30.12.08

Hildur komin til baka

Ég var komin út úr dyrunum klukkan rúmlega sjö í morgun til þess að fara til Glasgow að taka á móti Hildi. Strætó-lest-strætó og svo aftur strætó-lest-strætó, allt tók þetta um 5 tíma, þ.e. með svolítilli bið á flugvellinum. En hvað það var svo yndislegt að fá stelpuna heim aftur, glaða og fína eftir góðan tíma á Íslandi. Ég vildi bara að Ólöf og Rútur hefðu getað komið líka og verið með okkur yfir áramótin en því miður þá leyfir efnahagsástandið það ekki.

Ég er búin að hafa það ljómandi gott um jólin. Átti rólegt og gott aðfangadagskvöld með Sigga, Ingu og Þóri Snæ og fór svo í al-íslenskt jólaboð á jóladag til Ragnars skólabróður míns og Agnesar konu hans. Þar var boðið upp á hangikjöt með öllu tilheyrandi þar á meðal ORA grænum baunum og Malt/Appelsínblöndu mmmm......!
Á laugardaginn buðu leigusalarnir mínir, Judy og Goff mér í skemmtilegan göngutúr um stíga hérna í kring og á eftir heim til þeirra í kjarngóða súpu og brauð. Svo þið sjáið það að það er vel hugsað um mig hérna og passað upp á að mér leiðist ekki svona ein :)

Veðrið hefur verið frábært öll jólin. Stilla og hlýtt til að byrja með en svo fór að kólna og er núna fallegt vetrarveður, sól, logn og frost. Miðbærinn er iðandi af lífi, bæði vegna útsala og líka vegna yfirvofandi hátíðahalda yfir áramótin. Hérna er nefnilega mikil hátíð um áramótin, Hogmanay, sem hófst í gærkvöldi með frábæru sjónarspili. Mikið hefði verið gaman af einhverjir hefðu getað komið og notið þessa með okkur en því miður þá er það ekki svo. Við Hildur njótum bara fyrir ykkur öll :)

Farið varlega um áramótin og takk fyrir allt gamalt og gott!

Áramótakveðja frá mæðgunum í Edinburgh!

24.12.08

Jól í Edinborg

Aðfangadagur er langt liðinn og það er ekki laust við að ég sé hálf meir. Mér líður ljómandi vel og er í raun bara mjög hamingjusöm með lífið mitt en það er auðvitað skrítið að vera í fyrsta skiptið í 19 ár án barnanna minna um jólin. En þar sem þær eru komnar heilu og höldnu til Ísafjarðar til pabba síns og fjölskyldu ásamt því að þar er líka næstum öll mín fjölskylda fyrir þær, þá er ég ánægð.

Ég fór í 6 klukkutíma göngu-/slæpiferð í gær. Skoðaði hluta af Þjóðmynjasafni þeirra Skota og eina stóra Dómkirkju ásamt því að rölta um og skoða mannlífið (sem mér finnst alltaf svo gaman). Ég gerði einnig jólagóðverkið sem við Hildur vorum búnar að koma okkur saman um að gera. Það er einn heimilislaus maður sem situr alltaf á sama staðnum niðri á Princes Street með hundinn sinn. Hann vefur alltaf hundinn inn í teppi og svefnpoka og svo húka þeir þarna ræflarnir. Rétt áður en Hildur fór heim til Íslands þá sáum við að hann var kominn með 3 hunda. Greinilega par og lítill hvolpur og þannig er það enn. Þarna situr hann með hundana vel vafða inn í eitthvað hlýtt og með hvolpinn innvafinn í fanginu. Hundarnir skipta sér aldrei af neinum vegfarendum og er greinilegt að þó manngarmurinn hugsi ekki vel um sjálfan sig þá er hann góður við hundana. Svo að ég gerði það sem við Hildur vorum búnar að ákveða að ég mundi gera fyrir jólin, ég fór og keypti einn poka af hundamat og smá hundanammi og bætti við einni stórri langloku og smá jólakökum og færði þeim félögum. Vildi frekar gera það en að henda einhverju klinki í húfuna hans. Kallræfillinn þakkaði voða vel og ég fékk að gefa voffunum nammið sitt :)

Í dag fór ég svo í góðan göngutúr með Ingu og Þóri Snæ svo snúður litli gæti lagt sig í kerrunni sinni og verið hress fyrir kvöldið. Yndislegt veður og allt að 10°C hiti úti. Næst á dagskrá er svo bara jólabaðið og svo jólamatur hjá Ingu og Sigga við hliðina.

Ég þakka innilega allar góðar kveðjur og óska öllum gleðilegrar hátíðar!

