Lífið og tilveran
Lífið er undarlegt svo ekki sé meira sagt.
Við förum öll í gegnum það á okkar hraða hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Börnin vaxa úr grasi áður en maður veit af og ég sem er ekki búin að átta mig á því að ég sé orðin fullorðin á allt í einu hálf-fullorðið barn. Hvernig getur þetta hafa liðið svona fljótt og það án þess að ég hafi tekið eftir því?
Ég held alltaf að ég breytist ekki neitt og þ.a.l. fullorðnist ekkert heldur. Svo er ég bara allt í einu komin í hlutverkið sem mér fannst vera mömmu minnar! Úff já, þið sem eruð með ungabörn ykkur finnst örugglega langt þangað til þau verða fullorðin og sjálfstæð en vitið þið, það er nefnilega ekki svo langt...!
En aðeins að öðru...
Samskipti manna á milli taka oft ekki endilega mið af aldri og þeim þroska sem gert er ráð fyrir að fylgi hækkandi aldri. Til dæmis virðast samskipti kynjanna stundum ekkert hafa breyst frá því við vorum 15 og fram yfir fertugsaldurinn. Kannski er þetta með aldur og þroska bara míta sem á sér litla stoð í raunveruleikanum. Ég get svosem verið sammála því að reynslan kennir manni sem betur fer ýmislegt í gegnum árin og flestir virðast læra eitthvað af henni. En samt virðist það vera þannig að margir láta hjá líðast að rýna inn í sjálfan sig til þess að reynslan nýtist til aukins þroska. Oft enda því grunn-samskipti manna á milli í sandkassanum þar sem einfaldleikinn ræður ríkjum.
Ég kann vel við að vera einhleyp vegna þess sjálfstæðis sem það veitir mér. En ég hef samt gaman af samskiptum við hitt kynið og ætla mér ekki að falla í þá gryfju aftur að loka á allt svoleiðis vegna eins skemmds eplis. Það koma alltaf til með að vera fleiri skemmd epli í körfunni og í litlum eplakörfum er líklegt að hitta á þau oftar en einu sinni. Sum eplin hafa líka verið lengi í körfunni og eru skemmd að einhverjum hluta en það má þá alltaf njóta þeirra hluta sem eru djúsí og safaríkir og skilja hitt eftir. Þetta eru forréttindi sem ég sem óbundin manneskja get leyft mér. En á móti fæ ég ekki heldur neinn sem samþykkir mína skemmdu hluta í bili. Það er allt í lagi eins og er en ég vona samt að ég eigi einhverntíman eftir að njóta þess að vera í góðu og heilbrigðu sambandi við mann sem þarf ekki bara hækju heldur getur líka verið ein slík.
2 Comments:
Voðalega ertu djúp í dag Anna mín:)
En góð pæling engu að síður ...
Kveðja Inda
Það er sko rétt að samskiptahæfileikar og þroski haldast ekki í hendur .....
Besti tíminn er þegar maður er sáttur við sjálfan sig og nýtur lífsins. Ég er nokkuð viss um að þú kannt það vel ;o)
Skrifa ummæli
<< Home