26.11.07

Síðasta hjólaferð "sumarsins"!

Brrrr, brrrr, ég fór á hjólinu í Þykkvabæinn á laugardaginn. Jú jú, það var 7 - 10°C frost á leiðinni (fyrir utan vindkælingu) og smá hálkublettir á heiðinni en Gore-texið sannaði sig sko rækilega. Puttarnir voru svona á köflum í smá kal hættu en þá rifjaði ég bara upp nokkrar fingraæfingar frá því í píanótímunum í gamla daga og fékk blóðið aftur á hreyfingu.
Ástæðan fyrir þessari hjólaferð var sú að ég er með vetrargeymslu fyrir hjólið í Oddsparti og það var virkilega farið að láta á sjá að standa hérna fyrir utan í allt haust. Ég beit það svo í mig í veðurblíðunni á laugardaginn að þetta væri dagurinn til verksins og þá var ekki aftur snúið. Var að vísu fram eftir degi að reyna að fá mig ofan af þessari vitleysu en það tókst ekki þrátt fyrir miklar rökræður við sjálfa mig. Það varð þó til þess að það var komið myrkur þegar ég loks lagði af stað.

Ef hjólið hefði getað talað þá hefði það snúið framendanum að mér þar sem ég var að reyna að starta því og sagt: "ert'ekki að grínast? ætlastu til þess að ég hreyfi mig í þessu frosti??? Veistu ekki hvaða árstíð er þú crazy kelling??!!!" Það fór nú samt í gang gamla greyið því ég var þrjóskari (no surprize þar!) en dempararnir voru freðnir, svampurinn í sætinu var freðinn, bensínlokið var freðið og þegar ég ætlaði að skipta yfir í háu ljósin upp við Rauðavatn þá var takkinn gaddfreðinn! En allt vill lagið hafa og í Þykkvabæinn komumst við súkka gamla heilu og höldnu beint í veislumat hjá Dagrúnu. Og vitið þið bara að ég var ekkert gaddfreðin, hef meira að segja orðið mun kaldara þegar ég var í leðrinu í roki og rigningu og 5 stiga hita! :)

Laugardagskvöldið var svo dásamlegt. Það var alveg kominn tími á stelpu-/rauðvíns-/ kjaftakvöld hjá okkur tveimur og stóðum við okkur vel í þessum þremur þáttum. kjöftuðum og drukkum rauðvín fram á rauða nótt. Dásemd- dásemd....

Kveðja frá hörku-biker kvendinu ;)

22.11.07

Ég er EKKI dramadrottning - surprize-surprize!!



Þú ert vel steikt dramadrottning.




Ef dramadrottningar væru hamborgarar sem fengjust
"rare",
"medium rare",
"medium" og
"well done" værir þú "well done". Jafnvel svo vel steikt að erfitt væri að sjá muninn á þér og skósóla. En velsteikta dramadrottningin kærir sig ekki um óvæntar uppákomur eins og matareitrun. Hún vill að hlutirnir séu fyrirsjáanlegir og skipulagðir. Hún bleytir því einfaldlega upp í þurrum borgaranum með fullt af kokteilsósu.



Miklir leiðtogahæfileikar búa í vel steiktu dramadrottningunni. Hún er mjög yfirveguð og rökföst en einnig þrjósk.



Í raun verður nánast aldrei dramatískra eiginleika vart í fari vel steiktu dramadrottningarinnar. Ætli þeir hafi ekki drepist við steikingu. Það er þó tvennt sem getur komið hinni vel steiktu úr jafnvægi. Annars vegar hrár fiskur. Hins vegar þátturinn Frægir í form. Hún er enn að leita að fræga fólkinu í þættinum.


Hversu mikil dramadrottning ert þú?

16.11.07

Mikið að gera

Vikan hefur liðið ótrúlega hratt og er bara allt í einu að verða búin. Ég er að fara í TOEFL enskuprófið á morgun og hef lítið sem ekkert undirbúið mig fyrir það. Vonandi er ég bara nógu góð til þess að ná viðunandi árangri þar.


