21.12.07

Jólablogg

Við mæðgurnar héldum litlu jólin heima hjá okkur í gærkvöldi. Ég áttaði mig nefnilega á því að ég hafði ekki haldið jól á mínu heimili síðan árið 2000, ég fer alltaf vestur til mömmu. Ég er farin að sakna þess að hafa engin jól heima hjá mér svo við ákváðum að skreyta jólatréð, þrífa og baka og bjóða svo vinum okkar í smá jólaboð. Ég ákvað einnig að þar sem stelpurnar mínar eru nú orðnar svona stórar þá mundum við opna þá pakka sem komnir væru svo við þyrftum ekki að flytja þá með okkur vestur bara til þess að koma með allt saman suður aftur eftir nokkra daga.
Hildur bauð þremur vinkonum sínum, Ólöf bauð Rúti og tveimur vinkonum og ég bauð Dagrúnu og Einari en Jóna komst ekki.

Við Hildur skreyttum, þrifum og settum upp jóladúka í gærdag og svo var boðið upp á heitt súkkulaði, ístertu, smákökur og brauðrétt. Eftir mikið át opnuðum við pakka og spjölluðum saman. Dásamleg kvöldstund og ég skil ekkert í því að ég hafi ekki gert þetta áður :)

Ég gat m.a.s. boðið upp á nokkra Napoleonshatta sem hundurinn hafði ekki komið sinni löngu tungu á ;)

Nú er stefnan tekin á Ísafjörð um helgina og svo suður aftur milli hátíða.

Ég óska tryggum lesendum mínum (hehe hljómaði þetta ekki flott?) Gleðilegrar jólahátíðar og farið þið varlega í umferðinni, jólamatnum, skreytingunum, þrifunum og öllu öðru sem þið takið ykkur í hendur!!!

19.12.07

Raunir bakara

Ég var voðalega dugleg á laugardaginn og bakaði 4 sortir af smákökum. Ein sortin heitir Napoleonshattar og er uppskriftin einföld en óttalegt "moj" að baka þá. Svo er uppskriftin voðalega lítil svo það fást aðeins um 20 kökur úr henni. Að þessu sögðu er augljóst að eftir talsverða fyrirhöfn við svo fáar kökur þá eru þær extra spari og alveg stranglega bannað að snerta þær fram að jólum.
Þetta var ég búin að segja dætrunum og að sjálfsögðu hlýða þær mömmu sinni ;) En það er ekki hægt að segja það sama um dýrin á heimilinu, því að þegar Ólöf kom heim einn daginn þá voru hattarnir fínu út um allt borð, þeim hafði verið raðað á bretti sem stillt var upp ofan á brauðvélinni úti í horni uppi á borði, s.s. þannig að hundurinn næði þeim ekki. Það var s.s. kötturinn Míó sem var að leika sér þarna og sturtaði herlegheitunum út um allt! Þar sem Ólöf vissi að mamma hennar yrði alveg æf yfir þessu þá raðaði hún höttunum varlega aftur á brettið og lagði það frá sér á annað borð. EN.... það vissi ég ekki þegar ég kom heim og hleypti hundinum út úr búrinu áður en ég skrapp á klósettið.....! Auðvitað fann hans fína nef þessar líka fínu smákökur með marsipanfyllingunni og gúlpaði í sig eins mörgum og hann gat áður en ég fattaði hvað um var að vera :( ARRRRGGGG...!!!

Hvar annars staðar en á mínu heimili er kökum bjargað frá köttum bara til þess að lenda þá í hundskjafti??? Já já ég veit hvað þið ætlið að segja, ég get bara sjálfri mér um kennt fyrir að vera með þennan dýragarð heima há mér og það er alveg rétt enda gargaði ég aðallega á sjálfa mig eftir að hafa reynt að kenna Ólöfu um ;)


Að lokum eitt skilti sem ég þarf að eignast og setja upp heima hjá mér:


11.12.07

Hér þarf engin orð :)


smá getraun samt: Hvaða kvikmyndapersónu er Míó að leika og úr hvaða mynd?

10.12.07

18 ár

Í dag eru 18 ár síðan frumburðurinn minn fæddist. Það var smágerð 12 marka stúlka sem var aðeins 50 cm á lengd og með stór blá augu. Hún hefur lengst um rétt rúman meter síðan (106 cm nákvæmlega!) og þroskast og dafnað afskaplega vel, að mati mömmunnar alla vega sem er að sjálfsögðu alveg hlutlaus í þessu máli ;)

Til hamingju með afmælið elsku Ólöf

og farðu varlega með fullorðinsréttindin sem þér voru fengin af yfirvöldum í dag!!




Kveðja frá mömmu sem er að rifna úr stolti !!!

7.12.07

Nenni ekki neinu

Ég er eitthvað svo down og pirruð í dag. Langar helst að skríða heim í rúm og undir sæng með kisunum mínum. En það fæst víst lítið borgað fyrir það (allavega ekki ef ég vill liggja þar ein!) svo vinnan er það víst.

Síðasta helgi var frábær og djammhelgi dauðans. Á föstudagskvöldið var jólahlaðborð með VSI á Hótel Loftleiðum. Frábær matur og skemmtilegur félagsskapur. Ég var samt voða stillt og var komin heim rúmlega 12.
Á laugardagskvöldið var svo h-jólaball Snigla og ég var ekki alveg eins stillt þá. Endaði niðri á bæ á Dubliners, dansaði og dansaði og skilaði mér ekki heim fyrr en um kl hálf sex um morguninn. Já já þetta getur maður ennþá en boj-óboj hvað ég var þunn og þreytt á sunnudaginn og mánudaginn! Þetta djamm mitt endaði líka með hörku blöðrubólgu eftir helgina svo ég er búin að vera hálf manneskja þessa daga. Ekkert meira djamm fyrr en um áramótin fyrir mig takk!!!

Ætla að halda áfram að vera pínu leið og pirruð í dag en það byrtir upp um síðir...