Önnum kafin...
Það er orðið eitthvað Önnu-maraþon á kommentunum frá síðustu færslu ;) En bæði Inda og Ásdís þorðu þó að leggja orð í belg líka, gott hjá ykkur stelpur mínar. Það geta bara ekki allir borið þetta fallega nafn, Anna, svo við tökum tillit til ykkar hinna og leyfum ykkur samt að vera með....hí híhí....!
Ég fór í mjög skemmtilega og áhugaverða ferð með Brunatæknifélaginu á föstudaginn. Við fórum í heimsókn til slökkviliðsins í Árborg, þ.e. á Selfossi þar sem þeir brunakallarnir þar voru búnir að skipuleggja þrusu kynningarferð fyrir okkur um sitt svæði. Það var byrjað á því að fara á Litla Hraun þar sem við fengum kynningu á húsakosti og fengum einnig að skoða eina álmu fangelsisins. Mjög gaman og merkilegt, ég hef aldrei komið þarna og mér fannst hálf skrítin tilfinning að fara þarna inn. En það sem er áhugaverðast faglega er það að orðið "flóttaleið" fær allt aðra merkingu þarna heldur en við notum daglega við okkar hönnun. Þarna verður nefnilega að vera hægt að koma fólki örugglega út við eldsvoða en samt má það ekki komast út að öllu venjulegu. Heillandi dæmi til að leysa! Næst var "Húsið" á Eyrarbakka skoðað með leiðsögn safnvarðar, æðislegt gamalt hús og mynjasafn. Auðvitað voru brunavarnir safnsins sérstaklega skoðaðar ;) og svo fengum við kynningu á slökkvistöðinni á Selfossi. Að lokum var borðað á Hótel Selfossi.
Þegar við komum svo í bæinn aftur skruppum við nokkur aðeins á pöbb niðri í bæ enda var maður ekki alveg þurrbrjósta eftir ferðina þar sem bjór var í boði á nokkrum stöðum (ekki þó á Hrauninu!).
Helgin var annars viðburðarlítil, skrapp aðeins í Oddspart sem stendur tómur þessar vikurnar á meðan bóndinn er í Ameríku, en gerði annars mest lítið.
Af dýrunum er það að frétta að afbrýðisemin er enn að hrjá Depil og lætur hann það í ljós á ýmsan hátt. Í fyrrakvöld gerði hann sig t.d. líklegan til þess að skíta á gólfið beint fyrir framan sjónvarpið sem við vorum allar þrjár að horfa á. Ég hefði viljað eiga á myndbandi og geta spilað hægt, viðbrögð mín við þessu athæfi. Ég held að ég hafi aldrei verið eins snögg að stökkva undan teppinu, ég henti prjónadótinu eitthvað út í loftið og flaug yfir sófaborðið á meðan ég gargaði NEEEIII....... svo tók ég í ólina á hundinum og fleygði honum að útihurðinni þar sem ég gaf honum drag í afturendann beint út......!!! Já segið þið svo að viðbragðssnerpan sé ekki fullkomin þegar á þarf að halda???
6 Comments:
Sko snerpuna hjá þér þrátt fyrir aldurinn! ;) Ég vil fá myyyyndir, og það ekki seinna en strax, helst í gær. Hlakka til að sjá þig um helgina
Hahahaha mín bara alltaf í boltanum!!
Það er kannski kominn tími á að þú skellir þér í öldungadeildina.....
heheh og hann sem er orðin 2 ára ; )
heheh og hann sem er orðin 2 ára ; )
Ég má til með að bæta einni Önnu við í þennan Önnufans ;o)
He ég heiti ekki Anna! Ákvað að kíkja eftir langa mæðu. Gaman að sjá að þú hefur heimsótt Stjána babú og kannski hitt Snorra Bald, slökkvistjóra Íslands. Allt svo gott að frétta úr Hveró. Atli bróðir bauð mömmu í mat... þakkargjörðarkalkún í Boston, hvorki meira né minna. Svo þau eru úti núna, södd og sæl! Allir vaxa og dafna og jólaspenningurinn er farinn að gera vart við sig. Bestu kveðjur til ykkar stelpna, katta og hunds :)
Skrifa ummæli
<< Home