21.12.08

Prófin búin og jólin á næsta leiti

Prófin eru búin. Þessi prófatörn var mjög erfið og ég get varla sagt að ég viti hvað varð af því sem af er desember. Ég fór í fjögur próf, tvö burðarþolspróf og tvö í brunafögum. Mér gekk mjög illa í einu prófinu en ég vona að ég hafi náð hinum. Núna á ég eftir að gera eina ritgerð sem tilheyrir þessari önn en að öðru leiti er hún búin. Ég vona að ég nái að afla þeirra gagna sem nauðsynleg eru vegna ritgerðarinnar á mánudag og þriðjudag svo ég geti stússast eitthvað í þessu um jólin. Ég hef svo eitthvað fram í janúar til þess að klára hana.
Skólinn byrjar aftur 12.janúar en ég held að ég þurfi ekki að fara í tíma fyrstu 3 vikurnar. Nota þær þá í að byrja á næstu stóru ritgerð sem á að gera á vorönninni.

Ég var orðin svo gersamlega úrvinda eftir síðustu viku, var í einu prófi á mánudag, því næsta á miðvikudag og svo því síðasta á föstudaginn. En léttirinn var líka mikill um hádegi á föstudaginn þegar þetta var allt saman búið. Ég hélt upp á próflokin með Sigga, Ingu og Þóri litla nágrönnum mínum, við fórum út að borða á spænskum veitingastað þar sem við fengum okkur Tapas og eitt gott glas af Sangríu :)

Helgin hefur svo verið yndisleg. Búin að fá pakka að heiman með piparkökum, íslensku nammi og íslenskum jólalögum og fullt af myndum af krökkunum hennar Dísu systir. Svo fékk ég líka tvo diska með vídeói frá 100 ára afmælinu hennar ömmu um daginn svo þið getið rétt ímyndað ykkur hvort það voru ekki votir hvarmar hérna í gærkvöldi! Ég á svo yndislega fjölskyldu - þið eru sko lang- lang best!!!
Í gær (laugardag) dressaði ég mig upp og fór niður í miðbæ og drakk í mig jólastemminguna þar. Fékk mér heitt kakó með rommi og vöfflu með vanillusósu og kirsuberjum, mmmmmm!!! Svo bara rölti ég um í rólegheitunum, ekkert sem kallaði á mig og ég náði að bara njóta þess að vera til.
Í dag þreif ég íbúðina við undirleik yndislegra jólalaga, setti upp pínu skraut og fór svo út í búð og keypti það sem mig vantaði matarkyns.

Ég bið að heilsa í bili, kveðja frá einbúanum í Edinborg.

11.12.08

Ólöf í Fréttablaðinu í dag

Þökk sé tækninni þá gat ég fengið að sjá Fréttablaðið í dag þar sem er smá viðtal við hana Ólöfu krúsídúllu (já ég veit, þú ert ekkert ánægð með að ég kalli þig svona en ég má- ég er mamman!!)
Ég reyndi að setja link beint inn á síðuna hérna en það mistókst svo að slóðin er (fyrir þá sem ekki fá blaðið): http://vefmidlar.visir.is/VefBlod/?paper=fbl og þar inn á blaðið 11.desember og ef þið farið í html útgáfu þá veljið þið blaðhlutar og Allt og þar er hún blessunin.
Ef mér tekst að finna út úr því hvernig ég get sett þetta hérna inn þá geri ég það annars verður þetta að duga.

8.12.08

Ein í kotinu

Hildur er búin að vera heima á Íslandi í eina viku og er alsæl. Hún hefur farið í skólann, þar sem hún er ennþá skráð í bekkinn þá var það ekkert mál og verið með vinkonum sínum alla daga.

Ég hef ekki haft neinn tíma til að sakna hennar þar sem síðasta vika var síðasta kennsluvikan í skólanum og fullt -fullt af verkefnum sem þurfti að skila. Svo fór ég í fyrsta prófið í dag svo helgin fór í að læra fyrir það. Prófið var í sjálfu sér ekkert rosalega erfitt en maður hefði þurft a hafa helmingi lengri tíma eða þá að vera tvöfallt fljótari að reikna! Svo ég er ekkert voðalega bjartsýn með útkomuna.

En jæja jæja, það kemur allt saman í ljós og núna þarf ég að einbeita mér að næstu þremur prófum sem eru í næstu viku.

Kveðja til allra sem eru að jólast, ég er búin að setja upp eina jólaseríu í stofugluggann, kaupa eina jólarós og hengja fina jólasveininn minn utan á hurðina. Þá telst mínum jólaundirbúningi lokið :)