29.10.08

Leigan þennan mánuðinn í höfn

Jæja, loksins bárust peningarnir fyrir októbermánuð inn á skoska bankareikninginn minn og ég gat í gær farið og borgað leiguna fyrir þennan mánuð. Þá á bara eftir að koma í ljós hvort ég þarf að fara sömu löngu boðleiðina, í gegnum Seðlabankann, í hverjum mánuði hér eftir! Það kemur bara í ljós.

Annars ekkert að frétta nema að það er brjálað að gera í skólanum og svo ég sé alveg hreinskilin, þá er þetta nám alveg helv.... þungt!!! Úff-púff og púffffff!!

26.10.08

Smá fréttir af okkur

Úff, það er bara pressa á mann að blogga oftar!! Jæja jæja ég skal reyna að finna eitthvað til að segja ykkur :)

Vikan sem mamma var hérna hjá okkur var yndisleg þrátt fyrir rysjótt veður. Við þrjár áttum notalegar stundir saman og skoðuðum búðir og fallega staði hérna í borginni. Mamma bauð okkur Hildi svo út að borða eitt kvöldið og fórum við á ítalskan veitingastað þar sem við fengum frábæran mat. Mamma fór svo aftur heim á fimmtudaginn og það var eins gott að hún átti ekki pantað far daginn eftir því að mér skilst að veðrið heima hafi verið þannig að meira að segja millilandaflugið raskaðist!

Hérna hefur veðrið svosem ekki verið neitt skemmtilegt undanfarið, rok og rigning en við höfum samt ekki fengið eins slæmt og þið þarna heima, að mér skilst.

Það er samt svo fyndið að vera í svona öðruvísi umhverfi en maður er vanur. Ég hugsa að þess vegna taki maður eftir alls konar litlum hlutum sem heimamönnum finnast ósköp venjulegir. T.d öll þessi laufblöð sem eru að falla (já og fjúka) af trjánum núna. Þau fjúka nefnilega í skafla eins og snjórinn og mér finnst það svo ferlega fyndið.

En að öðru. Hildi hefur ekki gengið mjög vel að aðlagast lífinu hérna. Hún á erfitt með að finna sér vini í skólanum og finnst hún hvergi passa inn í hópinn. Hún saknar mikið vinkvenna sinna heima en er sem betur fer í góðu sambandi við þær í gegnum tölvuna. Þetta hefur orðið til þess að hún er voðalega dauf dags-daglega og líður greinilega ekkert vel hérna. Ég held að þetta tengist aldrinum aðallega vegna þess að það er afskaplega erfitt að breyta alveg um umhverfi og félaga þegar maður er 14 ára. Það er ekki eins og sjálfstraustið sé að fara með mann á þeim aldri.....! En til þess að reyna að hjálpa henni í gegnum veturinn þá er ég búin að panta fyrir hana far heim um jólin. Ég fann hjá mér ferðapunkta á kreditkortinu mínu sem pössuðu akkurat fyrir fari fyrir hana fram og til baka. Fyrst pantaði ég far heim þann 14.desember og hingað út aftur þann 30.des. Það voru nefnilega allar ferðir eftir áramótin svo svakalega dýrar en þessi dagur var á góðu verði. En nokkrum dögum eftir að ég gekk frá þessari pöntun þá fékk ég mail frá Icelandair um að það væri búið að fella niður flugið þann 14. desember og einni öll önnur flug til og frá Glasgow í desember nema þann 30. Einnig að það yrði ekkert flogið til og frá Glasgow í janúar, febrúar og mars á næsta ári!!! Ég hringdi í Icelandair og sú sem ég talaði við athugaði með flug frá Manchester en það var líka búið að fella það niður í desember svo ég bað hana að athuga hvenær síðasta flug frá Glasgow yrði í nóvember og það er þann 30. nóv. Ég bara bókaði Hildi heim þá svo hún fékk þarna allt í einu heilan mánuð heima!!! Ekkert smá glöð með það stúlkan og ég er það líka hennar vegna. Hún fær að vera hjá Ólöfu systir sinni í Reykjavík þangað til þær fara saman vestur og verða hjá pabba sínum og fjölskyldu um jólin. Þannig fær hún að hitta vinkonurnar og að fara í skólann sinn í Reykjavík þangað til þær fara vestur. Ég held líka að það verði gaman fyrir þær systur að eiga saman jól í eitt skipti með Vigni og Rebekku og krökkunum þeirra, þær hafa jú alltaf verið hjá mér um jólin.

