Ég er búin að vera að garfa í tryggingunum mínum í rúma viku núna. Niðurstaðan eftir að hafa fengið tilboð frá öllum félögunum er sú að ég verð áfram hjá Sjóvá en þeir ruku til og lækkuðu dæmið um helling eftir að ég sendi þeim uppsögn á öllu draslinu af því ég væri að fara yfir til VÍS :) hehehehe..... ég varð voðalega vinsæl allt í einu í einn eða tvo daga, voða góð tilfinning ;)
Að allt öðru. Eins og þeir vita sem þekkja mig þá er ég forfallinn prjónafíkill. Get t.d. ekki horft á sjónvarpið án þess að vera með eitthvað í höndunum. Ég er að spá í að setja hérna inn eitthvað sem mér finnst spennandi um þetta áhugamál mitt, t.d. les ég stundum blogg sem ég rakst á fyrir tilviljun um prjónaskap:
http://www.samuraiknitter.blogspot.com/ og svo koma kannski fleiri linkar seinna.
En ég er þannig gerð að ég á voðalega erfitt með að fylgja uppskriftum algerlega. Líklega kemur það af reynslunni, maður veit stundum betur en uppskriftin segir. Í gegnum tíðina hef ég prjónað heil ósköp, sumt bara venjulegt og annað aðeins frumlegra, eins og gengur og gerist. En um daginn þá gerði ég teppi fyrir Ebbu litlu. Ég hef verið að skrifa uppskriftina upp en það er í fyrsta sinn sem ég reyni að skrifa uppskrift af því sem ég bý til frá grunni. Fyrst náði ég mér í hugmynd af munstri í bókinni "Rósaleppaprjón í nýju ljósi" efir Hélene Magnusson og þróaði svo teppið út frá því. Notaði einmitt tækifærið og lærði að prjóna rósaleppaprjón eða myndprjón, sem ég hef alltaf ætlað mér að gera. Litirnir réðust aðallega af því að garnið, Mor Aase, var á tilboði í Hagkaupum í örfáum litum . Þetta er norskt ullargarn sem má þvo í þvottavél.
Ég man ekki nákvæmlega hvað teppið er stórt en það passar rúmlega á barnavagn en ekki alveg nógu langt á rimlarúm. Það er prjónað með garðaprjóni og ferningarnir eru heklaðir saman og það skemmtilega við þetta er að maður getur leikið sér með samsetningarnar á litunum og munstrinu eins og maður vill. Haft fleiri liti eða færri og eins margar rósir og manni sýnist.
Hérna er mynd af teppinu og ef einhver vill fá uppskriftina þá er bara að hafa samband:
Núna er ég með mjög áhugavert "project" í gangi. Ég fann síðu á netinu sem heitir "Medival Muslim Knitting" en hún liggur niðri núna svo ég gat ekki sett linkinn inn á hana. Þar er stelpa sem er byrjandi í prjónaskap en hafði fundið sokka frá miðöldum á safni og prófað að prjóna þá upp. Hún gerði uppskrftir af þeim sem eru ágætar þó maður geti líka þróað þær aðeins eftir eigin höfði. Ég er s.s. að prjóna hnéháa munstraða sokka eftir þessari uppskrift og þeir eru geggjaðir. Ég ákvað að hafa þá í tveimur gráum litum og það merkilegasta við þessa sokka er það að það er byrjað að prjóna frá tánni! Ég er búin með annan sokkinn, þurfti að giska svolítið á hvernig hún gerir hælinn en það kom ágætlega út. Set inn mynd af þessu hérna þegar það verður tilbúið.
Ég er að hugsa um að halda áfram, þegar tími gefst til, að skoða mig um á prjónasíðum á netinu og eins að kíkja á gömul munstur í bókum til þess að fara eftir. Ég er t.d. með tvær æðislegar prjónabækur heima sem ég fékk frá ömmu þar sem eru t.d. uppskriftir af þessum líka fínu baðfötum fyrir bæði kynin (ath.-prjónuðum baðfötum!).
Fyrir þá sem ekki hafa áhuga á prjónaskap segi ég bara: Sorrý en það verða ekkert allar færslurnar um þetta :)