23.1.08

Hver vill kaupa hús handa mér?

Ég fann óvart akkurat rétta húsið fyrir mig á netinu. Núna vantar mig bara einhvern sem er til í að kaupa það fyrir mig!!! Ég fæ nefnilega út úr greiðslumati að ég geti ekki keypt neitt sem kostar meira en svona 7 millur eða með öðrum orðum þá hef ég engan vegin efni á því að borga þau 110 þús á mánuði í leigu eins og ég geri núna. Gat nú svosem alveg sagt mér það sjálf......

En arrrg... af hverju þurfti ég þá að rekast á fullkomið hús handa mér til sölu! :(

21.1.08

Vinnan göfgar og allt það...

Ég hef ekki verið í neinu stuði til að blogga mikið undanfarið og gerir það bara ekkert til. Ég hef örugglega sagt það áður hérna að ég nota þetta svæði til þess að skrifa um það sem mig langar til í það og það skiptið og ef það er ekkert í einhvern tíma þá er það bara svoleiðis.

Nýliðin helgi var róleg. Fór aðeins í vinnuna á laugardaginn og var svo heima allan sunnudaginn að þvo þvott og sauma. Var fyrst núna að koma mér aftur af stað í upphluts- saumaskapnum. Sneið skyrtuna á Hildi og saumaði hana saman svo nú er "bara" frágangurinn á henni eftir. Mér sýnist hún m.a.s. ætla að passa á stelpuna!! Verð alltaf jafn hissa þegar það gerist þegar ég þarf sjálf, ein og óstudd, að sníða eitthvað...!
Það er best að reyna að halda aðeins áfram í þessum saumaskap í vikunni því planið er að fara norður til Dísu um næstu helgi þar sem mamma ætlar að koma líka, til að halda saumahelgi. Mamma er nefnilega að gera upphlutinn á hana Björk bróðurdóttur mína sem á líka að fermast.

En aftur að vinnunni, hérna er útsýnið frá skrifstofunni minni og þar fyrir neðan er mynd frá litlu skrifstofukompunni minni sem ég er svo ánægð með :)



14.1.08

Hvalfjörður - Glymur

Við Hildur og Depill fórum í rosa góða gönguferð á laugardaginn. Fórum inn í Hvalfjörð og gengum upp að Glym. Við fórum að vísu einhverja skrítna leið, allt uppi í hlíðinni og þegar við vorum komnar töluvert hátt upp þá komumst við að því að líklega hefðum við þurft að vera hinum megin við gilið til þess að sjá fossinn! Við sáum þess vegna bara úðann frá honum í þetta sinn.

Útiveran var engu að síður alveg dásamleg og við komum þreyttar en endurnærðar á líkama og sál heim eftir þetta þriggja tíma labb :) Læt myndirnar tala sínu máli.





















8.1.08

Lífið og tilveran

Lífið er undarlegt svo ekki sé meira sagt.
Við förum öll í gegnum það á okkar hraða hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Börnin vaxa úr grasi áður en maður veit af og ég sem er ekki búin að átta mig á því að ég sé orðin fullorðin á allt í einu hálf-fullorðið barn. Hvernig getur þetta hafa liðið svona fljótt og það án þess að ég hafi tekið eftir því?
Ég held alltaf að ég breytist ekki neitt og þ.a.l. fullorðnist ekkert heldur. Svo er ég bara allt í einu komin í hlutverkið sem mér fannst vera mömmu minnar! Úff já, þið sem eruð með ungabörn ykkur finnst örugglega langt þangað til þau verða fullorðin og sjálfstæð en vitið þið, það er nefnilega ekki svo langt...!

En aðeins að öðru...

Samskipti manna á milli taka oft ekki endilega mið af aldri og þeim þroska sem gert er ráð fyrir að fylgi hækkandi aldri. Til dæmis virðast samskipti kynjanna stundum ekkert hafa breyst frá því við vorum 15 og fram yfir fertugsaldurinn. Kannski er þetta með aldur og þroska bara míta sem á sér litla stoð í raunveruleikanum. Ég get svosem verið sammála því að reynslan kennir manni sem betur fer ýmislegt í gegnum árin og flestir virðast læra eitthvað af henni. En samt virðist það vera þannig að margir láta hjá líðast að rýna inn í sjálfan sig til þess að reynslan nýtist til aukins þroska. Oft enda því grunn-samskipti manna á milli í sandkassanum þar sem einfaldleikinn ræður ríkjum.

