17.7.07

Hringferð AMJ á mótorhjóli í júlí 2007, þjóðvegur 1 og vestfirðirnir.

Fákurinn var Suzuki GS450L árgerð 1986.

Ég lagði af stað þriðjudaginn 3. júlí um kl. 18 í sumarblíðu og hita. Mælirinn á Hellisheiðinni stóð í 18°C sem er töluvert heitt þarna uppi um kvöldmatarleitið. Fyrsti viðkomustaður var á Rauðalæk þar sem ég fékk kvöldmat með ömmu og afa hjá Diddu frænku. Þaðan var svo haldið austur í Vík í Mýrdal þar sem ég fékk gistingu hjá foreldrum Rúts, tengdasonar míns.
Jóna hafði ráðgert að koma með mér en sökum anna í vinnunni komst hún ekki af stað fyrr en seinna og hætti því við samflot. Ég tók það rólega í Vík að morgni miðvikudagsins 4. júlí og lagði ekki af stað þaðan fyrr en um kl. 11. Þá lá leiðin áfram austurfyrir í blíðskaparveðri. Með tónlist í eyrunum, ein á þjóðveginum haldandi út í bláinn, ég get sagt ykkur það að ég hló og skríkti út í vindinn af eintómri hamingju, þetta er sko lífið... :)
Þegar ég stoppaði við Jökulsárlón þá frétti ég af nokkrum Hog Riders mönnum á sömu leið og setti ég mig í samband við Gulla í þeim hópi. Ég hinkraði svo eftir þeim við Djúpavog og varð samferða þeim áfram. Eftir kaffipásu á Djúpavogi hjóluðum við því saman á fjórum hjólum inn í austfjarðaþokuna. Ég hafði aldrei fyrr komið á austfirðina og varð því fyrir smá vonbrigðum með að sjá svona lítið af þeim vegna þoku. Að vísu leist mér mjög vel á það sem ég sá og er ákveðin í að fara aftur seinna og hafa þá meiri tíma til þess að stoppa á fjörðunum. Egilsstaðir skörtuðu sínu fegursta í sólarblíðu þegar við komum þangað en þar var ekkert stoppað heldur haldið beint yfir á Seyðisfjörð. Á Fjarðarheiðinni mætti okkur ís-þoka.. brrrr...! Það sást ekkert út úr augum hún var svo þétt. Það var ekki laust við þreytu í mannskapnum þegar við stigum af hjólunum við sundlaugina á Seyðisfirði um kl. 21:30 eftir nokkuð stífan akstur allan daginn. Heiti potturinn tók úr okkur skjálftann en gerði að sama skapi mannskapinn ósköp dasaðan. Össur (HogR) útvegaði mér gistingu í heimahúsi þarna þar sem öll gistirými í bænum voru upppöntuð.

Á fimmtudagsmorgun vöknuðum við snemma og fórum niður á höfn að taka á móti Norrænu. Steini glæpur var væntanlegur með ferjunni og einnig vissi ég af þremur mönnum frá Færeyjum sem voru á leið á Landsmót. Við hittum alla þessa menn og einn til sem varð samferða á Landsmót Bifhjólafólks. Eftir kaffistopp (og olíutékk!) á Egilsstöðum hjóluðum við á 8 hjólum yfir í Mývatnssveit og stoppuðum næst í Reykjahlíð þar sem snædd var heit og góð kjötsúpa. Veðrið á leðinni var sæmilegt, svolítil þoka og úði en á meðan við sátum yfir kjötsúpunni var eins og himnarnir opnuðust og hélst þetta úrhelli alla leið til Húsavíkur. Úff hvað fólk var orðið blautt og kalt þegar þangað var komið. Næst lá þá leiðin í Skúlagarð sem er félagsheimili rétt hjá Ásbyrgi í Öxarfirði. Þar beið okkar slatti af hjólafólki á Landsmóti og fleiri bættust við þegar líða tók á kvöldið.

Landsmót Bifhjólafólks stóð yfir í Skúlagarði frá fimmtudeginum 5. júlí og fram á sunnudaginn 8. júlí. Það var alveg meiri háttar skemmtilegt og hélt ég að ég mundi springa af hamingju á föstudagsballinu, hí hí hí... Allir þessir vinir og kunningjar, bæði nýjir og eldri! Takk fyrir frábært landsmót öll sömul!!!

