27.2.07

Af hundi og köttum

Það er óhætt að segja að heimilið sé farið í hund og kött! Þeir strákarnir eru ekkert að sættast og þurfum við að skipta tímanum á milli þeirra, þ.e. þegar Depill er frammi hjá okkur þá eru kettlingarnir inni í Ólafar herbergi og þegar þeir eru frammi er Depill inni í búrinu sínu. Svo eru þeir allir saman látnir hittast öðru hvoru og þá er mikið hvæsst og gelt.

Af öðrum fjölskyldumeðlinum er það að frétta að Hildur er á Reykjum í skólabúðum þessa vikuna og eru kennararnir svo sniðugir að þeir stofnuðu bloggsíðu fyrir þau. Svo núna getum við foreldrarnir sem heima sitjum fylgst með á netinu. Síðan þeirra er hérna.

Brjálað að gera í vinnunni, heyrumst síðar....

24.2.07

Vert að hugsa um

Skoðið þetta. Hve mörg okkar hafa ekki einn klukkutíma á viku sem við getum séð af?
Það er hollt fyrir okkur að staldra aðeins við endrum og eins og þakka fyrir að eiga góða að. Góðir vinir, hvort sem þeir eru tengdir okkur fjölskylduböndum eða annars konar böndum, eru gersemar sem ekki allir hafa aðgang að. Við getum látið í ljós þakklæti fyrir það sem við eigum með því að gefa smá hluta af okkar tíma til þeirra sem á þurfa að halda.

Allt hjálparstarf er gott, hvers vegna ekki að byrja hér heima?

17.2.07

Góðar leiðbeiningar

Rakst á þessar mjög svo þörfu leiðbeiningar:

Leiðbeiningar aftan á þekktri "meik" tegund: "Do not use on children under 6 months old." (auðvitað byrjar maður ekki að mála börnin sín fyrr en þau eru orðin 7 mánaða!!!).
Leiðbeiningar á Sears hárblásurum: "Do not use while sleeping" (Einmitt þegar mér finnst skemmtilegast að dúlla í hárinu á mér).
Þetta stóð á umbúðum utan af Dial sápu: "Use like regular soap" (Og hvernig á aftur að nota svoleiðis?)
Á umbúðum af SWANN frystimat: "Serving suggestion: Defrost" (Mundu samt...þetta er bara uppástunga).
Hótel lét baðhettu í boxi fylgja með hverju herbergi, og á boxinu stóð: "Fits one head." (Sérðu ekki fyrir þér...einhverja tvo vitleysinga... með eina baðhettu...).
Á botninum af Tiramisu dessertinum frá Tesco stendur: "Do not turn upside down." (Úps, of seinn)
Þetta stendur á búðing frá Marks & Spencer: "Product will be hot after heating." (Það er nefnilega það)
Á pakkningum á Rowenta straujárni: "Do not iron clothes on body." (En myndi það nú ekki spara mikinn tíma!).
Á hóstameðali fyrir börn frá Boots: "Do not drive car or operate machinery" (Þannig að Gunni litli fær ekkert að leika sér á lyftaranum þegar hann kemur heim).
Á flösku af "Nytol sleep aid" má sjá þetta: "Warning: may cause drowsiness" (Maður skyldi nú rétt vona það!).
Hnífasett frá Kóreu var merkt þannig: "Warning keep OUT OF children" (oký dókí!!!)
Jólasería frá Kína var merkt á eftirfarandi hátt: "For indoor or outdoor use only" (En ekki hvar...???).
Matarvinnsluvél frá Japan var merkt svona: "Not to be used for the other use." (Ok...núna er ég orðinn mjög forvitin).
Hnetupoki frá Sainsburys: "Warning:contains nuts" (Jamm... ég fer mjög varlega).
Á poka af hnetum frá Amerísku flugfélagi stóð þetta: "Instructions: open packet, eat nuts"
(Imbafrítt eða hvað?).
Leiðbeiningar sem voru á miða með blá, hvít og rauðköflóttri skyrtu segir: "Munið að þvo liti aðskilda" (Ehhh...já...áttu nokkuð skæri).
Leiðbeiningar á ónefndri örbylgju popp tegund segir manni að "taka plastið af áður en sett er í örbylgju" Málið er, að til að geta lesið leiðbeingarnar verður þú að vera búinn að taka plastið af og fletta pokanum í sundur...
Framan á kassa af "Töfradóti" fyrir krakka, er mynd af strák sem er klæddur eins og töframaður. Aftan á kassanum stendur: "Notice, little boy not included" (Ohhhhh.......ég sem var farin að hlakka svo til að eignast vin).
Ég keypti svona kisunammi fyrir köttinn minn. Á pokanum stendur "new and improved shapes" (Aaaa...einmitt það sem kötturinn minn er búinn að vera að nöldra út af).
Lítill miði var festur á "Superman" búning, á honum stóð: "Warning: This cape will not make you fly" (Núúúúú...þá kaupi ég hann ekki).
Á keðjusögum stendur oft viðvörunin "Do NOT touch the rotating chain" (Er það ekki nú nokkuð ljóst..haaaa??).
Eitt sem ég skil ekki "Waterproof" maskarar...á þeim stendur:> "Washes off easily with water"
(Hmmm...hver er þá tilgangurinn?).

