Síðan í desember 1989, þegar hún Ólöf litla fæddist, hef ég aldrei verið svona lengi í burtu frá henni eins og núna þetta síðasta ár. Það er búið að vera skrítið á köflum þar sem hún hefur verið á tímamótum í sínu lífi, að byrja í háskóla og að byrja að búa. En vegna þess hve hún er ótrúlega dugleg og mikill forkur þá hef ég verið róleg hérna úti, því henni gengur svo vel og er svo úrræðagóð að leysa þau vandamál sem upp hafa komið. Samt finnst mér stundum að ég sé ekki nógu góð mamma að vera ekki til staðar fyrir hana til að hjálpa til þegar þess hefur þurft. Þessi elska berst alltaf áfram og ef vinnan minnkaði á einum staðnum þá fann hún sér aðra vinnu til að bæta það upp - og það á meðan hún var að standa sig með miklum sóma í háskólanum!!!
En á morgun, sunnudag, kemur hún hingað til Edinborgar og ætlar að stoppa hjá mér í 4 daga - JIBBÍÍÍÍ!!! Ég hlakka svo til að knúsa hana og að sýna henni hvernig við Hildur höfum búið síðasta árið og ekki síst að sitja með henni og spjalla um lífið og tilveruna.
Eins og ég er mikill barnakelling og naut þess í botn að eiga stelpurnar mínar þegar þær voru litlar, þá finnst mér svo merkilegt og skemmtilegt að fylgjast með þeim verða að fullorðnum einstaklingum með sínar skoðanir á lífinu og tilverunni :)
En að öðru og ekki eins gleðilegu efni, þá fékk ég í vikunni uppsögn á samningi mínum hjá VSI svo ég hef enga vinnu að snúa til þegar ég klára námið í lok sumars. Ég var innst inni búin að búa mig undir að þetta gæti gerst þar sem ástandið í þjóðfélaginu er þannig að ekki er mikið um framkvæmdir eins og er en samt var ákveðið sjokk að sjá þetta svart á hvítu.
Ég er að þýða ferilskrána mína yfir á ensku og nú fer ég, með aðstoð kennaranna minna hérna, að leita að vinnu í mínu fagi hvar sem er í heiminum. Nú, ef ekkert kemur út úr því þá er ekkert að gera nema að reyna að halda höfði og leita áfram þangað til einhver vinna finnst!
EN í millitíðinni þá held ég áfram að skrifa lokaritgerðina, sem gengur bara ágætlega og nýt Edinborgar í sumar.