Ólöf fór til Barcelona í gær með Rúti og foreldrum hans og ætla þau að vera í viku. Ohh ég öfunda hana svo mikið en get líka samglaðst henni innilega þar sem það er nú ekki eins og hún sé alltaf í útlöndum blessunin. Njóttu- njóttu elskan :)


Annars er allt við það sama í mínu lífi, vinnan-dýrin og stelpurnar mínar :) Depill er enn og aftur kominn á skilorð, ég var mjög nálægt því í síðustu viku að byrja að leyta að nýju heimili fyrir hann! En hún Anna Birna hundasnillingur gaf mér góð ráð sem ég er að reyna að fara eftir svo hann var settur á skilorð í bili. Sjáum hvað setur...!


Ein mynd í lokin sem náðist af Karíusi og Míó að kúra saman, þeir þræta samt fyrir að þetta hafi nokkurn tíman átt sér stað ;)


7.11.07

Önnum kafin...

Það er orðið eitthvað Önnu-maraþon á kommentunum frá síðustu færslu ;) En bæði Inda og Ásdís þorðu þó að leggja orð í belg líka, gott hjá ykkur stelpur mínar. Það geta bara ekki allir borið þetta fallega nafn, Anna, svo við tökum tillit til ykkar hinna og leyfum ykkur samt að vera með....hí híhí....!

Ég fór í mjög skemmtilega og áhugaverða ferð með Brunatæknifélaginu á föstudaginn. Við fórum í heimsókn til slökkviliðsins í Árborg, þ.e. á Selfossi þar sem þeir brunakallarnir þar voru búnir að skipuleggja þrusu kynningarferð fyrir okkur um sitt svæði. Það var byrjað á því að fara á Litla Hraun þar sem við fengum kynningu á húsakosti og fengum einnig að skoða eina álmu fangelsisins. Mjög gaman og merkilegt, ég hef aldrei komið þarna og mér fannst hálf skrítin tilfinning að fara þarna inn. En það sem er áhugaverðast faglega er það að orðið "flóttaleið" fær allt aðra merkingu þarna heldur en við notum daglega við okkar hönnun. Þarna verður nefnilega að vera hægt að koma fólki örugglega út við eldsvoða en samt má það ekki komast út að öllu venjulegu. Heillandi dæmi til að leysa! Næst var "Húsið" á Eyrarbakka skoðað með leiðsögn safnvarðar, æðislegt gamalt hús og mynjasafn. Auðvitað voru brunavarnir safnsins sérstaklega skoðaðar ;) og svo fengum við kynningu á slökkvistöðinni á Selfossi. Að lokum var borðað á Hótel Selfossi.
Þegar við komum svo í bæinn aftur skruppum við nokkur aðeins á pöbb niðri í bæ enda var maður ekki alveg þurrbrjósta eftir ferðina þar sem bjór var í boði á nokkrum stöðum (ekki þó á Hrauninu!).

Helgin var annars viðburðarlítil, skrapp aðeins í Oddspart sem stendur tómur þessar vikurnar á meðan bóndinn er í Ameríku, en gerði annars mest lítið.

Af dýrunum er það að frétta að afbrýðisemin er enn að hrjá Depil og lætur hann það í ljós á ýmsan hátt. Í fyrrakvöld gerði hann sig t.d. líklegan til þess að skíta á gólfið beint fyrir framan sjónvarpið sem við vorum allar þrjár að horfa á. Ég hefði viljað eiga á myndbandi og geta spilað hægt, viðbrögð mín við þessu athæfi. Ég held að ég hafi aldrei verið eins snögg að stökkva undan teppinu, ég henti prjónadótinu eitthvað út í loftið og flaug yfir sófaborðið á meðan ég gargaði NEEEIII....... svo tók ég í ólina á hundinum og fleygði honum að útihurðinni þar sem ég gaf honum drag í afturendann beint út......!!! Já segið þið svo að viðbragðssnerpan sé ekki fullkomin þegar á þarf að halda???