Þetta smá þokast
Jæja nú er ég búin að kaupa farmiðana fyrir okkur Hildi til Skotlands svo það er loksins komin föst dagsetning á brottför. Við förum út 12.ágúst eins og stefnt var að.
Tiltekt, sortering og pökkun gengur heldur hægt en þokast þó. Mikið andsk.. er þetta leiðinlegt!
Það er líka svo mikið að gera núna í sumar bara í því að vera mótorhjólapakk, alltaf eitthvað skemmtilegt um að vera helgi eftir helgi. Ég má bara ekkert vera að því að tæma íbúðina og svoleiðis :(
Við Hildur skruppum í heimsókn á "Potato Run" í Þykkvabænum á laugardaginn og þar sem ég var búin að ákveða að fara á hjólinu þá gerði ég það auðvitað! Datt ekki í hug að taka skynsemina á þetta og fara á bílnum vegna veðurs, nei nei, skynsemin var bara sett inn í skáp og purrað af stað. Ég hafði tekið farþegabakið (íslensk þýðing á "sissybar") af hjólinu hennar Jónu og sett á hjá mér svo ég gæti tekið Hildi með mér og Einar var búinn að finna fyrir mig farþegapedalana sem hafði vantað. Okkur mæðgum var því ekkert að vanbúnaði. Dúðuðum okkur í gallana, Hildur greyið sett í nokkrar peysur og svo í leðurgallann minn og svo af stað.
Ég held svona í fyllstu alvöru að einhverju æðra valdi hafi fundist þetta voða fyndið og ákveðið að leggja fyrir mig smá hjólapróf. Í fyrsta lagi þá var svo mikil rigning að maður þurfti að sæta lagi til að anda að sér ef maður ætlaði ekki að drukkna. Í öðru lagi ákvað lognið að flýta sér heldur hressilega á Hellisheiðinni. Í þriðja lagi þá var þokan þarna uppi svo þétt (til að auka við lélega skyggnið vegna rigningarinnar) að ég sá aldrei nema ca. 2 stikur fram á veginn og svo eins og ég hefði ekki nóg að gera við að halda hjólinu uppréttu og á réttum vegarhelmingi, þá er þarna á heiðinni dágóður kafli af svona líka stíf-póleruðu nýlögðu malbiki. Það þarf ekki að taka fram hversu sleypt það er í bleytu!!!
Úff, ég verð að viðurkenna að ég var ansi stíf í öllum skrokknum eftir þetta. Það er nógu stressandi að vera að berjast við vindinn svona venjulega en eiginlega ennþá verra ef maður er með barnið sitt aftaná.
En í Oddspart komumst við, gegndrepa og kaldar. Þar var slatti af fólki þrátt fyrir veðrið. Við ílengdumst þar fram eftir kvöldi við át, leiki og spjall og héldum svo heim á leið um miðnættið. Hildur var svo heppin að fá far með Indu og Badda í bæinn, henni leist ekkert á að fara að klæða sig aftur í hálf-þvalann leðurgallann og frjósa aftaná hjólinu. Mín föt voru a.á.m. orðin þurr og ferðin heim gekk bara vel.
Sunnudagurinn fór svo í tiltekt og pökkun.. jei gaman gaman!
5 Comments:
Naglinn þinn ;O)
harka í þér kona ;-)
kv. Sylvía
Takk takk stelpur mínar, maður reynir nú að halda kúlinu...!
Takk fyrir samveruna í gær. Gaman að sjá ykkur mæðgur. Gangi ykkur vel í pökkunarstússinu.
Kveðja Ásdís
Bíddu bíddu... kaupirðu miða fyrir þig og Hildi? Hvað með Ólöfu, fær hún ekkert að fara með ykkur?
Þórdís
Skrifa ummæli
<< Home