12.2.09

Allt í rólegheitunum

Já það er allt í voðalega miklum rólegheitum hjá okkur Hildi. Hún er að ná sér upp úr flensunni en það hefur tekið hana mikið lengri tíma heldur en það tók mig, hún er enn með ljótan hósta.
Skólinn hjá mér er núna fyrst kominn á fullt og nóg að gera. Ég verð að játa það að ég geri ósköp lítið annað þessa dagana en að læra og prjóna. Eins og ég hef örugglega sagt áður þá er prjónaskapurinn alger slökunarþerapía fyrir mig og veit ég fátt betra en að hlamma mér í sófann fyrir framan bara eitthvað í sjónvarpinu og prjóna, eftir að hafa legið yfir lexíunum allan daginn. Svo er líka bara svo gaman að skapa og búa eitthvað til :)

Það er ekki búið að vera eins rólegt yfir lífinu hjá henni mömmu minni og Gunnlaugi manninum hennar. Eins og ég sagði í síðustu færslum þá lést móðuramma mín og var hún jarðsett í síðustu viku. En daginn eftir að hún var jörðuð þá dó pabbi hans Gunnlaugs eftir frekar stutt en erfið veikindi og var einnig tvísýnt um móður hans aldraða en hún virðist eitthvað vera að hressast blessunin. Það er víst bara þannig með dauðann, við höfum enga stjórn á því hvenær kallið kemur. Það er því önnur jarðaför hjá þeim í þessari viku og um leið og ég sendi mömmu bestu afmælisóskir (hún átti afmæli á þriðjudaginn) þá sendi ég Gunnlaugi og hans fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur.

Að lokum stenst ég ekki að setja hérna inn mynd sem ég fékk í tölvupósti í gær. Eflaust hafa margir ef ekki allir fengið þessa mynd senda en mér er alveg sama, mér finnst hún svo falleg og yndisleg. Hún er tekin í Ástralíu, í skógareldunum sem hafa geysað þar og sýnir að dýrin vita hvenær þau geta treyst á hjálp mannanna :) Látum þessa litlu fallegu sögu vera ljósið okkar inn í daginn og munum að stundum getum við gert pínulitla hluti sem geta kannski skipt miklu máli fyrir einhvern annan.

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Frænka mín í Ástralíu sendi mér þessa mynd ...mér fannst hún svo falleg að ég áframsendi hana.

Knús Anna mín ..

Inda

12 febrúar, 2009 11:00  
Anonymous Nafnlaus said...

Ég hafði ekki séð þessa mynd, óskaplega falleg og hefur góðan boðskap.

16 febrúar, 2009 14:29  

Skrifa ummæli

<< Home