21.9.07

Um daginn og veginn

Það líður mislangt á milli færslna á þessu bloggi hjá mér. Það er bara eins og það er, stundum hefur maður eitthvað að segja og stundum ekki, já og stundum nenni ég hreinlega ekkert að skrifa.

Ég er búin að vera eitthvað svo einræn undanfarna viku (já meira en venjulega!). Hef bara farið í vinnuna og heim og ekki nennt að hafa samband við neitt annað fólk en það sem ég hitti á þessum tveimur stöðum. Það er ósköp gott að vera stundum bara með sjálfum sér og sínum hugsunum en líklega er kominn tími til að rífa sig upp og fara að socialisera við annað fólk líka.

Ég var voða dugleg í vikunni (á minn mælikvarða allavegana!) og festi sal fyrir ferminguna hennar Hildar. Hún verður ekki fyrr en í lok apríl en mér skilst að það þurfi að vera tímanlega í þessum hlutum hérna á höfuðborgarsvæðinu. Svo er ég líka byrjuð að undirbúa það að sauma á hana upphlut í samvinnu við Dísu systir svo þetta er allt í góðum gír.
Talandi um Hildi þá fórum við með nokkrum krökkum úr bekknum hennar og foreldrum þeirra inn í Þórsmörk um síðustu helgi. Það var alveg frábær ferð og gerð til þess að við kynntumst svolítið hvort öðru og gerðum eitthvað skemmtilegt saman með börnunum okkar sem nú eru að sigla mjög hratt inn á unglingsaldurinn. Það var samt leiðinlegt hversu fáir mættu, aðeins 10 af 33 börnum. En fólk hefur sínar ástæður til þess að komast ekki í svona ferðir.

Komandi helgi verður eytt heima við! Ég er búin að vera fjarverandi þrjár síðustu helgar og nú vill ég bara vera heima að dunda mér.

Að lokum verð ég að segja ykkur frá bók sem ég er að lesa. Ég keypti hana úti í Edinborg á dögunum og hún heitir "Marley and Me". Hún fjallar um labradorhundinn Marley, sem eigandinn lýsir sem heimsins versta hundi og eigendur hans. Þetta er svo kómísk saga um ósköp venjulegt fólk sem fær sér hund sem reynist svo einum of orkumikill og ótrúlegur. Ég er búin með u.þ.b. 1/3 af bókinni og er búin að skellihlægja nokkrum sinnum upphátt!!!

Kveðja í bili og farið varlega um helgina...

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

spurning um að fá að lesa í gegnum hana ???

21 september, 2007 22:23  
Anonymous Nafnlaus said...

Hmmm.... einræn já það er nú ágætt líka, við erum á leiðinni í Hrísey núna á eftir, ég og krakkalakkarnir pabbinn á stefnumót við allar gömlu skólasysturnar og strákana í svona gaggó reunion og við ætlum bara að skilja hann eftir í þeirri dagskrá...bara gamlar konur hvort sem er hahahahaha ömmur og svoleiðis....

22 september, 2007 10:43  
Anonymous Nafnlaus said...

Hæhæ er bara að kíkja inn og kvitta fyrir mig :)

24 september, 2007 02:58  

Skrifa ummæli

<< Home