26.7.06

Framtíðin...???

Eins og gengur og gerist þá dett ég stundum niður í djúpar hugsanir um framtíðina. Þá er ég að tala um næstu árin. Þá poppa upp alls konar spurningar eins og: "á ég að stefna að því að kaupa mér húsnæði á næsta ári"? eða "á ég að fara erlendis og læra meira"? og ýmislegt fleira.
Ég var t.d. að vafra á netinu og fór að skoða skóla sem kenna brunaverkfræði. Þ.e. þá get ég tekið master í brunaverkfræði, það tæki mig 1-2 ár. Úff, mig langar svoooo að halda áfram í skóla!
Svo er alltaf spurningin um hvort maður ætti ekki að reyna að eignast eigið húsnæði??? Það er svo helv.. dýrt að leigja svona. Jamm og já kollurinn á mér er fullur af pælingum.

Að lokum, ég fór LOKSINS í klippingu! það var sko löngu kominn tími á það og bið ég hér með alla sem þurftu að horfa upp á hörmungina svona lengi, afsökunar :)

17.7.06

Lífið og tilveran

Það er einhvern vegin þannig þegar fólk fellur frá í blóma lífsins, þá fer maður ósjálfrátt sjálfur að hugsa vel og vandlega um lífið og tilveruna. Ég hef allavega verið mjög hugsi undanfarið. T.d. um það hvað það er mikilvægt að umgangast þá sem maður elskar og líkar við og sleppa hinum sem hafa ekki góð áhrif á líðan mans. Lífið er alltof stutt og dýrmætt til þess að vera að eyða því í fólk sem sýgur úr manni allan þrótt og lætur manni líða illa í þokkabót. Það hafa allir rétt til þess að sortera úr það fólk sem þeir vilja umgangast og ekki bara rétt, heldur er það sjálfsögð skylda manns til þess að maður eigi nægan þrótt og lífsgleði eftir handa sjálfum sér og þeim sem skipta máli. Munum líka að segja þeim sem við elskum frá því nógu oft því að á morgun getur það verið of seint!

Ég hef ekkert bloggað lengi um þunglyndið mitt eða ofsakvíðan sem ég hef þjáðst af í nokkur ár. Það er bara góðs viti því ekkert sérstakt hefur verið að frétta af þeim vígstöðvum í langan tíma :) Ég hef verið að minnka lyfjaskammtinn minn smám saman í u.þ.b. ár. Ég var komin upp í tvær töflur á dag þegar verst lét og átti auk þess auka róandi töflur sem ég mátti taka ef allt fór til andskotans. Þær töflur held ég að ég hafi ekki þurft að taka í svona 1 og 1/2 ár :) En hinar hef ég minnkað smám saman, fyrst niður í 1 og 1/2 á dag í rúmlega hálft ár og svo núna er ég komin niður í 1 á dag. Munurinn var ekki mikill þegar ég minnkaði úr tveimur í eina og hálfa en hann var meiri þegar ég minnkaði úr einni og hálfri niður í eina á dag. Þá fór ég að finna fyrir því að ég var miklu viðkvæmari fyrir því að kvíðaköst létu á sér kræla. Ég ákvað að láta það ekkert hræða mig enda mátti ég alveg búast við því. Nú þarf ég bara að vera vakandi fyrir fyrstu einkennum svo að ekkert verði úr alvarlegum köstum. Mesta hættan er nefnilega sú að maður fyllist bjartsýni og haldi að allt sé horfið af því að lyfin hafa verið að virka svo vel. En maður má ekki gleyma því að þetta er ekki horfið heldur eru lyfin bara að gera gagn svo að ef þau eru minnkuð þá getur þetta látið á sér kræla aftur.
Núna er lífið mitt bara í svo góðu jafnvægi að allar aðstæður til þess að vinna í því að hætta á lyfjunum eru réttar. Ég passa mig á því að taka ekki of mikið að mér, ekkert auka álag og er að vinna í því að hugsa betur um líkamlega heilsu. Bara það að fara í göngutúr með hundinn á hverjum degi hefur góð áhrif og einnig það sem ég nefndi hérna í upphafi, að vera ekki að ergja sig á fólki sem skiptir ekki máli!

Verum góð hvort við annað og látum ekki smámuni eyðileggja lífshamingjuna!! :)

13.7.06

Undarlegir dagar

Ég hef lítið bloggað undanfarna viku, hef einfaldlega ekki haft tíma til þess.
Ég er búin að vera á flakki, fyrst hjá Dagrúnu í Þykkvabænum og svo norður á Akureyri.
Eins og sést hefur í fréttum og á Sniglavefnum þá var jarðarförin hans Heidda ofboðslega falleg og mannmörg. Tónlistin var svo flott að hún smaug inn að beini og ég fæ ennþá gæsahúð við tilhugsunina um þessa stórkostlegu kveðjuathöfn. Allir sem stóðu að þessu eiga heiður skilið.

Ég fór á hjólinu norður og gekk það bara mjög vel. Á leiðinni suður fékk ég aftur á móti rok og rigningu alveg suður yfir Holtavörðuheiði og skítakulda.... brr-brrr......! EN.... Þetta er samt æðislegt :) Ég skil ekki af hverju ég er ekki búin að stunda þetta sport í áratugi, hehehe...!

Hildur kemur vonandi heim um næstu helgi, hún er búin að vera hjá pabba sínum í mánuð. Ég kann alveg að njóta þess að vera hálf barnlaus í einhvern tíma en þegar svona langt er liðið þá fer mig að langa að fá hana heim.

Ólöf er búin að skipta um vinnu og er farin að vinna í uppvaskinu á Fjörukránni. Alltaf sami dugnaðurinn í þessari stelpu enda kjarnakona þarna á ferð :) Hún hefur verið heima með Depil þessa daga sem ég hef verið á flakki og hefur hann bara hagað sér nokkuð vel strákurinn. Kannski hann hafi tekið mark á því þegar ég sagði honum að hann væri á skilorði eftir Spánarferðina mína!!!

Ég reyni að láta ekki líða svona langt þar til ég blogga næst, en áður en ég hætti þá langar mig að óska henni stóru systir minni innilega til hamingju með fertugsafmælið sem var þann 6. júlí s.l.
Til hamingju Dísa!!! og takk fyrir lánið á húsinu þínu.

3.7.06

Sorg í röðum mótorhjólafólks

Góður félagi er fallinn frá og verður hans sárt saknað í heimi mótorhjólamanna sem og annars staðar þar sem hann kom við í sínu lífi.

Heiddi #10 blessuð sé minnig þín!