14.2.07

Karíus og Baktus

Þið megið hér með opinberlega og endanlega úrskurða mig klikkaða! Ég tek því bara sem hrósi :)
Það var að breytast samsetningin í dýragarðinum heima hjá mér. Penelópa villikisa sem búið hefur inni hjá Ólöfu (þ.e. undir rúminu hennar) fékk að velja hvort hún vildi fara eða vera og hún valdi að fara. Við tókum netið frá glugganum svo hún gat farið út ef hún vildi og það gerði hún. Enda ekkert líf fyrir greyið að búa lokuð inni í einu litlu herbergi. Við náðum aldrei að hæna hana að okkur og vildi hún alls ekki láta ná sér eða klappa.
En sagan er ekki búin, ó nei... í gær kom hún Jóna með tvo svarta kisustráka til okkar. Ég ætlaði að vísu bara að fá einn en það var ekki tauti við hana komið, það mátti alls ekki skilja þá bræður að (tilboð- tveir fyrir einn...!). Þeir eru tveggja og hálfs mánaðar gamlir og hafa fengið nöfnin Karíus og Baktus.
Þeir eru vægast sagt ekki hrifnir af Depli en þeir verða bara að venjast hvorir öðrum allir þrír. Kynjahlutfallið á heimilinu er sem sagt að verða aðeins jafnara. Við eru sko þrjár stelpurnar og báðir naggrísirnir eru stelpur = 5 kvk. Núna eru svo hundurinn og kettirnir tveir strákar = 3 kk. Já og svo er tengdasonurinn oft þarna líka svo það er óhætt að segja að það séu 3,5 kk.

Læt ykkur vita hvort allt fer í hund og kött á heimilinu . . . .

6.2.07

Jamm

Ég veit, ég er lélegur bloggari. En stundum er það einfaldlega þannig að andinn er ekki yfir manni og þá bara er ekkert bloggað.

Ég er sem sagt staðin upp úr flensunni en það tók mig rúma viku að ná þokkalegri heilsu. Þetta endaði allt saman mjög svo skemmtilega (eða þannig...) með fermeters stórri frunsu framan á nefinu. Ég held að ég sé núna búin að heyra alla nef-brandara sem til eru :)

Eins og algengt er í byrjun árs þá hef ég verið að taka til í fjármálunum og í leiðinni að velta fyrir mér hvað ég vilji gera við lífið og tilveruna í nánustu framtíð. Já ég veit að þetta er frekar háfleygt en þetta hófst allt á því að leigan hjá mér var hækkuð og mér blöskrar svo svakalega hvað ég þarf að borga á mánuði til þess að eiga sæmilegt heimili fyrir mig og stelpurnar mínar. Ég er ekki einu sinni að fara fram á neina höll! Þannig að ef einhver þarna úti veit um húsnæði sem kostar undir 100 þús á mánuði og er með a.m.k. 3 svefnherbergi þá má sá hinn sami endilega láta mig vita. Ég er ekki mjög kröfuhörð ;) Mér finnst bara ferlega skítt að það þurfi helst tvær fyrirvinnur til þess að geta með góðu móti haldið heimili með tveimur stálpuðum börnum.

Ég hef verið að velta fyrir mér að halda áfram að læra. Hef haft það á bakvið eyrað frá því ég útskrifaðist að ég ætlaði að vinna í tvö ár og fara svo í masterinn. Núna er ég búin að vinna i eitt ár og það er kominn tími til að fara að líta í kringum sig. Ef maður ætlar að fara erlendis í nám þá veitir ekkert af tímanum. Ég er ákveðin í að taka master í brunaverkfræði og það er hægt að læra það á nokkrum stöðum í heiminum. Er byrjuð að skoða skólana og borgirnar sem þeir eru í.
Það hentar nefnilega ágætlega að fara eitthvert út á næsta ári . Hildur á að fermast næsta vor (2008) og Ólöf er að stefna að því að klára stúdentinn á sama tíma. Þannig að þær verða báðar á ágætum tímamótum til breytinga. Hvort Ólöf hefur áhuga á að flytja búferlum með mömmu sinni eða fara eitthvert sjálf í nám, það kemur í ljós.

Jamm, þetta eru vangavelturnar mínar undanfarnar vikur. En á meðan líður hvunndagurinn áfram tilbreytingarlítið og ég held áfram að láta mig hlakka til þess að fá nýtt baby í fjölskylduna. Ég er orðin voðalega spennt fyrir krílinu hennar Dísu :)

Bless þar til ég nenni að blogga næst......