Ég kann vel við að vera einhleyp vegna þess sjálfstæðis sem það veitir mér. En ég hef samt gaman af samskiptum við hitt kynið og ætla mér ekki að falla í þá gryfju aftur að loka á allt svoleiðis vegna eins skemmds eplis. Það koma alltaf til með að vera fleiri skemmd epli í körfunni og í litlum eplakörfum er líklegt að hitta á þau oftar en einu sinni. Sum eplin hafa líka verið lengi í körfunni og eru skemmd að einhverjum hluta en það má þá alltaf njóta þeirra hluta sem eru djúsí og safaríkir og skilja hitt eftir. Þetta eru forréttindi sem ég sem óbundin manneskja get leyft mér. En á móti fæ ég ekki heldur neinn sem samþykkir mína skemmdu hluta í bili. Það er allt í lagi eins og er en ég vona samt að ég eigi einhverntíman eftir að njóta þess að vera í góðu og heilbrigðu sambandi við mann sem þarf ekki bara hækju heldur getur líka verið ein slík.

2.1.08

Gleðilegt nýtt ár!

Ég er komin heim aftur eftir ferðalög hátíðanna og mikið er það nú gott. Því að þrátt fyrir að alltaf sé notalegt að heimsækja ættingja og vini og æðislegt að eiga með þeim góðar stundir þá er alltaf jafn gott að koma heim aftur.

Jólin á Ísafirði voru yndisleg og róleg. Ferðin vestur var hundleiðinleg, mikil hálka og tók endalaust langan tíma :( en stormurinn og snjókoman yfir jólin var dásamlegt því ekkert er eins notalegt eins og að sitja inni í gömlu timburhúsi, undir sæng með nóg að bíta og brenna og hlusta á vetrarveðrið úti :)

Ferðin suður var jafn leiðinleg og ferðin vestur, hálka og leiðindi.

Á milli hátíða gerðist ég sófakartafla í einn og hálfan sólarhring og fór svo til Dagrúnar í Þykkvabænum kvöldið fyrir gamlársdag. Hildur varð eftir hjá pabba sínum fyrir vestan og Ólöf, sem kom með mér suður, var með Rúti yfir áramótin.

Áramótin í Oddsparti voru bara hrein snilld! Fámennt en virkilega góðmennt :)
Gamlársdagur byrjaði með því að þeir sem mættir voru á svæðið drifu sig út að gera stóru kartöflugeymsluna klára fyrir veisluna. Það var skúrað og skrúbbað, bæði húsnæði og hjól, allt skreytt hátt og lágt, aftur bæði húsnæði og hjól og svo var tekið til við eldamennskuna.

Grillað hreindýr, meðlæti og alles mmmmm.... það verður ekki af henni Dagrúnu skafið að hún er meistarakokkur kellingin ;)

Áður en tekið var til við átið fórum við niður á sand þar sem reynt var að kveikja í brennu. Það tókst að hluta þrátt fyrir organdi rok og rigningu.

Það sem eftir var nætur var dansað, hlegið og drukkið og svo dansað og hlegið aðeins meira þangað til ég bara gat ekki meir!!! Þvílík gleði .....!
Ég ætla að skrifa smá annál um nýliðið ár og hugleiðingar um það næsta bráðum en þangað til þá þakka ég öllum fyrir árið 2007 og óska ykkur velfarnaðar á nýju ári !!
Að lokum þá langar mig að láta fylgja með smá visku gæludýranna sem ég stal af síðunni hennar Önnu Margrétar:
New Year Resolutions For Pets...
15.
I will not eat other animals' poop.
14. I will not lick my human's face after eating animal poop.
13. I do not need to suddenly stand straight up when I'm lying under the coffee table.
12. My head does not belong in the refrigerator.
11. I will no longer be beholden to the sound of the can opener.
10. Cats: Circulate a petition that sleeping become a juried competition in major animal shows.
9. Come to understand that cats are from Venus; dogs are from Mars.
8. Take time from busy schedule to stop and smell the behinds.
7. Hamster: Don't let them figure out I'm just a rat on steroids, or they'll flush me!
6. Get a bite in on that freak who gives me that shot every year.
5. Grow opposable thumb; break into pantry; decide for MYSELF how much food is *too* much.
4. Cats: Use new living room sofa as scratching post.
3. January 1st: Kill the sock! Must kill the sock!January 2nd - December 31: Re-live victory over the sock.
2. The garbage collector is NOT stealing our stuff.
1. I will NOT chase the stick until I see it LEAVE THE IDIOT'S HAND