Jólablogg
Við mæðgurnar héldum litlu jólin heima hjá okkur í gærkvöldi. Ég áttaði mig nefnilega á því að ég hafði ekki haldið jól á mínu heimili síðan árið 2000, ég fer alltaf vestur til mömmu. Ég er farin að sakna þess að hafa engin jól heima hjá mér svo við ákváðum að skreyta jólatréð, þrífa og baka og bjóða svo vinum okkar í smá jólaboð. Ég ákvað einnig að þar sem stelpurnar mínar eru nú orðnar svona stórar þá mundum við opna þá pakka sem komnir væru svo við þyrftum ekki að flytja þá með okkur vestur bara til þess að koma með allt saman suður aftur eftir nokkra daga.
Hildur bauð þremur vinkonum sínum, Ólöf bauð Rúti og tveimur vinkonum og ég bauð Dagrúnu og Einari en Jóna komst ekki.
Við Hildur skreyttum, þrifum og settum upp jóladúka í gærdag og svo var boðið upp á heitt súkkulaði, ístertu, smákökur og brauðrétt. Eftir mikið át opnuðum við pakka og spjölluðum saman. Dásamleg kvöldstund og ég skil ekkert í því að ég hafi ekki gert þetta áður :)
Ég gat m.a.s. boðið upp á nokkra Napoleonshatta sem hundurinn hafði ekki komið sinni löngu tungu á ;)
Nú er stefnan tekin á Ísafjörð um helgina og svo suður aftur milli hátíða.
Ég óska tryggum lesendum mínum (hehe hljómaði þetta ekki flott?) Gleðilegrar jólahátíðar og farið þið varlega í umferðinni, jólamatnum, skreytingunum, þrifunum og öllu öðru sem þið takið ykkur í hendur!!!