21.2.09

Enn meiri missir í fjölskyldunni

Í dag er borinn til grafar á Ísafirði fyrrverandi tengdapabbi minn og afi stelpnanna minna. Hann Guðmundur, eða Gummi afi eins og þær kalla hann alltaf, lést á þriðjudaginn og er mikill missir af honum kallinum. Hann var mér alltaf mjög góður þótt við værum ekki alltaf sammála um lífið og tilveruna, sérstaklega ekki kynjahlutverkin ;) en þar var hann af gamla skólanum þessi elska og fannst ég oft vera óttaleg grybba að ætlast til þess að Vignir tæki þátt í heimilisverkunum :) En við vorum samt góðir vinir og eftir að við Vignir skildum þá tók Gummi mér alltaf eins og ég væri áfram í fjölskyldunni og kunni ég virkilega að meta það.
Hann var líka óskaplega góður afi. Blíður og notalegur og stelpurnar elskuðu hann og dáðu. Eins og þær eru lánsamar að eiga fullt af ömmu og öfum, langömmum og langöfum ásamt langa-langömmu mínum megin þá var Gummi afi sá eini sem eftir var pabba þeirra megin í fjölskyldunni. Mikill er missirinn fyrir Vigni núna og sendi ég honum og allri fjölskyldunni hans mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Það er voðalega leiðinlegt á svona stundum að okkar litla fjölskylda skuli vera sitt hvoru megin Atlandshafsins. Ólöf er fyrir vestan í jarðaförinni og langar mig til þess að vera til staðar fyrir hana þessa elsku en Hildur er jafn döpur hérna úti yfir því að geta ekki verið hjá pabba sínum á svona stundu.
Hvíl í friði elsku Gummi, ég efast ekki um að hún Lufa þín tekur vel á móti þér eftir tuttugu ára bið. Þakka þér samfylgdina með mér og stelpunum mínum -Blessuð sé minning Guðmundar Ólasonar!

1 Comments:

Blogger Meðalmaðurinn said...

já þetta er með ólíkindum Anna, öll fráföllin undanfarið sem tengjast þér og þinni fjölskyldu. Ekki höfðu mér borist fréttir af því að hann Gummi væri dáinn. Bestu kveðjur til þín og Hildar.

24 febrúar, 2009 12:55  

Skrifa ummæli

<< Home