24.12.08

Jól í Edinborg

Aðfangadagur er langt liðinn og það er ekki laust við að ég sé hálf meir. Mér líður ljómandi vel og er í raun bara mjög hamingjusöm með lífið mitt en það er auðvitað skrítið að vera í fyrsta skiptið í 19 ár án barnanna minna um jólin. En þar sem þær eru komnar heilu og höldnu til Ísafjarðar til pabba síns og fjölskyldu ásamt því að þar er líka næstum öll mín fjölskylda fyrir þær, þá er ég ánægð.

Ég fór í 6 klukkutíma göngu-/slæpiferð í gær. Skoðaði hluta af Þjóðmynjasafni þeirra Skota og eina stóra Dómkirkju ásamt því að rölta um og skoða mannlífið (sem mér finnst alltaf svo gaman). Ég gerði einnig jólagóðverkið sem við Hildur vorum búnar að koma okkur saman um að gera. Það er einn heimilislaus maður sem situr alltaf á sama staðnum niðri á Princes Street með hundinn sinn. Hann vefur alltaf hundinn inn í teppi og svefnpoka og svo húka þeir þarna ræflarnir. Rétt áður en Hildur fór heim til Íslands þá sáum við að hann var kominn með 3 hunda. Greinilega par og lítill hvolpur og þannig er það enn. Þarna situr hann með hundana vel vafða inn í eitthvað hlýtt og með hvolpinn innvafinn í fanginu. Hundarnir skipta sér aldrei af neinum vegfarendum og er greinilegt að þó manngarmurinn hugsi ekki vel um sjálfan sig þá er hann góður við hundana. Svo að ég gerði það sem við Hildur vorum búnar að ákveða að ég mundi gera fyrir jólin, ég fór og keypti einn poka af hundamat og smá hundanammi og bætti við einni stórri langloku og smá jólakökum og færði þeim félögum. Vildi frekar gera það en að henda einhverju klinki í húfuna hans. Kallræfillinn þakkaði voða vel og ég fékk að gefa voffunum nammið sitt :)

Í dag fór ég svo í góðan göngutúr með Ingu og Þóri Snæ svo snúður litli gæti lagt sig í kerrunni sinni og verið hress fyrir kvöldið. Yndislegt veður og allt að 10°C hiti úti. Næst á dagskrá er svo bara jólabaðið og svo jólamatur hjá Ingu og Sigga við hliðina.

Ég þakka innilega allar góðar kveðjur og óska öllum gleðilegrar hátíðar!

5 Comments:

Blogger Inda said...

Jólaknús ..

Inda

26 desember, 2008 23:22  
Anonymous Nafnlaus said...

Gleðileg jól
knúsíknús

kv. Sóley

28 desember, 2008 19:28  
Anonymous Nafnlaus said...

Hæ Anna og Gleðilega jólarest, takk kærlega fyrir kortið það var mjög skemmtilegt. Nú fer nnú einverunni að ljúka og ég get vel trúað að það hafi verið skrítið fyrir þig að hafa stelpurnar ekki hjá þér á jólum, en hafið það sem allra best yfir áramót og ég óska þér og þinni fjölskyldu góðs gengis á nýju ári.

Idda

29 desember, 2008 09:32  
Anonymous Nafnlaus said...

Hæ skvís og takk fyrir jólabréfið. Gott að vita að að allt er í góðu. Vonandi hafa síðustu dagar verið þér góðir. Kærleikur ykkar mægna kemur ekki á óvart, megið ekkert aumst sjá. Mikið hefur maðurinn og hundarnir verið ánægð. Þið eruð yndislegar.
Bestu kveðjur, Ásdís

29 desember, 2008 11:42  
Anonymous Nafnlaus said...

Hæ frænka mín. Takk fyrir jólabréfið og PAKKANN !!! Ég er sannfærð um að prófin fara öll vel - þú reddar því eins og öðru.
Kv. Sigga frænka.

30 desember, 2008 11:27  

Skrifa ummæli

<< Home