27.5.05

Skóflustunga

Það var verið að taka fyrstu skóflustunguna af fyrsta húsinu sem ég hef umsjón yfir að byggja! Mér líður svei mér þá eins og námið sé að byrja að skila sér ;) Nú á ég bara eftir að fá hvíta hjálminn og þá er þetta allt orðið í alvöru. Næ mér í svoleiðis græju eftir helgina því maður verður jú að sýna gott fordæmi þegar maður er orðinn svona yfirmaður, he he he!!!

Núna er það sko bara pizza og leti í kvöld, bless þar til næst....:)

24.5.05

Júróvisíon

Já ég horfði á Eurovision eins og ég reyni að gera alltaf. Mér er alveg sama hvað hver segir um að þetta sé úrelt og hallærislegt, þetta er samt alveg nauðsynlegt. Ég fíla ekkert endilega lögin sem eru þarna en held samt fast í að vera aðdáandi keppninnar!!!

Tíminn líður og líður og vikurnar þjóta framhjá á ógharhraða. Vonandi fattar sumarveðrið samt að kíkja við áður en haustið bankar uppá. Þvílíkur helv.. kuldi sem hefur verið undanfarið á meðan veðrið hefur samt verið svo fallegt.
Á föstudaginn sannaðist það enn einu sinni að ég er mjög nýtin manneskja (!), já eða bara búin að vera blönk frekar lengi. Það hlýtur allavega að segja eitthvað þegar tvennar buxur detta í sundur sama daginn og það ekki á saumunum (s.s. ekki vegna þrengsla!!) heldur fór efnið bara í sundur vegna slits. Líklega verð ég að kaupa mér einhver föt þegar ég fæ útborgað!

Jæja best að gera eitthvað af viti, blogga næst þegar ég nenni:)

18.5.05

Hún á afmæli í dag... :)

Hún Hildur er 11 ára í dag! Til hamingju með það litla stelpan mín (sem er ekki svo lítil lengur)!!!!

Svo ég byrji á byrjuninni, þá lifði ég helgina af með aðeins einum uppköstum. Gleðin var mikil bæði kvöldin eins og planlagt hafði verið og fór svo sunnudagur og mánudagur í algera leti heima við.
En vinnuvikan hófst í gær og þegar leið á daginn datt niður allt tölvukerfið hjá okkur svo að dagurinn varð hálf endaslepptur. Kerfið var svo ekki komið inn þegar við mættum í morgun svo að lítið var hægt að gera af viti. En ég fór nú og skoðaði tvö verk sem eru í gangi hjá okkur og setti mig aðeins inn í stöðuna þar, á víst að hafa eftirlit með gangi mála og passa að allir séu að gera rétt!!
Ég skipti um skrifstofu við eina sem sér um bókhaldið svo að nú er ég ekki alveg sér en er komin með miklu stærra skrifborð og líka glugga;)

Ólöf kláraði síðasta samræmdaprófið í morgun og er lögð af stað í ferð með bekknum til að fagna því. Við Hildur ætlum að elda uppáhalds matinn hennar, lambalærisneiðar, í kvöldmatinn og erum svo búnar að bjóða nokkrum fullorðnum í afmæliskaffi. Vinkonuafmælið verður svo á laugardagskvöldið en þá er hún búin að bjóða bara þremur vinkonum sem fá að gista, svona "slumber-party".

Bless þar til seinna:)

12.5.05

Ooooo---

Ég varð svoooo svekt þegar húsið sem við Dagrún skoðuðum í Þykkvabænum var bara selt öðrum en henni:( Það var víst einhver sem bauð alltaf betur og var svo ákveðinn í að kaupa að seljandinn samdi bara við hann án þess að gefa Dagrúnu og Níelsi tækifæri á því að yfibjóða. Enda held ég að þau hefððu líklega ekki verið til í að gera það endalaust. En oooooo-- það er alveg kominn tími á að eitthvað fari að ganga í þessari leit þeirra að húsnæði.

Annars gegnur allt bara vel hjá okkur mæðgunum. Ólöf fór í þriðja sæmræmda prófið í morgun og ég held að henni sé bara að ganga vel. Hún er svo samviskusöm þessi elska.

