30.9.05

Enn og aftur klukkuð (eða klikkuð???)

1. Hvað er klukkan? 09:05

2. Hvaða nafn er á fæðingarvottorðinu þínu ? Örugglega nafnið á mömmu: Kristjana Sigurðardóttir, þar sem ég hét ekki neitt þegar ég fæddist!

3. Hvað ertu kölluð/kallaður? Anna Málfríður

4. Hvað voru mörg kerti á síðustu afmæliskökunni þinni? Eitt

5. Gæludýr? Hildur á Nancy naggrís og Ólöf á köttinn Sir William

6. Hár? Dökk brúnt

7. Göt? já í eyrum

8. Fæðingarstaður? Ísafjörður

9. Hvar býrðu? í námsmannaíbúð í Bólstaðarhlíð

10. Uppáhaldsmatur? Úff, það er svo margt, en ég er alger fíkill í deserta

11. Einhvern tíma elskað einhvern svo mikið að það fékk þig til að gráta? Já

12. Gulrót eða beikonbitar? æi, hvorugt

13. Uppáhalds vikudagur? Sunnudagur

14. Uppáhalds veitingastaður? Hornið og Ítalía

15. Uppáhalds blóm? öll litrík og með góðri lykt

16. Hvaða íþrótt finnst þér skemmtilegast að horfa á? Skautadans

17. Uppáhalds drykkur? Vatn

18. Disney eða Warner brothers? Disney

19. Ford eða Chevy? Hef ekki hugmynd

20. Uppáhalds skyndibitastaðurinn? Cerranu

21. Hvernig er teppið í svefnherberginu á litinn? það er dúkur á því

22. Hver var síðastur til að senda þér tölvupóst? Inda

23. Í hvaða búð mundir þú vilja botna heimildina á kreditkortinu? Bókabúð, handavinnubúð og Harley búð.

24. Hvað gerir þú oftast þegar þér leiðist? Horfi á sjónvarpið og prjóna

25. Hvaða spurning sem þú færð fer mest í taugarnar á þér? Ertu ekki komin með kærasta?

26. Hvenær ferðu að sofa? um kl. 23:00

27. Hver verður fyrstur til að svara þér þessu? hef ekki hugmynd

28. Hver af þeim sem þú biður um að svara þessu er líklegastur til að svara ekki? ætla ekki að senda þetta áfram

29. Uppáhalds sjónvarpsþáttur? Hálandahöfðinginn og Bráðavaktin

30. Með hverjum fórstu síðast út að borða? sjálfri mér


Jæja þetta eru nægar upplýsingar um mig!

see you later.....

29.9.05

Lífið er hverfult

Eins og þeir vita sem fylgjast með fréttum daglega, þá fórst skúta hérna á milli Grænlands og Íslands núna í vikunni. Á henni voru tveir menn og annar þeirra fórst en Landhelgisgæslan bjargaði hinum. Þar sem systir mín og hennar maður þekktu þessa menn þá flæktist ég inn í að hjálpa honum Adam, þeim sem komst af.
Mikið mátti aumingja maðurinn þola. Hann bjó í þessari skútu svo að hann missti ekki bara félaga sinn heldur einnig heimili sitt og allt sem hann átti nema fötin sem hann stóð í. Að vonum var hann mjög sleginn því eins og hann sagði þá eru þessu náttúruöfl svo ofboðsleg að hann gat ekkert gert þegar félagi hans fór í sjóinn, nema að horfa á eftir honum út í sortann, heyrandi hann kalla á sig. Veðrið var svo klikkað og öldurnar frá 8 -12 metra háar og sjórinn aðeins um 0-1° C heitur (brr.. kaldur).
Það sem beið hans svo núna var að fara til Skotlands og hitta fjölskyldu félagans og svo vissi hann ekkert um framhaldið hjá sér.

Ég ætla bara að koma því áfram til ykkar sem við Adam vorum að tala um á þriðjudagskvöldið:

Lifum hvern dag eins og það komi enginn dagur á morgun, því við vitum aldrei hvenær okkar síðast dagur er!!!

26.9.05

Burðarþol fíli-bomm-bomm-bomm

Ég ligg á kafi í útreikningum og kemst ekkert áfram. Það er eins og ég sé alveg föst í burðarþolsútreikningum og kemst ekki áfram til þess að gera það sem verkefnið á í raun og veru að fjalla um, þ.e. brunahönnun. Það endar líklega með því að ég verð búin að eyða mestum tímanum í það sem á að skipta minnstu máli, arrrg!!!
Enda dreymir mig bara alls konar rugl og vitleysu á nóttunni eða þá að ég ligg andvaka og held að ég sé alveg að leysa flækjuna. Svo þegar ég er vöknuð og komin við tölvuna þá var flækjan ekkert leyst!:(

Ég verð að vera voðalega dugleg við lærdóminn í þessari viku því að mamma og Dísa koma til mín á föstudaginn og verða yfir helgina. Mamma ætlar að bjóða okkur á tónleika með Sissel Kirkebo. Við erum nefnilega aldar upp við mikið af norrænni tónlist þar sem mamma var alltaf í alls konar norrænu samstarfi, svo að þetta verður örugglega yndislegt kvöld hjá okkur.
Á laugardaginn er ég svo búin að bjóða systir minni með í Sniglapartý(!) svo að ég hugsa að ég læri ekki mikið þá helgina.


