31.7.07

Svarta holan enn á ferð

Þó það líði orðið langt á milli slæmra lægða hjá mér þá er ég samt minnt á það öðru hvoru að ég er ekki alveg laus við þessa óværu. Það eina sem ég get gert þegar þetta bankar upp á er að þakka fyrir hversu sjaldan þessi leiðindi eru og reyna bara að láta þau líða hjá.
Ég var s.s. andvaka í fyrrinót algerlega að ástæðulausu, bara lá og bylti mér og las og gat engan vegin sofnað fyrr en undir morgun. Þegar ég svo vaknaði til að fara í vinnu var ekki nokkur leið að eiga eðlilegan dag. Allt var svo svakalega svart og ömurlegt, lífið þungt og einmannalegt sem gerði það að verkum að ég komst ekki einu sinni fram úr rúminu fyrr en um miðjan dag (þegar hund greyið var í þann mund að pissa á sig!). Dagurinn var með þeim svartari sem ég hef upplifað lengi. Það var bara allur pakkinn, liggja í rúminu og sofa mikið, vera í sveittum náttfötum allan daginn og borða bara óhollustu. Allir þessir þættir auka á vanlíðanina og einhvern vegin er það þannig að þegar ég er í þessu ástandi þá VERÐ ég að fóðra vanlíðanina á þennan hátt. Ekkert kjaftæði um að rífa sig upp úr þessu og sjá einhverjar bjartar hliðar á tilverunni. Enda veit ég það orðið eftir að hafa barist við þunglyndi og ofsakvíða í yfir 6 ár að þetta er ekki spurning um skynsemi og að "rífa sig upp úr þessu". Þetta er sjúklegt ástand og það verður að taka á því sem slíku. Enda er svefn það sem virkar best á mig og mikið af honum. Ef ég næ að einangra mig eins og ég gerði í gær, sofa mikið og bara leyfa þessu að líða hjá án þess að neinar kröfur séu gerðar til mín um eitt eða neitt, þá tekur þetta ástand styttri tíma heldur en ef ég reyni að funkera í daglegu lífi á meðan.

En ég er komin til vinnu í dag. Ég er voðalega eftir mig eftir svona harkalegan skell niður á við og veit að ég þarf að fara varlega svo ég komist sem fyrst alveg upp úr pyttinum. En eins og áður sagði, þá er ég farin að kunna á þetta og veit mín takmörk í þessu máli. Til dæmis er alveg ótrúlegt hvað það hjálpar að blogga um þetta hérna enda byrjaði ég þessa síðu á sínum tíma vegna þessara veikinda.

Bless til ykkar allra í bili, næsta blogg verður örugglega ekki eins niðurdrepandi.

6 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Já ég skil sko hvað þú meinar.Og það fer ekkert eins mikið í mann eins og þessi fleyga settning "Þú verður bara að rífa þig út úr þessu".Málið er það að ef það væri svo einfalt væri þunglyndi ekki til.Þannig að maður verður bara að fá sinn tíma til að díla við þetta sjálfur.Gangi þér vel dúllan mín með það.

31 júlí, 2007 21:32  
Anonymous Nafnlaus said...

Knús frá mér til þín :)

31 júlí, 2007 22:25  
Anonymous Nafnlaus said...

Anna mín þú hefur svo margt til að vera stolt af!!!!!!!
Vertu það áfram og gangi þér vel að príla upp!! ef að hægt er að senda þér kaðal eða stiga niður til að flýta fyrir þér þá veistu númerið!
knús Jóna

01 ágúst, 2007 09:52  
Blogger Anna Malfridur said...

Takk stelpur!
Það hjálpar alltaf að eiga góða vini :)

01 ágúst, 2007 10:41  
Anonymous Nafnlaus said...

Heill hringstigi settur saman á nóginu ef það hjálpar ;) elsku dúllan

03 ágúst, 2007 23:28  
Anonymous Nafnlaus said...

Gott hjá þér að blogga þig út úr þessu. hjálpar líka þeim í kringum þig að skilja þetta betur og virða það þegar þú vilt fá frí og vera ein,eins og þú segir, sofa þetta úr þér

09 ágúst, 2007 11:36  

Skrifa ummæli

<< Home