19.1.09

Lestrarhestur með sólarhringinn öfugan

Ég hef alltaf verið kvöldsvæf og ekki nóg með það heldur verð ég líka að fá minn svefn og ekkert raus! Það er mjög seint fyrir mig að fara að sofa eftir miðnætti ef ég á að vakna til vinnu eða skóla morguninn eftir og ef ég fæ ekki mína átta tíma þá er ég hreinlega ónýt og væri vís með að dotta einhvers staðar á miðjum degi.
En núna er ég sko búin að snúa öllu saman á hvolf. Vaki fram eftir nóttu og sef til hádegis. Þetta fer ferlega illa í mig enda verður manni miklu minna úr verki á nóttunni heldur en á morgnana svo tíminn nýtist mjög illa. Ég hef út þessa viku til þess að klára stóra verkefnið mitt og nú þarf ég virkilega að gefa í því að ég á alveg helling eftir. Svo núna hreinlega verð ég að reyna að koma háttatímanum í eðlilegt horf aftur!

Að öðru, ég keypti dagblað hérna um helgina og það er sko gaman að kaupa helgarblöðin hérna. Þau eru á við heila bók með öllum aukablöðunum og dótinu og draslinu sem þeim fylgir. Fékk t.d. tvær gamlar DVD myndir, eitt lítið tímarit ásamt öllum aukablöðunum. Í einu af þessum aukablöðum var skemmtilegur listi yfir 100 bækur sem maður ætti ekki að láta framhjá sér fara á lífsleiðinni (100 "must read" books). Eins og ég er mikill bókaormur þá komst ég að því að ég er bara búin að lesa 3 af þessum bókum og svo hef ég séð sjónvarpsþætti eða kvikmyndir upp úr öðrum þremur eða fjórum. En þetta eru einmitt þessar frægu klassísku sem flestir hafa einhverntíman heyrt um og margar hverjar sem mig hefur alltaf langað til að lesa. Ég held að ég geymi þennan lista og setji mér það markmið að feta mig í rólegheitunum eftir honum út ævina. Flott markmið ekki satt? :)

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

svoooo auðvelt að snúa sólarhringnum við ;/
endilega áfram senda þennan bókalista til mín..
kv anna birna

19 janúar, 2009 14:00  
Anonymous Nafnlaus said...

Áhugavert þetta með bókalistann, gott að hafa eitthvað að stefna að fyrir fólk sem hefur ekkert að gera......Það væri áhugavert að fá að sjá hann einhverntímann. Er búin að kaupa garnið, það fer í póst á morgun.
kveðja Dísa

20 janúar, 2009 09:09  
Anonymous Nafnlaus said...

Ég er í endalausum vandræðum með að halda sólarhringnum í lagi. Líkamsklukkan mín er nefnilega á skjön við alheimsklukkuna. 24 tímar í sólarhring passar ekki við mína...

25 janúar, 2009 00:51  

Skrifa ummæli

<< Home