Annars verð ég að segja ykkur það, sem smá viðbót við síðasta blogg, að ef ég ætla að láta stelpurnar mínar hjálpa mér við tiltekt eða þrif þá þýðir ekkert fyrir mig að láta Kim Larssen á fóninn!!! Þá flýja þær út úr húsi. Ég verð þess vegna að koma með málamiðlun og við hlustum þá oftast á Queen. Það er ágætt að þrífa við þá líka ;)

23.9.05

Klukkuð!!

Hmm, já Magga var að klukka mig sem þýðir víst að ég á að skrifa 5 "useless" staðreyndir um sjálfa mig á blogginu mínu. Hefjum nú lesturinn:

1. Ég er afskaplega löt og elska sængina mína.
2. Ég held að ég þurfi að geta allt sjálf en finnst alveg sjálfsagt að aðrir leiti aðstoðar.
3. Mér finnst best að þrífa með Kim Larsen á fullu.
4. Ég elska fjallgöngur en er bara allt of löt til að láta verða af þeim!!
5. Ég er handavinnufíkill! (er til meðferðarúrræði við því???)


Því miður þá fáið þið ekki meira blogg í dag, þó hún systir mín sé að kvarta. Það er bara allt of mikið að gera hjá mér núna!

Bless till later...

14.9.05

Karlmenn (og konur)

Þegar maður hittir karlmann sem kemur fram við mann af virðingu og sýnir manni meiri kurteisi en maður er vanur, þá er vert að minnast á það!
Ekki það að ég þekki eintóma dóna og rudda, nei nei ég á marga góða karlkyns vini sem eru hvers manns hugljúfi. Ég er að tala um ákveðna framkomu sem finnst yfirleitt ekki í fari íslenskra karlmanna.

Suma hluti fer maður á mis við af því maður veit ekki að þeir eru til. Eins og að fá að finna hvað það getur verið gaman að vera kona:) Að fá gamaldags "höflighed" (kann ekki íslenskt orð yfir það) það er sko gaman og óvænt.
Það eru alls konar lítil atriði sem erfitt er að koma í orð, sem láta mann líða eins og maður sé áhugaverð og gullfalleg manneskja. Auðvitað er ég það sko!!! en stundum gleymi ég því og þá er ennþá meira gaman að fá að finna það.

Það var ekki einu sinni um að ræða að það væri verið að reyna að heilla mig upp úr skónum, vá hvernig væri það ef viðkomandi hefði virkilega verið að því?!?! Nei, þessi framkoma er honum eðlislæg, kannski lærð í upphafi en algerlega áreynslulaus.

Líklega erum við nútíma íslenskar konur orðnar svo fastar í því að vera sjálfstæðar, sterkar og að þurfa ekkert á karlmönnum að halda, að við vitum ekki að við söknum þess pínulítið að láta koma fram við okkur sem konur. Kannski er ástæðan líka sú að nútíma íslenski karlmaðurinn er svo veiklundaður og óöruggur með sig að við getum ekki fengið svoleiðis framkomu frá honum. Fyrir utan það að þeir kunna hana yfirleitt ekki.

Það er erfitt að samræma hluti þegar jafnréttisbarátta er annars vegar. En á meðan við erum að berjast fyrir því að ekki sé gerður munur á kynjunum varðandi réttindi á vinnumarkaði og innan heimilisins þá væri samt allt í lagi að staldra aðeins við og gera sér grein fyrir því að það er munur á kynjunum sem allt í lagi er að hlúa að.
Stelpur!!! Leifum okkur að vera konur einstaka sinnum og láta koma fram við okkur sem slíkar. Ekki gleyma okkur í grybbuskapnum!
Strákar!!! Dustið rykið af mannasiðum og kurteisi, hver veit nema að þig fáið það marfallt til baka frá okkur:)

