29.2.08

Föstudagur - einu sinni enn!

Það er ótrúlegt hvað tíminn líður hratt ("á gervihnattaöölld..."). Vikurnar eru rétt byrjaðar þegar þær eru bara búnar.

Ég verð aðeins að hafa orð á því hérna hvað ég á ótrúlega sterkar ömmur, já og afa auðvitað líka þó það hafi ekki reynt eins mikið á þá blessaða undanfarið eins og ömmurnar.
Í síðustu viku veiktist Martha, föðuramma mín. Var í framhaldinu flutt hingað til Reykjavíkur þar sem hún fór í uppskurð. Þetta var töluvert alvarlegt en hún vaknaði eftir uppskurðinn ótrúlega hress og þegar ég sá hana tveimur dögum seinna leit hún ótrúlega vel út og var á hröðum batavegi. Þess má geta að hún er 91 árs gömul og ég held að það sé ekkert voðalega sjálfsagt mál að fólk á þeim aldri "skreppi" svona í stórar aðgerðir eins og ekkert sé!
En í fyrradag þá veiktist önnur amma mín hastarlega. Það var Alla móðuramma mín sem var flutt á sjúkrahús Selfoss á miðvikudagsmorguninn þaðan sem hún var send til Reykjavíkur. Þar komust læknar að því að það væri ekki um annað að ræða en akút uppskurð þá um kvöldið, hreinlega upp á líf og dauða. Amma er nefnilega búin að vera lungnasjúklingur í mörg ár og voru læknarnir ekki vissir um að lungun hennar mundu þola svæfingu og svoleiðis. Við biðum milli vonar og ótta yfir nóttina en sú gamla lét þetta ekkert á sig fá. Vaknaði bara eins og ekkert væri og spjallaði við hjúkrunarfólkið á gjörgæslunni! Þessi amma mín er 77 ára og er mamma hennar, sem er 99 ára enn lifandi og hress fyrir vestan.
Já ég segi ekki annað en að þegar þær voru búnar til þessar heiðurskonur þá voru hlutirnir gerðir með þeirri fyrirætlan að endast!!! Ég er svo stolt af því að vera komin af svona kjarnorkufólki :)

Svona í lokin þá bendi ég á nýjan link hérna til hliðar hjá mér, það er Dísa systir sem er tekin til við að blogga á fullu. Ég bendi sérstaklega á fullt af myndum af fallegu fjölskyldunni hennar :)

Góða helgi öll sömul...

p.s. Inda hlaupársbarn, innilega til hamingju með daginn:) Kem í kökuboð í kvöld...!

19.2.08

Þú ert það sem þú hugsar

Námskeiðið um síðustu helgi var alveg frábært! Það hófst á föstudagskvöldið og var frá 8- 10:30 og var svo bæði laugardag og sunnudag frá kl. 9-5. Mikill tími sem í þetta fór en alveg þess virði.
Það er nefnilega svo merkilegt að þó maður telji sig með slatta af heilbrigðri skynsemi þá þarf allaf að segja manni sömu hlutina aftur og aftur. Ég ætla ekki að fara nákvæmlega í innihald námskeiðsins núna, kannski nenni ég því seinna, en læt nægja að segja það að ég hafði heilmikið gagn af því og ætla að nota mér nokkur góð atriði úr því. Ég á örugglega eftir að koma með punkt og punkt hérna inn öðru hvoru.
Mér finnst hreinlega að allir ættu að fara á þetta námskeið, verst að Guðjón er að fara að flytja til útlanda tímabundið svo það fer hver að verða síðastur.

Hér kemur einn viskupunktur: Settu þér markmið og stefndu að þeim, þú þarft alltaf að vera að stoppa og endurskoða stefnuna en ímyndaðu þér skip sem sett er í gang og siglt af stað á neinnar stefnu eða ákveðins áfangastaðar, hvar endar það?

