30.5.07

Baktus er týndur :(

Aumingja litli kisinn okkar hann Baktus fór út heima á síðasta föstudag og hefur ekki sést síðan! Það er mikil sorg heima og Karíus bróðir hans er hálf aumur og einkatta. Hann er ekki vanur að vera svona einn og það er greinilegt að allt er hey í harðindum því hann er næstum því farinn að vingast við Depil til þess að hafa einhvern - og þá er nú mikið sagt!
Við mæðgur og Rútur erum búin að labba um allt hérna í Hlíðunum og kalla á hann (fólk lítur nú við þegar bvið löbbum um og köllum -Baktus-Baktus!!!) en ekkert bólar á honum. Það versta er að hann týndi ólinni sinni daginn áður og slapp út áður en við vorum búnar að setja á hann nýja. Svo að það er einn lítill 5 mánaða svartur ómerktur kisi týndur. Hann er voðalega gæfur og mannelskur svo mér þykir alveg líklegt að hann hafi leitað á náðir einhverra sem hafi hleypt honum inn til sín, ég vona það allavega :(

25.5.07

Medieval Muslim Knitting



Þá eru sokkarnir fínu tilbúnir og ég er bara ánægð með þá. Ég þurfti að giska á hvernig hællinn var gerður en held að hann sé svipaður og er á fyrirmyndinni. Einnig var ekkert sérstaklega tekið fram hvernig ætti að ganga frá efst á leggnum svo ég ákvað það bara sjálf. En þessir sokkar eru að mestu sérstakir fyrir það að það er byrjað á þeim á tánni.


Ef einhver vill fá uppskriftina þá endilega hafið samband en ég á eftir að íslenska hana og staðfæra.




Hér sjáið þið árangurinn:




24.5.07

No no það er bara ýtt á eftir manni!!

Hana hana Anna Margrét, auðvitað skeður hellingur á svona fjölbreyttu heimili. Og jú jú, hér búa líka tveir naggrísir :)

Ég er búin með flottu sokkana á bara eftir að kaupa rafhlöður í myndavélina til þess að geta sýnt ykkur þá. Þetta verkefni var svo skemmtilegt að ég er ætla að reyna að finna mér tíma til þess að leggjast í lestur sögubóka/fræðibóka á bókasafni bráðlega og reyna að finna eitthvað ævafornt sem ég get breytt í munstur eða flík. Nú fór hönnuðirinn í mér alveg á flug :)

Annars fór síðasta helgi í vinnu í Þykkvabænum, frábært að taka til hendinni utandyra og bera járn og spýtur og negla. Ég er að vísu orðin svo mikið möppudýr að það er ekki orðin eftir arða af siggi á höndunum og svo var ég með strengi í öllum kroppnum á mánudaginn. Góðir strengir samt og það náðist að gera helling.

Ég hef lítið getað hjólað. Það er eitthvað skrítinn gangurinn í hjólinu og ég held að það sé betra að láta laga það svo ég misbjóði mótornum ekki og skemmi (been there-done that).

Svo hefur það líka skeð síðan ég bloggaði síðast að litla barnið mitt er formlega orðið táningur. Hildur varð s.s. 13 ára síðasta föstudag, þann 18. maí. Núna eru því engin börn lengur á heimilinu aðeins unglingar! - mig langar helst til að gráta núna :( Mér var bent á að ég væri ennþá í barneign og jú jú, ég er alveg til í að eiga fleiri börn- helst tvö í viðbót en ég nenni ekki að gera það ein! Þ.e. ég er ekki að fara út á örkina til að leita að sæðisgjafa bara til þess að búa til barn hehehe...! Nei ég er svo ánægð með þær dúllur sem ég á og svo safna ég líka bara dýrum til að bæta upp móðurþörfina ;)

Svo í lokin, þá er ég komin með nýja skrifstofu. Var áður með öðrum í skrifstofu en er komin með mína eigin núna - sko hún er að vísu pínulítil en engu að síður "einkaskrifstofa" híhíhí... og með þvílíka útsýninu. Ég sé yfir Fossvoginn og að Perlunni og í góðu veðri sé ég glitta í Snæfellsnesið :)
Að öðru vinnutengdu, þá er ég að fara á tónleikana með Deep Purple og Uriah Heep á sunnudaginn í tengslum við vinnuna. Ætla að fara gera smá rannsókn í sambandi við rýmingu úr salnum fullum af fólki. Er að vinna í því að fá security passa svo ég komist óáreitt um allt- alltaf gaman í vinnunni sko...!

