24.9.07

Umsátur vona rakspírans- taka tvö!

Ég ætla ekki að segja mikið en vitna frekar í þessa færslu mína frá 3. 12.2005!
Það hefur nefnilega bæst í hópinn nýr vinnufélagi hérna á stofunni sem notar Joop og ég er gersamlega að kafna! Helv... lyktin eltir mig allan daginn og ef ég passa mig ekki þá enda ég með mjög snúið nef því ósjálfrátt fer ég að fytja upp á nefið til þess að reyna að loka því, bjakk bjakk....!

21.9.07

Um daginn og veginn

Það líður mislangt á milli færslna á þessu bloggi hjá mér. Það er bara eins og það er, stundum hefur maður eitthvað að segja og stundum ekki, já og stundum nenni ég hreinlega ekkert að skrifa.

Ég er búin að vera eitthvað svo einræn undanfarna viku (já meira en venjulega!). Hef bara farið í vinnuna og heim og ekki nennt að hafa samband við neitt annað fólk en það sem ég hitti á þessum tveimur stöðum. Það er ósköp gott að vera stundum bara með sjálfum sér og sínum hugsunum en líklega er kominn tími til að rífa sig upp og fara að socialisera við annað fólk líka.

Ég var voða dugleg í vikunni (á minn mælikvarða allavegana!) og festi sal fyrir ferminguna hennar Hildar. Hún verður ekki fyrr en í lok apríl en mér skilst að það þurfi að vera tímanlega í þessum hlutum hérna á höfuðborgarsvæðinu. Svo er ég líka byrjuð að undirbúa það að sauma á hana upphlut í samvinnu við Dísu systir svo þetta er allt í góðum gír.
Talandi um Hildi þá fórum við með nokkrum krökkum úr bekknum hennar og foreldrum þeirra inn í Þórsmörk um síðustu helgi. Það var alveg frábær ferð og gerð til þess að við kynntumst svolítið hvort öðru og gerðum eitthvað skemmtilegt saman með börnunum okkar sem nú eru að sigla mjög hratt inn á unglingsaldurinn. Það var samt leiðinlegt hversu fáir mættu, aðeins 10 af 33 börnum. En fólk hefur sínar ástæður til þess að komast ekki í svona ferðir.

Komandi helgi verður eytt heima við! Ég er búin að vera fjarverandi þrjár síðustu helgar og nú vill ég bara vera heima að dunda mér.

Að lokum verð ég að segja ykkur frá bók sem ég er að lesa. Ég keypti hana úti í Edinborg á dögunum og hún heitir "Marley and Me". Hún fjallar um labradorhundinn Marley, sem eigandinn lýsir sem heimsins versta hundi og eigendur hans. Þetta er svo kómísk saga um ósköp venjulegt fólk sem fær sér hund sem reynist svo einum of orkumikill og ótrúlegur. Ég er búin með u.þ.b. 1/3 af bókinni og er búin að skellihlægja nokkrum sinnum upphátt!!!

Kveðja í bili og farið varlega um helgina...

11.9.07

Frábær ferð

Ég er komin heim úr fínni ferð til Englands og Skotlands.

Interflam ráðstefnan var mjög áhugaverð og fræðandi og gaman að vera innan um svona marga virta fræðimenn á þessu sviði. Dagskráin var þétt frá morgni og fram á kvöld því að eftir stífa fyrirlestradagskrá allan daginn voru svona "social events" á kvöldin svo maður "varð" aðeins að fá sér einn eða tvo "pint" svona til þess að vera með ;) hehehe.....!

Sýningin Billy Elliot í leikhúsi í London var alveg ótrúleg! Þvílík skemmtun sem ég á eftir að lifa á leeeengi.

Svo var lagt af stað til Skotlands en þangað hafði ég aldrei komið áður. Fór með lest frá London og naut útsýnisins á leiðinni. Vá hvað ég er heilluð af Skotlandi. Það er svo fallegt þar! Í Edinborg drýpur sagan af hverju götuhorni enda borgin mjög gömul og merkileg. Ég fór í ekta túrista skoðunarferð um borgina og svo líka að skoða þessar brýr, Firth of Forth:


Þið sjáið ef vel er að gáð að þetta eru tvær brýr, þessi sem er nær er gömul járnbrautabrú og svo sést í stöplana á nýrri brúnni þarna á milli en hún er aðeins fjær. Þeir sem þekkja mig vita að ég er mjög veik fyrir brúm, stórum og litlum svo þessi sigling var alger draumur. Fyrir utan að skoða þessar merkilegu brýr þá eru svo fallegir litlir bæir þarna við ströndina sem gaman var að sjá.

Nú nú, aðal ástæða ferðar minnar til Edinborgar var að skoða háskólann. Ég var svo heppin að vera kynnt fyrir einum kennaranna þar á meðan ég var á Interflam svo hann tók á móti mér þegar ég kom og sýndi mér allt saman og fór með mig að hitta bæði nemendur og kennara. Ég fékk fullt af gagnlegum upplýsingum um það nám sem ég er að hugsa um að fara í svo núna er bara að skoða betur University of Maryland sem er annar kosturinn af þeim skólum ég er að hugsa um og taka svo ákvörðun þegar líður á veturinn

Ég þurfti að sofa í Glasgow síðustu nóttina þar sem ég átti að mæta snemma á flugvöllinn. Þar lenti ég á rándýru og ferlega sjúskuðu hóteli sem var örugglega voðalega fínt og flott svona í kringum 1980 eða fyrr en síðan þá hefur ekkert verið gert fyrir það, bjakk... Ég er nú ekkert voðalega pjöttuð og var t.d. á ódýru "Bed and Breakfast" í Edinborg sem var ekkert spes en þegar maður borgar meira en helmingi meira fyrir hótelherbergi á stóru hóteli þá ætlast maður líka til meira. En oj bara, þvílíkt hrúgald... :(


Jæja, nú er bara að reyna að vinna eitthvað úr þessum upplýsingum sem ég sankaði að mér í ferðinni, bæði sem snýr að vinnunni og skólamálum. Set með að lokum eina mynd af tré sem ég gat ímyndað mér að væri skylt ömmu hennar Pocahontas ;)