Ég verð því ein hérna í Edinborg um jólin því ég sé ekki fram á að fá neina heimsókn að heiman. Bæði vegna gengisins og þar sem þá þyrfti að fljúga í gegnum London og það er bara orðið of mikið vesen og of dýrt. Mér líst samt ekkert illa á þennan mánuð hérna ein og hvað eru ein jól á milli vina? Það koma önnur jól eftir þessi og ég er líka einhvern vegin þannig gerð að mér líkar afskaplega vel að fá að vera ein stundum, hef eiginlega bara þónokkra þörf fyrir það.

Að lokum myndir frá heimsókn mömmu, eins og sjá má þá snérist allt um það að borða ;)














18.10.08

Allt gengur vel - nenni ekki að blogga þessa dagana

Þið, mínir dyggu lesendur (ef einhverjir eru) verðið að fyrirgefa bloggletina undanfarið. Andinn hefur bara ekki verið yfir mér, hann hefur verið upptekinn við skólaverkefni og daglegar áhyggjur.
En það er allt gott að frétt af okkur Hildi. Þó það hafi enn ekki tekist að millifæra neina peninga hingað í land Skota þá byrti heldur betur yfir heimilinu þegar við fengum mömmu í heimsókn á síðasta fimmtudag. Hún kom færandi hendi með bæði íslenskan mat og útlenska peninga. Svo nú sitjum við á kvöldin, búnar að borga gas-og rafmagnsreikning og belgjum okkur út af lakkrís :)

Segi meira seinna, þarf að fara að elda íslenskan lambahrygg.... :)

10.10.08

Námsmaður erlendis

Ég hef hreinlega ekki haft geð í mér til að blogga neitt alla vikuna. Auðvitað höfum við mæðgur fylgst með fréttunum að heiman um öll ósköpin sem dynja yfir þjóðina í efnahagsmálunum en það er fyrst núna sem þetta bitnar beint á okkur.
Þannig er að ég sótti um reikning hjá Bank of Scotland í byrjun september en hef ekki getað byrjað að nota hann almennilega af því það gekk svo hægt að fá IBAN númerið sem ég þarf til þess að geta fært peninga á milli landa. Í gær fékk ég loksins þetta númer og ætlaði í morgun að millifæra af LÍN-reikningnum mínum sem er í Glitni (og er gjaldeyrisreikningur í pundum) yfir á Skoska reikninginn. En, nei nei, það er lokað fyrir allar millifærslur úr landi.....! Þannig að eins og er þá er ég í þeirri stöðu að geta ekki borgað leiguna, sem ég á að borga á morgun og ekki hita- og rafmagnsreiknnginn sem kom i gær og er á gjalddaga! Ég hef hingað til þurft að nota kreditkortið mitt til að taka út peninga en hver veit hvenær þeir loka líka á það????
Ég ætla að vera róleg fram yfir helgi og vona að þeir losi eitthvað um í næstu viku (taka smá Pollýönu á þetta) en ef ekkert skeður á næstu dögum þá held ég að ég leyfi mér að panika!

Þetta ástand hefur líka komið illa niður á Ólöfu og Rúti og þar er þetta farið að hafa keðjuverkandi áhrif sem sér ekki fyrir endann á.

Svo er ástandið hérna líka þannig að maður er ekkert endilega að segja frá því að maður sé frá Íslandi, hehehe... fólk grínast með það að það sé hálfgert bannorð þessa dagana ;)

3.10.08

Hogmanay um áramótin

Jæja, hverjir ætla að koma til mín um áramótin?
Miðasala á Edinburghs Hogmanay er hafin og ef maður kaupir strax þá getur maður fengið miðann á 5 pund í stað 10 punda.
Hogmanay er svona götu karnival með tónleikum og alls konar skemmtun. Sjá betri lýsingu hér!!!