Eftir að hafa tekið tjaldið niður á sunnudeginum 8. júlí og pakkað öllu saman til þess að senda með bílnum suður þá pakkaði ég fötunum mínum á hjólið og hélt til Akureyrar til Dísu systir. Það er ekki laust við að það hafi gætt smá þreytu í mér eftir djamm helgarinnar, enda er þetta í eina skiptið á árinu þar sem ég reyni að djamma þrjú kvöld í röð!

Ég var svo í góðu yfirlæti hjá Dísu og fjölskyldu fram eftir vikunni. Við fórum til dæmis út á Dalvík og skoðuðum mynjasafnið á Hvoli og fengum okkur göngutúra í sólinni (og kaldri golunni) í miðbæ Akureyrar. Einnig fékk ég góða aðstoð frá honum Jonna ponna frænda mínum við að þrífa hjólið sem þeim mæðginum fanns vera of óhreint til þess að mega standa við húsið þeirra ;) Þar sem ég hafði klárað afturdekkið á hjólinu algerlega svo ekkert munstur var orðið eftir þá lét ég panta fyrir mig nýtt dekk til Akureyrar. Það var sett undir á fimmtudagsmorgun þann 12. júlí og hélt ég af stað aftur út að hjóla þá um kaffileytið. Þá lá leiðin út Eyjafjörðinn, í gegnum Dalvík og til Ólafsfjarðar, yfir Lágheiði og í Fljótin. Þegar ég nálgaðist Hofsós var orðið ansi hvasst og var það eiginlega eini kafli leiðarinnar þar sem tók svona hressilega í. Eftir að hafa hjólað í gegnum Sauðárkrók og inn í Varmahlíð fékk ég gistingu hjá Indu og Badda í Víðimýrarseli. Inda eldaði fínasta mat fyrir mig svo ég stóð á blístri og bjó svo um mig fyrir nóttina.

Föstudagurinn var tekinn snemma og haldið af stað í smá kulda á Blönduós og svo áfram í Brú í Hrútafirði. Þar stoppaði ég og fékk mér hádegismat og velti fyrir mér hvort ég ætti að halda heim (suður) eða heim (vestur). Var eiginlega búin að ákveða að skreppa vestur en þegar ég sat þarna í Brú þá var ég eitthvað svo þreytt og mikið dúðuð að ég ætlaði varla að nenna. En jú jú lét mig hafa það að beygja upp (á kortinu sko) og sé ekki eftir því. Vegurinn til Hólmavíkur er bara ágætur og ekkert til að hræðast þó hann sé ekki alveg allur malbikaður. Í Hólmavík TÉKKAÐI ÉG Á OLÍUNNI (hehehe) áður en ég hélt af stað upp á Steingrímsfjarðarheiðina. Þá var orðið alveg heiðskýrt og yndislegt og ég aftur farin að syngja með inni í hjálminum. Ég komst að því að leggurinn milli Hólmavíkur og Súðavíkur er sá lengsti án bensínstöðva á þessari hringferð minni. Ég var komin á varatankinn á Kambsnesinu (á móti Súðavík).

Ohh, ég átti svo yndislega daga heima. Majorka veður og náttúran alveg beint í æð! Ég dúllaðist aðeins í kringum löngu og hékk í Arnardalnum hjá mömmu í algerri leti. Frábær helgi á Ísafirði!

Á mánudagsmorgninum var svo haldið af stað aftur eftir morgunverð hjá ömmu og ákvað ég að fara vestur, þ.e. í gegnum göngin til Önundarfjarðar og yfir í Dýrafjörð, yfir Hrafnseyrarheiði í Arnarfjörð og þaðan yfir Dynjandisheiði niður í Flókalund. Útsýnið á þessari leið var svo dásamlegt að þó ég hafi oft farið þarna áður þá var ég hálf orðlaus yfir þessari stórbrotnu fegurð þarna.

Eftir einn ís í Flókalundi kom svo að leiðinlegasta og erfiðasta kafla leiðarinnar. Stór hluti vegarins frá Flókalundi í Bjarkalund er hræðilega harður og holóttur malarvegur og einnig var vegavinna á löngum kafla. Þar sem ekki hefur rignt þarna í margar vikur var moldarrykið í hámæli og fékk ég sko alveg að finna fyrir því. Ég þurfti nefnilega að fara frekar hægt yfir á löngum kafla vegna vegarins og fóru bílar því oft framúr mér og jusu þá yfir mig rykmekkinum svoleiðis að ég sá ekkert í smá stund. Arrgg, ég var orðin svo þreytt og aum í rassinum eftir þennan helv... vegakafla. Aftur á móti er alveg malbikað og fínt frá Bjarkalundi í gegnum Búðardal og alla leið til Reykjavíkur.

