18.12.05

Jæja jæja ég er á lífi

Já þótt undarlegt megi virðast þá er ég enn á lífi eftir törnina undanfarið.
Ég er sem sagt flutt og búin með skólann!!!

Síðasta laugardag, á 16 ára afmælisdegi frumburðarins, þá fékk ég aðstoð frá eðal fólki við að flytja. Það gekk mjög vel enda Dísa systir, Jóna Snigill, Friðrik Snigill og Dúllari og Jón Arnar Dúllari alveg þvílíkt kraftaverkafólk. Ekki má gleyma henni Hildi Þóris, sem kom á sendiferðabíl og hjálpaði okkur. Takk öll saman, þið eruð æði :)

Mamma kom svo til mín á mánudaginn og var fram á fimmtudag. Hún hjálpaði mér að taka upp úr kössum og finna þar með eldhúsið mitt og stofuna. Veit ekki hvernig ég hefði farið að án hennar, sérstaklega þar sem ég lagðist í rúmið með hita og kvef og var því til lítils gagnleg.

Þessi lasleiki kom líka niður á vörninni minni. Ég sat á mánudaginn og bjó til voða fínt glærushow og setti punkta á blað. Æfði mig að fara með kynninguna og tók tímann á henni. Var ágætlega undibúin, hélt ég. En eitthvað klikkaði við að vista glærurnar á mynnislykilinn. Kannski það hafi haft áhrif að ég var komin með hita þarna á mánudagskvöldið þegar ég var að klára þetta en allavega var ekkert glærushow á lyklinum þegar í vörnina var komið. Ég nenni ekki að tíunda hér hve mikið sjokk þetta var en ég hélt minn fyrirlestur óundirbúinn bara með ritgerðina og nokkra punkta. Það gekk þokkalega og ég fór beint heim í rúm þegar ég var búin og mókti þar fram á kvöld.
Það er frekar svekkjandi að klikka á lokasprettinum þegar maður er búinn að leggja svona mikið á sig í 3 og 1/2 ár. En það þýðir víst ekkert að velta sér upp úr því, ég er búin að fá einkunn og þó hún hafi ekki verið eins og ég vonaðist eftir þá get ég ekkert kvartað.

Núna er ég að koma mér fyrir í Blönduhlíðinni, bara að dúllast við það og ætla svo vestur á miðvikudaginn.

Það hefur fjölgað í fjölskyldunni hjá okkur. Lítill voffastrákur er fluttur til okkar og hefur hann fengið nafnið Depill. Ég segi meira frá honum næst enda þessi pistinn orðinn nógu langur.

Bless í bili

8.12.05

Búin að skila :)

Ég er búin að skila lokaverkefninu!!! Jibbííí jei jei ég svaf loksins værum svefni í nótt, kærkomin tilbreyting eftir svefnlitlar nætur undanfarið. Nú á ég eftir að gera glærushow fyrir vörnina sem er á þriðjudagsmorguninn og eftir hana er ég búin í skólanum. Útskrift verður svo í janúar.

Ég ætla að flytja núna um helgina og nota næstu viku í að ganga frá íbúðinni í Bólstaðarhlíðinni. Vá hvað ég verð fegin að komast í jólafrí til mömmu!!!! Dísa systir ætlar að koma til mín um helgina og hjálpa mér að flytja og svo ætlar mamma að koma á mánudaginn og hjálpa mér líka. Gott að eiga góða að:)

Núna ætla ég að drífa mig í að ganga frá því sem ég þarf að gera hjá Þórsafli og svo fer bara að koma að verklokum þar.

Auglýsing:
Ef einhver getur séð af einhverjum tíma til að hjálpa mér við flutninga eða þrif, þá má sá hinn sami endilega hafa samband við mig. Hver einasti klukkutími er vel þeginn. Það er nefnilega einhvernvegin þannig að vinir mínir eru annaðhvort erlendis eða veikir svo að illmögulegt er að níðast á þeim!

3.12.05

Umsátur vonda rakspírans!

Það var einu sinni rakspíri sem sat í hillu með öðrum rakspírum í lítilli snyrtivöruverslun úti á landi. Hann var bleikur (eða í bleikri flösku) , frekar sætur og hét JOOP.
Einn dag rétt fyrir jólin kom Anna inn í litlu snyrtivöruverslunina og lyktaði af mörgum rakspírum því hún hafði hugsað sér að kaupa einn slíkan fyrir manninn sinn í jólagjöf. JOOP varð voða spenntur og sýndi allar sínar bestu hliðar sem varð til þess að hann varð fyrir valinu.
Maðurinn hennar Önnu tók JOOP mjög vel og notaði hann óspart næstu árin, þá helst svona til spari.
En Anna var ekki lengi í paradís, því að þó hún hefði sjálf valið JOOP þá fór hann smám saman að fara í taugarnar á henni. Hvort samband hennar við manninn sem bar hann hafði eitthvað með það að gera, skal ósagt látið. En eftir smá tíma fór henni að JOOP er mjög frekur rakspíri.
Það er nefnilega þannig að hann hefur ákveðið að láta Önnu ekki vera. Nú skal það tekið fram að Anna er ekki vel að sér í nöfnum á hinum og þessum ilmum sem í flöskum koma, hvorki þá ilmi sem hannaðir eru sérstaklega fyrir karlmenn eða þá sem konur bera heldur. En JOOP passar vel uppá að hún gleymi honum ekki.
Hér koma nokkur dæmi. Fyrsti kærasti Önnu eftir skilnaðinn við JOOP notandann þann fyrsta, hafði JOOP sem spari lyktina sína. Til dæmis þá hafði hann borið hann vel á sig á þeirra fyrsta rómantíska stefnumóti! Þið getið ímyndað ykkur hvort daman varð ekki pínu svekt. Hann neitaði svo algerlega að skipta um lykt, svo sterk voru ítök JOOP. Hjásvæfa sem Anna átti í góðan tíma notaði einnig JOOP svona til spari!!! Nú fyrir utan svo að JOOP reynir alls staðar að ná athygli, hvort sem um er að ræða verslanir, skemmtistaði eða bíó. Já því að nú síðast í kvöld þá sat Anna í stórum bíósal til að horfa á nýju Harry Potter myndina og viti menn... JOOP hafði plantað sér við hliðina á henni! Sat þar voða montinn og hreykti sér utan á aumingjans unglingsgreyi sem varla er byrjaður að raka sig. Samt er JOOP búinn að ná heljartökum á honum.
Eins og góður rakspíri getur kveikt þrár og langanir þá getur JOOP slökkt allt líf í einni svona Önnu!!!

Endir.