Af heimilinu mínu er það að frétta að ég tók trylling á það á föstudaginn áður en ég fór á námskeiðið. Kláraði kannski ekki alveg að þrífa allt en fann t.d. herbergið mitt og baðherbergið ásamt stofu og eldhúsi. Hjúkk maður, var farin að halda að einhver hefði stolið þessum herbergjum og sett inn einhverjar ruslakompur í staðinn!! En nei nei, þetta var allt þarna og því miður Dóra, þá verð ég að segja að í tiltektinni kom í ljós að það var bara ég sjálf og mín afkvæmi sem höfðum sturtað okkar drasli út um allt, get ekki kennt neinum öðrum um. Og mikið erum við sammála um tilgang tiltektar og þrifa Ásdís!!! Þetta comment þitt var eins og talað úr mínum munni :)

Hund vantar nýtt heimili!
Já ég er byrjuð að svipast um eftir nýju heimili fyrir hann Depill. Þar sem við stefnum að því að flytja til Edinborgar í ágúst þá þarf hann hvort eð er að fá nýjan samastað svo ég ákvað að byrja bara snemma að leita. Og það er nú einhvern vegin þannig að eftir að ákvörðunin var tekin þá vill ég helst fá heimili fyrir hann sem fyrst. Það er eitthvað svo erfitt að horfa á hann og vita að maður er að fara að láta hann frá sér.
Ég setti auglýsingu inn á hvuttar.net og þar er góð lýsing á honum (þótt ég segi sjálf frá). Endilega hjálpið mér að finna handa honum gott heimili, látið þetta berast eða hafið mig í huga ef þið þekkið einhvern í sveit sem gæti hugsað sér að taka að sér fjörugan vinnuþjark. Hann er nefnilega ekkert alveg ómögulegur þó ég ráði illa við hann, hann þarf bara eiganda sem er ákveðinn og staðfastur, ergo = ekki eins og ég!!

15.2.08

Allt í drasli... og rusli

Heimilið mitt er ekki þekkt fyrir einstaka snyrtimennsku eins og allir vita sem einhvern tíman hafa komið heim til mín. En við mæðgurnar þrífumst í sjálfu sér ágætlega í öllu draslinu. Samt kemur stundum að því að mér ofbýður gersamlega. Þá hef ég of lengi hummað fram af mér alls konar verk sem safnast svo saman í eina stóra ruslakompu sem telur alla íbúðina!!!
Núna er einmitt komið að þessum punkti þar sem minn eigin sóðaskapur (og kannski helst slóðaskapur) hefur farið út fyrir mín mörk. Lyktin í ísskápnum bendir til þess að eitthvað hafi skriðið þar inn og dáið, inni á pínu litla baðherberginu mínu eru tómir sjampóbrúsar og drasl sem gerir það að verkum að þessi eini fermeter af gólfplássi sem á að vera þarna hefur skroppið eitthvað saman, hundahárin á gólfinu eru farin að safnast saman út við veggina og eru líklega í þessum töluðu orðum að plotta upp einhverja hernaðaraðferð sem felur í sér valdatöku á heimilinu, dagblöð og ruslpóstur eru út um alla íbúð og gera sitt besta til að rata ekki í endurvinnslupokann sem þó stendur við hliðina á útihurðinni (þar sem þau koma öll inn sko..), sokkar og ýmislegt annað sem frelsað hefur verið úr kjaftinum á Depli er uppi á borðum og í hillum þar sem hann nær ekki til (voðalega smart hilluskraut), kattaspor eru út um allt eftir hlákuna undanfarið og svona mætti lengi telja! Að lokum þá mæli ég ekki með því að fólk stoppi of lengi í sömu sporum inni hjá mér því ég man ekki hvenær síðast var skúrað!!!

Já góðu vinir, þetta hljómar ekki vel. En líklega endar þetta eins og áður með því að ég tek til hendinni og læt moppu og tuskur þjóta, gaman - gaman!!

Annars verður helgin voða busy, mér var boðið á námskeið hjá Guðjóni Bergmann "þú ert það sem þú hugsar" held ég að það heiti. Hún Anna Margrét var svo yndisleg að bjóða mér með sér og ég hlakka bara voða mikið til. Ég er ekki í neinum vafa um að ég geti notað mér eitthvað af þessum fræðum :)

Jæja, ætla að vinna smá og fara svo heim með restina af vinnunni því ég er að afþýða frystiskápinn minn og langar ekkert til þess að koma að öllu á floti í geymslunni (sem er nota bene, case út af fyrir sig í draslumræðunni!).

Góða helgi öll sömul og hugsið til mín í leit minni að "decent" heimili :)

8.2.08

Uppfærsla

Ég er búin að laga aðeins í linkunum hérna til hliðar. Breytti Díönu þannig að nú er linkurinn á síðuna sem hún er að nota og bætti svo Dóru stóru, Jónu og Margréti P á listann :)

7.2.08

Hagaðu þér eftir aldri kona góð!!

