera. Ég verð að játa það að ég geri ósköp lítið annað þessa dagana en að læra og prjóna. Eins og ég hef örugglega sagt áður þá er prjónaskapurinn alger slökunarþerapía fyrir mig og veit ég fátt betra en að hlamma mér í sófann fyrir framan bara eitthvað í sjónvarpinu og prjóna, eftir að hafa legið yfir lexíunum allan daginn. Svo er líka bara svo gaman að skapa og búa eitthvað til :)

Það er ekki búið að vera eins rólegt yfir lífinu hjá henni mömmu minni og Gunnlaugi manninum hennar. Eins og ég sagði í síðustu færslum þá lést móðuramma mín og var hún jarðsett í síðustu viku. En daginn eftir að hún var jörðuð þá dó pabbi hans Gunnlaugs eftir frekar stutt en erfið veikindi og var einnig tvísýnt um móður hans aldraða en hún virðist eitthvað vera að hressast blessunin. Það er víst bara þannig með dauðann, við höfum enga stjórn á því hvenær kallið kemur. Það er því önnur jarðaför hjá þeim í þessari viku og um leið og ég sendi mömmu bestu afmælisóskir (hún átti afmæli á þriðjudaginn) þá sendi ég Gunnlaugi og hans fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur.

Að lokum stenst ég ekki að setja hérna inn mynd sem ég fékk í tölvupósti í gær. Eflaust hafa margir ef ekki allir fengið þessa mynd senda en mér er alveg sama, mér finnst hún svo falleg og yndisleg. Hún er tekin í Ástralíu, í skógareldunum sem hafa geysað þar og sýnir að dýrin vita hvenær þau geta treyst á hjálp mannanna :) Látum þessa litlu fallegu sögu vera ljósið okkar inn í daginn og munum að stundum getum við gert pínulitla hluti sem geta kannski skipt miklu máli fyrir einhvern annan.

4.2.09

Einkunnir og fleira skrítið

Ég er öll að koma til, svona heilsufarslega. Held að ég hafi bara sloppið nokkuð vel með bara nokkurra daga kvefpest. Ég náði samt að smita Hildi líka svo hún tók við af mér í vesældómnum.

Ég er enn ekki búin að fá neinar einkunnir síðan á haustönninni. Þetta er allt svo svifaseint hérna í þessum stóra skóla. Við áttum að fá einkunnirnar okkar á síðasta föstudag eða núna á mánudaginn en ég fékk e-mail í gær um það að niðurstöðunum úr akkurat þeim áföngum sem ég tók seinkaði eitthvað vegna snjóa og ófærðar á suður-Englandi!! Þá er það víst þannig að það er alltaf einhver utan þessa skóla sem þarf að skrifa upp á einkunnirnar og sá sem sér um þessa áfanga er þarna fyrir sunnan og hefur ekki komist í vinnuna í þessari viku. Þannig að þó að við hérna fyrir norðan séum ekkert í neinum sérstökum vetrarhörkum þá finnum við samt óbeint fyrir þeim - frekar fyndið!

En í dag er verið að jarða hana elsku ömmu mína í sveitinni og er hugur minn í allan dag búinn að vera hjá þeim þarna heima. Ég er samt í raun ekkert voðalega ósátt við að geta ekki fylgt henni síðasta spölinn því ég átti með henni góða stund áður en ég fór út í haust og þar áður margar góðar og skemmtilegar stundir sem ég ylja mér við að minnast. Mér finnst eiginlega erfiðara að vera ekki nálægt ömmu á Bökkunum í dag, hefði gjarnan viljað vera til staðar fyrir hana núna.

1.2.09

Kvef og leiðinlegheit

Takk fyrir góðar kveðjur til mín og fjölskyldunnar. Gott er að eiga góða vini :)
Helgin hefur verið afskaplega súr og leiðinleg. Ég er komin með leiðinda kvef í nefi, eyrum og augum og sár í hálsi. Er langt frá því að vera fullhress en samt eiginlega ekki nógu veik til að liggja fyrir, óþolandi þetta milli-ástand! Ég er þess vegna hér um bil gróin föst við sama hornið í sófanum þar sem ég dorma yfir mis-lélegu sjónvarpsefni á milli þess sem ég hnerra og snýti mér. Eina útiveran þessa helgi var þegar við fórum út í búð og fylltum á matarforða heimilisins og enduðum á því að fara á KFC og kaupa fulla fötu af mat sem við tókum með okkur heim. Þegar heim var komið bjó ég til kokteilsósu til að hafa þetta alvöru og svo skáluðum við Hildur í kjúklingabitum með kokteilsósu fyrir henni ömmu heitinni! -Smá útskýring fyrir þá sem ekki þekktu ömmu í sveitinni en eitt það besta sem hún vissi voru kjúklingabitar frá KFC með frönskum og kokteilsósu :)

Kveðja með snýt, snýt og hnerr, hnerr....!!