Framundan er mjög annasöm helgi í skemmtanalífinu hjá mér. Mér er boðið í þrítugsafmæli á föstudagskvöldið, hjá henni Jónu Snigli og ef ég þekki hana og aðra í þessu afmæli rétt, þá má eiga von á töluverðri drykkju! Á laugardagskvöldið býður svo Siggi skólafélagi minn til partýs, svona slútt-partý fyrir okkur bekkjafélagana. Á einnig von á töluverðu djammi þar svo að maginn minn á ekki von á góðu þessa helgina! Það er nefnilega þannig, fyrir þá sem ekki þekkja til, að maginn minn er ekki gerður til þess að drekka áfengi. Svo ég má eiga von á einhverjum mótmælum af hans hálfu.
Læt vita eftir helgina hvort ég lifi þetta af, en bless í bili ....

9.5.05

Byrjuð í nýju vinnunni

Jamm, fyrsti dagurinn í nýju vinnunni var í dag. Ég er með sér skrifstofu, ligga-ligga-lá-lá...! hehe, hún er ekki ýkja stór en mín skrifstofu engu að síður :) Mér líst vel á þetta jobb og hlakka bara til sumarsins.

Á föstudaginn og seinni partinn í dag var ég að passa hann Óðinn litla vin minn. Hann er að verða 15 mánaða og alger snúður. Hann er svo góður hjá mér að ég bara nýt þess að hafa hann og snúllast aðeins með hann.

Á laugardaginn skruppum við mæðgurnar í sveitina til ömmu og skelltum okkur svo í grill til Önnu "frænku". Það var voða skemmtilegt, við buðum Rút tengdasyni með okkur, hehe s.s. öll fjölskyldan :)

Svo gerðust undur og stórmerki á sunnudagsmorguninn: ég svaf ekki út þó ég mætti það!!! Já, ég fór bara á fætur klukkan níu um morguninn og dundaði mér í tölvunni fram að hádegi. Fór svo með Dagrúnu að skoða hús í Þykkvabæ og kom aftur við hjá ömmu í sveitinni. Vona bara að Dagrún og Níels kaupi þetta hús, það passar alveg fyrir þau og er líka á góðu verði.

En svona í lokin, rétti upp hönd þeir sem hafa fengið frunsu á nefbroddinn!!! Aha, datt mér ekki í hug, bara ég :(

4.5.05

Búin-búin-búin

Já ég er búin í skólanum þetta vorið og þetta er meira að segja síðasta vorið mitt í þessum skóla!
Ég gerði nú mest lítið í gær eftir að ég var búin í prófinu, fór bara heim og lagðist undir sæng og sofnaði. Það var ósköp ljúft:)
Kíkti svo seinnipartinn í nýju vinnuna mína og ákavað að byrja þar á mánudaginn. Verð samt ekki alveg allan daginn til að byrja með þar sem Ólöf er að byrja í samræmduprófunum og ég ætla að gera það sem ég get til að styðja hana í þeim.

Þessa viku ætla ég að nota í að gera ýmislegt sem setið hefur á hakanum undanfarið eins og að skipta yfir á sumardekkin, fara með bílinn í skoðun og taka í gegn hérna heima. Svo langar mig líka að kíkja á kaffihús eða fara í bíó!!! Hmm, veit nú ekki einu sinni hvað er í bíó þessa dagana, kannski er bara ekkert sem mig langar að sjá! Jæja það kemur í ljós en núna ætla ég að leggjast upp í rúm með bók og lesa smá og lúlla smá, verð svo dugleg svona frá og með hádegi ;)

See ya....

2.5.05

Varúð!

Ef þú ert karlmaður á aldrinum 50-59 ára ekki vera í heimahúsi á laugardögum í janúar!!! Þá eru nefnilega mestu líkurnar á að þú látist í eldi!
Þetta kemur fram í glósunum mínum sem ég er að lesa fyrir prófið í brunahönnun á morgun. Já það er ýmislegt sem hefur orðið á vegi mínum í námsefninu síðustu 3 vetur. Ég hef tekið þátt í að hanna virkjun, vegi, stoðveggi ýmis konar og auðvitað margskonar hús og burðarvirki. Við höfum líka fengið að kynnast aðeins rekstri og áætlanagerð og svo núna á síðustu önninni var farið í hönnun mannvirkja með tilliti til jarðskjálfta og bruna.
Ég veit ekki um ykkur, en mér finnst þetta allt saman alveg svakalega spennandi sem er líklega ástæðan fyrir því að ég fór í þetta nám :) En það er líka svolítið ógnvekjandi að þetta skuli bráðum verða búið, bara eftir að vinna lokaverkefnið í haust og svo verð ég orðin tæknifræðingur!!!! Úff, rather scary!!!

Jæja, best að lesa núna og svo um kl. 9 í fyrramálið verð ég búin!!!! jíhaaaaa....