17.5.07

Ég er að pipra...

... og það hratt! Þetta hvarflaði all illilega að mér í gærkvöldi þegar ég var komin upp í rúm með hundinn sofandi á gólfinu við rúmið og kettlingana báða kúrandi undir sænginni hjá mér. Ég hafði nefnilega farið út á láta Depil pissa fyrir háttinn og hann heilsaði upp á ungt fólk sem var í partýi hjá ungum nágranna mínum (háskólaaldurinn held ég). Svo stakk ég hundinum inn og fór fyrir hornið á húsinu og kallaði á Karíus og Baktus því að þeir eru enn of litlir til að mega vera úti á nóttunni. Þegar ég kom til baka með þá báða í fanginu þá heyri ég út um gluggann á partýinu: "og þarna kemur hún með tvo ketti líka!!!" Vitið þið, mér leið skyndilega eins og þau sáu mig; gömul, illa til höfð, feit kerling sem lifir fyrir dýrin sín! Ó mæ god.....! Fór inn að hátta og lá í sjokki í miðjum dýragarðinum þar sem þeir allir þrír kepptust við að láta mig vita hvað þeir ættu mikið tilkall til blíðuhóta minna og ylsins frá líkama mínum. - Held að það sé kominn tími til að gera eitthvað í málunum svo að það verði frekar mannvera sem fær að njóta bólsins með mér :)

14.5.07

Tryggingar og prjónaskapur

Ég er búin að vera að garfa í tryggingunum mínum í rúma viku núna. Niðurstaðan eftir að hafa fengið tilboð frá öllum félögunum er sú að ég verð áfram hjá Sjóvá en þeir ruku til og lækkuðu dæmið um helling eftir að ég sendi þeim uppsögn á öllu draslinu af því ég væri að fara yfir til VÍS :) hehehehe..... ég varð voðalega vinsæl allt í einu í einn eða tvo daga, voða góð tilfinning ;)



Að allt öðru. Eins og þeir vita sem þekkja mig þá er ég forfallinn prjónafíkill. Get t.d. ekki horft á sjónvarpið án þess að vera með eitthvað í höndunum. Ég er að spá í að setja hérna inn eitthvað sem mér finnst spennandi um þetta áhugamál mitt, t.d. les ég stundum blogg sem ég rakst á fyrir tilviljun um prjónaskap: http://www.samuraiknitter.blogspot.com/ og svo koma kannski fleiri linkar seinna.

En ég er þannig gerð að ég á voðalega erfitt með að fylgja uppskriftum algerlega. Líklega kemur það af reynslunni, maður veit stundum betur en uppskriftin segir. Í gegnum tíðina hef ég prjónað heil ósköp, sumt bara venjulegt og annað aðeins frumlegra, eins og gengur og gerist. En um daginn þá gerði ég teppi fyrir Ebbu litlu. Ég hef verið að skrifa uppskriftina upp en það er í fyrsta sinn sem ég reyni að skrifa uppskrift af því sem ég bý til frá grunni. Fyrst náði ég mér í hugmynd af munstri í bókinni "Rósaleppaprjón í nýju ljósi" efir Hélene Magnusson og þróaði svo teppið út frá því. Notaði einmitt tækifærið og lærði að prjóna rósaleppaprjón eða myndprjón, sem ég hef alltaf ætlað mér að gera. Litirnir réðust aðallega af því að garnið, Mor Aase, var á tilboði í Hagkaupum í örfáum litum . Þetta er norskt ullargarn sem má þvo í þvottavél.
Ég man ekki nákvæmlega hvað teppið er stórt en það passar rúmlega á barnavagn en ekki alveg nógu langt á rimlarúm. Það er prjónað með garðaprjóni og ferningarnir eru heklaðir saman og það skemmtilega við þetta er að maður getur leikið sér með samsetningarnar á litunum og munstrinu eins og maður vill. Haft fleiri liti eða færri og eins margar rósir og manni sýnist.

