Lífið og tilveran
Það er einhvern vegin þannig þegar fólk fellur frá í blóma lífsins, þá fer maður ósjálfrátt sjálfur að hugsa vel og vandlega um lífið og tilveruna. Ég hef allavega verið mjög hugsi undanfarið. T.d. um það hvað það er mikilvægt að umgangast þá sem maður elskar og líkar við og sleppa hinum sem hafa ekki góð áhrif á líðan mans. Lífið er alltof stutt og dýrmætt til þess að vera að eyða því í fólk sem sýgur úr manni allan þrótt og lætur manni líða illa í þokkabót. Það hafa allir rétt til þess að sortera úr það fólk sem þeir vilja umgangast og ekki bara rétt, heldur er það sjálfsögð skylda manns til þess að maður eigi nægan þrótt og lífsgleði eftir handa sjálfum sér og þeim sem skipta máli. Munum líka að segja þeim sem við elskum frá því nógu oft því að á morgun getur það verið of seint!
Ég hef ekkert bloggað lengi um þunglyndið mitt eða ofsakvíðan sem ég hef þjáðst af í nokkur ár. Það er bara góðs viti því ekkert sérstakt hefur verið að frétta af þeim vígstöðvum í langan tíma :) Ég hef verið að minnka lyfjaskammtinn minn smám saman í u.þ.b. ár. Ég var komin upp í tvær töflur á dag þegar verst lét og átti auk þess auka róandi töflur sem ég mátti taka ef allt fór til andskotans. Þær töflur held ég að ég hafi ekki þurft að taka í svona 1 og 1/2 ár :) En hinar hef ég minnkað smám saman, fyrst niður í 1 og 1/2 á dag í rúmlega hálft ár og svo núna er ég komin niður í 1 á dag. Munurinn var ekki mikill þegar ég minnkaði úr tveimur í eina og hálfa en hann var meiri þegar ég minnkaði úr einni og hálfri niður í eina á dag. Þá fór ég að finna fyrir því að ég var miklu viðkvæmari fyrir því að kvíðaköst létu á sér kræla. Ég ákvað að láta það ekkert hræða mig enda mátti ég alveg búast við því. Nú þarf ég bara að vera vakandi fyrir fyrstu einkennum svo að ekkert verði úr alvarlegum köstum. Mesta hættan er nefnilega sú að maður fyllist bjartsýni og haldi að allt sé horfið af því að lyfin hafa verið að virka svo vel. En maður má ekki gleyma því að þetta er ekki horfið heldur eru lyfin bara að gera gagn svo að ef þau eru minnkuð þá getur þetta látið á sér kræla aftur.
Núna er lífið mitt bara í svo góðu jafnvægi að allar aðstæður til þess að vinna í því að hætta á lyfjunum eru réttar. Ég passa mig á því að taka ekki of mikið að mér, ekkert auka álag og er að vinna í því að hugsa betur um líkamlega heilsu. Bara það að fara í göngutúr með hundinn á hverjum degi hefur góð áhrif og einnig það sem ég nefndi hérna í upphafi, að vera ekki að ergja sig á fólki sem skiptir ekki máli!
Verum góð hvort við annað og látum ekki smámuni eyðileggja lífshamingjuna!! :)
2 Comments:
Sammála með þetta kæra vinkona.Það er nú einu sinni þannig að maður getur valið sér vini en ekki ættingja.Þannig að það er gott að eiga fáa en góða vini.
Sammála þessu...
Ég hef verið að pæla í þessu....og hef fundið út að ég þarf að fara taka til hjá mér....losa mig undan fólki sem þreytir mig og sýgur úr mér allan kraft. Það er nú einu sinni þannig að það er ekki hægt að neyða mann til að líka við alla....ekkert frekar en maður getur neytt aðra til að líka við mann:)
Kveðja Inda
Skrifa ummæli
<< Home