23.1.07

Og restin af skessunni helltist yfir

Ég hefði betur þagað yfir því að hafa ekki fengið alla flensuna um daginn. Hún ákvað nefnilega að koma í öllu sínu veldi og hef ég legið heima (og meina sko LEGIÐ) alveg bakk síðan á föstudaginn. Fékk kvef og hita og allan pakkann. Sé ekki enn fyrir endann á þessum ósköpum og ligg heima og vorkenni sjálfri mér ógurlega :(

Blogga aftur þegar ég kemst almennilega til rænu og get haldið haus í meira en 5 mín í einu.

-hóst-hóst og snýt.......

12.1.07

Oj bara lasin...

Ég fékk einn anga af flensu, er bara þakklát fyrir að hafa ekki fengið hana alla í heimsókn helv.. skessuna. En nei ég slapp örugglega vel þrátt fyrir að hafa liðið ömurlega. Ég fékk svo heiftarlega beinverki í tvo daga að það mátti hvergi koma við mig :( Ég fór í vinnuna í morgun, svona meira til þess að hlífa dætrum mínum við geðvonskunni sem fylgir því ef ég verð lasin en ég hlýt að ná að hrista þetta af mér um helgina.

Annars er svosem lítið að frétta. Lífið og tilveran bara rennur framhjá áreynslulaust dag eftir dag.
Við Ólöf vorum að horfa á sjónvarpið núna eitthvert kvöldið og þá kom það upp tvisvar að einhver ákvað að NÚNA væri rétti tíminn til að fara að leita sér að maka. Hmmm... við héldum báðar að svoleiðis hlutir kæmu bara þegar þar að kæmi, ekki að maður færi sérstaklega á stúfana til að leita!?! Er það kannski þess vegna sem ég er makalaus? Af því ég er svona sátt við lífið eins og það er og dettur aldrei í hug að fara út að leita að maka? Ja, hvað haldið þið? Er ég svona "naív"? He he he ég sé í anda skelfingarsvipinn á nokkrum vinum mínum ef ég mundi æða af stað í makaleit!!! HAHAHAHA þeir mundu hlaupa í marga daga... :)

2.1.07

Nýtt ár! 2007

Gleðilegt ár allir saman og takk fyrir það gamla!
Jólin og áramótin hafa farið mjúkum höndum um mig og ég er ekki frá því að línurnar mínar séu enn mýkri en venjulega eftir allt átið!
Ég er búin að aka vestur á Ísafjörð og halda jólin með fjölskyldunni þar, aka aftur til Reykjavíkur og halda áramótin þar og svo er ég að fara fljúgandi aftur til Ísó á morgun til að halda upp á 90 ára afmælið hennar Mörthu ömmu. Það er ekki hægt að segja að maður sé alltaf á sama landshorninu þessa dagana, híhíhí! Ég hætti að vísu við að fara norður til Akureyrar yfir áramótin eins og ég hafið planað þar sem ég hreinlega nennti því ekki! Mig langaði bara að vera í rólegheitunum heima hjá mér sem ég og gerði, enda var það voðalega notalegt.
Ég hef yfirleitt ekki staldrað neitt sérstaklega við um áramót og gert upp liðna tíma eða horft til framtíðarinnar. Ég lít nefnilega þannig á að maður geri það þegar manni hentar sjálfum og á eigin tímamótum í lífinu. Sumum hentar að nota áramótin til þess arna en aðrir, eins og ég, líta ekkert endilega á dagatalið til þess að hugleiða fortíð eða framtíð. Ég veit það eitt, að hvað sem fortíð eða framtíð líður þá hef ég það voðalega gott í nútíðinni og það er það sem skiptir aðal máli, ekki satt?
En alltaf gaman að nýju ári og að reyna að venja sig á að skrifa nýtt ártal og svoleiðis ;)
Eins og ég sagði hérna að ofan þá verður föðuramma mín hún Martha, nítíu ára á morgun. Það verður gaman að halda upp á þau tímamót með henni en mér finnst samt voðalega skrítið að hún skuli vera svona gömul, hún hefur einhvernvegin alltaf verið eins og elst voðalega hægt og lítið :) Svo er hún líka ekki elsta amman, kannski er það þess vegna sem mér finnst hún ekkert svo gömul. Það er nefnilega svo skrítið í minni fjölskyldu, eins og hún Sólveig mágkona mín orðaði svo snilldarlega, að það deyr enginn!!! Ég skellti nú uppúr þegar hún sagði þetta en það liggur við að þetta sé satt. Sólveig benti á að hún hefði verið í fjölskyldunni í 14 ár og ekki farið í eina einustu jarðarför. Jamm, fólkið mitt er svolítið langlíft :)