29.3.09

Útsölur

Það brast skyndilega á með útsölum hérna, að vísu ekki allt á útsölu en margar af stóru búðunum eru að losa sig við vetrarvörurnar og bjóða þær á afslætti í stuttan tíma. Að fara að versla er ekki mín sterkasta hlið en það var kominn tími á að bæta við fataúrvalið hjá henni Hildi svo við rifum okkur upp eldsnemma á laugardagsmorgni og drifum okkur niður í bæ. Það var snilldar hugmynd að fara snemma því þá var ösin ekki orðin voðalega mikil. Leiðin lá beint inn í verslunina Next þar sem Hildur hefur alltaf fengið á sig buxur sem passa og það gekk líka eftir. Eftir minna en 10 mínútur vorum við komnar með nokkrar buxur inn á mátunarklefa og fann Hildur tvennar gallabuxur á sig og ég fékk líka einar. Að auki fékk hún á sig pils og bol og ég keypti eitthvað af sumarfötum á Ebbu-krílið. Alls keyptum við 11 flíkur í þessari einu búð og borguðum fyrir þær 94 pund (sem leggst út sem ca. 11.000 kr.) Ekki slæm kaup það! Að vísu lentum við í smá vandræðum þar sem kreditkortinu mínu var alltaf hafnað en eftir nokkur símtöl í þjónustuver Íslandsbanka og strætóferð heim og aftur í bæinn þá var þeim misskilningi eytt. En vá, þá var klukkan líka orðin þrjú og brjáluð ös í bænum og við Hildur erum báðar þannig að það hreinlega dregur úr okkur alla orku. Það voru því þreyttar en ánægðar mæðgur sem skiluðu sér loks heim.
Núna eru allar kennslustundir búnar hjá mér í skólanum en framundan er verkefnavinna. Þarf að skila stóru verkefni 22. apríl og svo byrja prófin í byrjun maí. Svo það er eins og venjulega á þessu heimili, nóg að gera. Ég ætla að reyna að gera eins mikið og ég get í verkefninu næstu vikuna svo ég geti átt góðan tíma með Dagrúnu en hún kemur til okkar þann 8. apríl og verður hjá okkur í viku, ohh það verður æðislegt að fá hana í heimsókn og sýna henni veröldina okkar hérna :)

Kveðja til allra sem ennþá nenna að kíkja hingað inn og bendi á að ég hef óskaplega gaman af því að fá smá kveðju í kommentunum hjá mér :)

12.3.09

Mikið að gera í skólanum

Vinnuálagið í skólanum er óðum að aukast eins og vill verða þegar líður á önnina. Hún er líka langt komin því aðeins eru eftir um 2-3 kennsluvikur svo er verkefnavinna í apríl og prófin hefjast í byrjun maí. Eftir þessa viku er ég búin með eitt fagið, Fire Laboratory, í því er ekkert próf heldur er áfanginn metinn af vinnunni okkar og skýrslunum sem við skiluðum eftir hverja tilraun. Er s.s. að fara að skila tveimur síðustu skýrslunum á morgun og svo þarf ekkert að hugsa meira um þetta fag. Ég þarf að skila pre-dissertation 22. apríl og er það stórt verkefni sem gildir á við tvo kennda áfanga. Það er forvinna að lokaverkefninu mínu. Svo í maí eru það 3 próf.
En það er svo mikil verkefnavinna núna þessar síðustu kennsluvikur að öll kvöld og allar helgar fara í það. Ég fæ auðvitað enga samúð á þessu heimili frekar en fyrri daginn, Hildur bendir mér bara á að ég hafi viljað þetta, hahahaha....! Enda alveg satt hjá henni ;)


Að lokum smá myndasyrpa frá ferlega krúttilegri götu hérna í nágrenninu:



Ekki amarlegur þessi!!

5.3.09

Skilti að mínu skapi

Það er pínulítill almenningsgarður hérna úti á horni hjá okkur, með smá grasbala og tveimur bekkjum undir stórum trjám. Það sem mér líkar best við við þennan garð er skiltið sem er við hliðið:

Þetta gleður svona anti-sportista eins og mig sem þolir ekki að sitja í rólegheitunum einhvers staðar úti í góðu veðri og fá svo helv... bolta í sig!

Vill svona skilti á fleiri almenningsstaði, boltaleikir geta verið innan ákveðinna svæða (nóg er nú búið að kosta til þess að byggja þau sérstöku svæði hvort eð er...).