Hérna er mynd af teppinu og ef einhver vill fá uppskriftina þá er bara að hafa samband:




Núna er ég með mjög áhugavert "project" í gangi. Ég fann síðu á netinu sem heitir "Medival Muslim Knitting" en hún liggur niðri núna svo ég gat ekki sett linkinn inn á hana. Þar er stelpa sem er byrjandi í prjónaskap en hafði fundið sokka frá miðöldum á safni og prófað að prjóna þá upp. Hún gerði uppskrftir af þeim sem eru ágætar þó maður geti líka þróað þær aðeins eftir eigin höfði. Ég er s.s. að prjóna hnéháa munstraða sokka eftir þessari uppskrift og þeir eru geggjaðir. Ég ákvað að hafa þá í tveimur gráum litum og það merkilegasta við þessa sokka er það að það er byrjað að prjóna frá tánni! Ég er búin með annan sokkinn, þurfti að giska svolítið á hvernig hún gerir hælinn en það kom ágætlega út. Set inn mynd af þessu hérna þegar það verður tilbúið.

Ég er að hugsa um að halda áfram, þegar tími gefst til, að skoða mig um á prjónasíðum á netinu og eins að kíkja á gömul munstur í bókum til þess að fara eftir. Ég er t.d. með tvær æðislegar prjónabækur heima sem ég fékk frá ömmu þar sem eru t.d. uppskriftir af þessum líka fínu baðfötum fyrir bæði kynin (ath.-prjónuðum baðfötum!).

Fyrir þá sem ekki hafa áhuga á prjónaskap segi ég bara: Sorrý en það verða ekkert allar færslurnar um þetta :)

9.5.07

Agalega frustrerandi...

...þegar rafhlaðan tæmist á örlagastundu! :(

1.5.07

Vonda skapið

Ég fer ekki oft í vont skap, allavega ekki svona sem endist í einhvern tíma. En í gær fór ég í vont skap og það eymir eftir af því ennþá .
Hvað haldið þið að hafi komið svona illa við mig? Jú ég var að skoða tryggingarnar mínar og hvað ég þarf að borga þar. URRRR og HVÆS!!! Þetta helv.... hefur hækkað alveg helling síðan í fyrra! Ég hringdi í þá og spurði hvernig gæti staðið á þessari tölu sem ég væri að borga fyrir að tryggja bílinn og hjólið og strákurinn sem varð fyrir svörum pikkaði eitthvað á tölvuna og sagði svo að hann væri búinn að lækka bílatrygginguna. Jahá, það var hægt að lækka hana um nokkra þúsundkalla bara af því ég hringdi en hjólið, nei nei þetta er bara svona...! Manni er hreinlega réttur puttinn beint í feisið hjá þessum glæpafélögum sem kalla sig tryggingafélög.
Það kostaði mig 76 þúsund í fyrra að tryggja hjólið og það er komið upp í 97 þúsund núna. Samkvæmt mínum útreikningum gefur það 27,6% hækkun á einu ári!!!! Á tveimur árum er ég búin að borga hér um bil andvirði hjólsins í tryggingar af því! Er ekki allt í lagi á þessu landi eða hvað? Urr urrr urrrr......!

Ég er eitthvað svo hundleið á því að vera alltaf að basla í gegnum allt. Ég veit alveg að ég er búin að vinna marga sigra á undanförnum árum og hef komst í gegnum marga múra (Dísa systir var að reyna að sefa geðvonskuna í mér áðan) en eins og er þá sé ég ekki tilganginn í þessu öllu saman :(

Ég get ekki hugsað mér að selja hjólið. Það er það eina sem ég leyfi mér og ég bara koðna niður í kör ef ég þarf að selja það og hætta að hjóla í bili :( Ég biði alla vega ekki í skapið á mér þá!

Held ég fari bara undir sæng með súkkulaði og illa skrifaðar bókmenntir, það hæfir moodinu!

Kveðja frá Önnu í vondu skapi