Það er einmitt spurningin, er ásættanlegt fyrir konu sem nálgast óðfluga fertugt að skreppa norður í land að djamma og taka svo hressilega á því að hún kemst ekki aftur í vinnu fyrr en um miðjan dag á þriðjudegi??? Ja spyr sá sem ekki veit ;)

Eins og segir í síðustu færslu þá skrapp ég norður til Akureyrar um síðustu helgi og heimsótti Dísu og fjölskyldu ásamt því að fara á þorrablót Tíunnar á laugardagskvöldið. Blótið var skemmtilegt og fjörugt eins og við var að búast og eftir át og drykkju í Gamla Lundi var arkað í gegnum snjóinn á Vélsmiðjuna þar sem haldið var áfram fram eftir nóttu. Ég skreið svo upp í rúm í skúrnum hjá Dísu um kl. 4:30 (held ég alveg örugglega) um nóttina.
Það er skemmst frá því að segja að þegar ég vaknaði á sunnudaginn kom í ljós að ég hafði týnt heilsunni í einhverjum skaflinum og líklega fauk hún með snjónum á haf út því ekki lét hún sjá sig þann daginn! Eiríkur hafði samband við mig um tvöleitið og sagði að þeir væru að fara að leggja af stað suður en það var ekki möguleiki fyrir mig að ætla að sitja í bíl á hreyfingu í nokkra klukkutíma þegar áreynslan við að tala í símann varð mér næstum ofviða. Nú svo mátti ég líka ekki fara of langt frá klósettinu - !!!!
Það var því ekki um annað að ræða í stöðunni en að liggja í rúminu (á milli æluferða) fram að kvöldmat þegar ég skreiddist inn til Dísu og plantaði mér þar í sófann.

Mánudagurinn fór svo í það að reyna að redda mér fari suður og fékk ég loks far með flutningabíl. Hann komst ekki af stað fyrr en um kl. 20 um kvöldið og sökum veðurs og ófærðar var ég ekki komin heim til mín fyrr en um kl. 5 um morguninn á þriðjudaginn.

Já kæruleysið er engu líkt og ég get alveg sagt ykkur það að samviskubitið hefur verið hér á ferðinni vegna þessa. Núna er líka engar meiri háttar skemmtanir á dagskrá hjá mér. Það getur vel verið að ég kíki á aðalfund Sniglanna á laugardaginn og ef einhverjir ætla út þá um kvöldið verð ég sko pottþétt edrú og ekki úti fram undir morgun.

Helgin var samt skemmtileg fyrir norðan alveg þangað til ég vaknaði á sunnudaginn :) og takk takk kærlega fyrir mig stóra systir !!

1.2.08

Helgarfrí - taka tvö

Ég ætla að gera aðra tilraun til að fara norður til Akureyrar um helgina. Ætlaði að hafa saumahelgi hjá Dísu um síðustu helgi þar sem mamma og Björk Búbbadóttir ætluðu að hitta okkur Hildi en sökum ófærðar og veðurs þá komumst við mæðgur ekkert út úr borginni. Mamma og Björk fóru hins vegar norður og áttu þar góða og afkastamikla helgi við upphlutssaum með Dísu.
Við Dagrún vorum búnar að ákveða að fara saman norður (nauðaði í henni svo ég þyrfti ekki að keyra alla leiðina ein) og Bryndís Ploder ætlaði með. Þegar hætt var við á síðasta föstudag þá var stefnan strax sett á næstu helgi sem nú er komið að. Dagrún tók að vísu forskot á helgina því hún fór norður með flutningabíl á þriðjudaginn og svo flaug Bryndís í gær. Ég sá því fram á að keyra ein þrátt fyrir allt saman þangað til Dagrún hringdi í gær og sagðist vera búin að finna far handa mér og að ég þyrfti ekkert að keyra, bara vera farþegi til tilbreytingar :) Ohh ég var svo ánægð, ég fæ s.s. far með Eika Diesel og Frikka Gamla.
Ástæðan fyrir þessum fjölda Snigla á norðurleið er þorrablót Tíunnar, vélhjólafélags norðuramts. Það er s.s. búið að breyta Productive þjóðbúningasaumahelgi í unproductive djammhelgi með hjólafélögum!!! hehehe.....!

Aðeins að öðru, þar er loksins búið að búa til mastersnámið sem ég ætla að fara í og ég er farin að undirbúa umsögnina. Hér er linkur á lýsingu á náminu fyrir þá sem eru jafn miklir nördar og ég og verða voða spenntir að lesa svona "boring stuff" eins og dætur mínar kalla þetta :)

Heyrumst eftir helgi þegar ég verð búin að knúsa frændsystkini mín í klessu og djamma með norðansniglum :)