9.9.05

Helgin framundan

Helgin er framundan og ég sé fram á að hafa nóg að gera.
Í dag fer ég fyrst á fund með verkfræðingi sem ætlar að hjálpa mér aðeins af stað með burðarþolið í verkefninu mínu og svo upp í skóla að ná mér í fleiri gögn til að lesa yfir um helgina.
Mamma og pabbi eru bæði í bænum núna yfir helgina en ég veit ekki hversu mikið ég næ að hitta þau. Hitti pabba aðeins í flugumynd í gær en hann er hérna á sjávarútvegssýningunni. Hildur fór með Jóhönnu og Albert í húsdýragarðinn og ég náði aðeins að kasta á þau kveðju þegar ég endurheimti hana. Við mamma ætlum svo að hittast þegar ég er búin að vesenast uppi í skóla eftir hádegi og svo gistir hún kanski hjá mér annað kvöld.
Ég fór í gærkvöldi og pakkaði í nokkra kassa hjá Önnu "frænku" og ætla að hjálpa henni aftur í kvöld. Ætla líka að reyna að komast til hennar þegar hún flytur á morgun en ég veit ekki alveg hvort ég hef tíma til þess. Verð eiginlega að vinna svolítið í verkefninu :-/
Ef ég verð dugleg að læra eftir hádegið á morgun þá ætla ég að vita hvort Dagrún nennir ekki að gera eitthvað annað kvöld. Mig vantar aðeins að komast út þegar vikan er svona ofboðslega busy!

Sem sagt, hver mínúta plönuð.

Að auki þá gargar á mig óhreini þvotturinn heima hjá mér og hótar að yfirtaka íbúðina ef ég fari ekki að gera eitthvað í málunum og skrítna lykt leggur út úr ísskápnum sem gefur til kynna að þar sé einhver pencillínframleiðsla í gangi!!!!

8.9.05

Busy-busy-busy

Jamm ég er frekar upptekin þessa dagana og sé fram á að svo verði fram að jólum. Enginn tími til þess að blogga neinar hávísindalegar spekúleringar. En svona til þess að breyta aðeins öðru hvoru hérna á síðunni þá ætla ég að setja inn einhverjar myndir sem ég finn og líst vel á.

Það er við hæfi að byrja á vini mínum honum Woodstock! Hann er, (eins og fólk veit auðvitað!!) úr Smáfólkinu og þeir sem muna eftir því hvernig síðan mín leit út í upphafi muna vel eftir honum.
Enginn veit með vissu hvaða fuglategund hann er og er eitt af sérkennum hans að hann flýgur alltaf á hvolfi(!) Sjáið þið bara hvað hann er sætur :)

2.9.05

Heilræði dagsins

Eins og talað úr mínum munni:

Hann klikkar ekki þessi elska :)

1.9.05

Að byrja daginn með stæl...!

Herre gud!!! Verð að deila með ykkur atviki sem varð á leiðinni í vinnuna í morgun.
Ég var á leiðinni á Vespunni minni suður í Hafnarfjörð og var að koma niður af brúnni Yfir Bústaðarvegin Þegar sú rauða drap á sér og neitaði að fara lengra. Nú nú, ég lét mig renna áfram niður brekkuna og teymdi hana svo inn á afleggjarann inn á Suðurhlíð til þess að finna hentugann stað til þess að leggja henni þar til ég mundi fá einhvern til þess að hjálpa mér að sækja hana seinna í dag.
Þar sem ég er að teyma hjólið inn beygjuna kemur upp að mér sjúkrabíll með blikkandi ljósum, stoppar og maður skrúfar niður rúðuna og spyr mig hvort ég hafi dottið. Nei nei ég datt ekki og fullvissa þá um að í lagi sé með mig. Þakka svo fyrir hugulsemina og þeir halda áfram. Annar sjúkrabíll með fullum ljósum og sírenu kemur strax á eftir þessum og stoppa þeir við göngustíginn sem liggur að Nauthólsvíkinni.
Ég held bara áfram minni göngu með Vespugreyið og þarna drífur að lögreglubíl með allt á fullu. Ææ hugsa ég, einhver hefur dottið í morgunskokkinu sínu!!
Ég ákveð svo að leggja hjólinu upp við húsið þarna neðst í Suðurhlíðinni og er að ganga frá því og setja hjálminn í hólfið þegar lögreglubíllinn kemur og leggur fyrir framan mig. Út stíga maður og kona og maðurinn byrjar að setja á sig svona einnota gúmmíhanska. Þau spyrja mig hvort ég hafi dottið á hjólinu? Nei ég datt ekki, hjólið bara bilaði, segi ég. Meiddirðu þig ekkert? spurja þau. Nei, það er allt í lagi hjá mér!
Þá segja þau mér það að einhver hafði hringt í 112 og tilkynnt að ég hefði dottið á hjólinu og allir þessir bílar voru í forgangsútkalli vegna mín!!!!!!

Ég get sagt ykkur það að það datt af mér andlitið, ég roðnaði og ætlaði ekki að trúa þessu. En allir voru bara ánægðir með að það væri í lagi með mig (ja, þau halda það :-/ hehehe) og þau óku á brott. Ég stóð þarna eins og asni og hélt áfram að fara hjá mér! Það má samt hrósa þeim fyrir viðbragðstímann því það hefur varla liðið meira en mínúta frá því að hjólið stoppaði þangað til sjúkrabíll var kominn á staðinn.

Talandi um að byrja daginn með stæl!!!!