Heim kom ég svo milli klukkan átta og níu á mánudagskvöldi þann 16. júlí eftir alls tveggja vikna ferðalag á hjólinu um landið. Þetta var alveg dásamleg ferð og ég hvet alla til þess að láta ekki nokkra malarvegi fæla sig frá vestfjörðunum eða þoku að fæla sig frá austfjörðunum því að ég er svo uppnumin af náttúrufegurðinni á landinu okkar að mig langar helst til þess að leggja fljótlega af stað aftur og skoða betur þar sem ég stoppaði stutt við í þetta skipti.

Hjólið er búið að standa sig vel. Einhver aukahljóð voru komin í það þegar ég kom til Ísafjarðar og hjálpaði pabbi mér að herða upp nokkra bolta, stilla og smyrja. Eftir allan hrisstinginn á heimleiðinni voru svo aftur komin auka hljóð sem ég gæti trúað að löguðust við að smúla burtu steinvölur og ryk og herða ýmsa bolta og skrúfur.

Ég er ekki búin að taka saman nákvæma tölu á eknum (hjóluðum) kílómetrum í þessari ferð en gæti trúað að þeir væru í kringum 2000 km.

Kveðjur frá ánægðum ferðalangi...

11 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

rosalega ertu dugleg nafna ; ) þetta hljómaði allt rosalega vel fyrir utan rigninguna og þessi síðasta mynd hjá þér .. ég er svo lofthrædd að ég myndi þurfa hjóla þarna upp og niður með lokuð augun ;)
takk fyrir mjög svo skemmtilegt landsmót varstu ekki annars með bátinn í eftirdragi allan tímann ?

17 júlí, 2007 22:43  
Anonymous Nafnlaus said...

Ég gerði heljar komment en það kom ekki!!

17 júlí, 2007 23:58  
Anonymous Nafnlaus said...

Æ svo kom þetta. Mér finnst þetta bara frábært ferðalag hjá þér. Við förum kannski vestur í næstu viku, ef við fáum lánað hús á Súðavík. Ég fékk glaðning í pósti frá Dísu ömmu í gær, sokka á allt liðið plús vettlinga á Ísbjörgu litlu. Var svo glöð :) ótrúlegt hvað sú gamla getur prjónað vel. Jæja við sjáumst ef þér dettur í hug að skjótast í hjólaferð vestur í næstu viku hehe!!

18 júlí, 2007 00:01  
Anonymous Nafnlaus said...

Vá þetta hefur verið skemmtileg ferð og veðrið frábært. Örugglega æðislegt að ferðast svona með vindinn í andlitið og þeysast um sveitir landsins.

kv. Sóley

18 júlí, 2007 10:17  
Anonymous Nafnlaus said...

Flott færsla, börnin mín eru að jafna sig eftir dekrið hjá Önnu frænku...... sem er best í þeirra augum. Það var frábært að hafa þig svona í algjörri leti. Sjáumst fljótlega

18 júlí, 2007 13:23  
Anonymous Nafnlaus said...

Þú ert "biker" Anna ...það er ekki spurning:)

Kveðja úr sveitinni

Inda

18 júlí, 2007 19:00  
Anonymous Nafnlaus said...

Ertu búin að jafna þig á rasssærinu? ;)

18 júlí, 2007 19:06  
Anonymous Nafnlaus said...

bwaaaaaaaaaaaaahahahahhahah þetta er nú bara briljant tvö comment á eftir hvort öðru .. þú ert biker anna og ertu búin að jafna þig á rassærinu ; )
ógurlegt fliss í gangi hér :)

18 júlí, 2007 22:50  
Blogger Anna Malfridur said...

hehehe, bikerar fá líka rassæri! hef meira að segja heyrt að alvöru bikerar fái gyllinæð af því það þykir víst ekki töff að vera með dempara á hjólinu sínu! (sbr. custom made choppera) HA HA HA HA

19 júlí, 2007 12:30  
Anonymous Nafnlaus said...

jamm og strengi í lærinn og dofin í rassinum og svo frv... held að ég myndi setja dempara ef hjólið er farið að hóta manni gyllinæð ; )
2 1/2 klst í lendingu á hjólinu hans Egils voða spent

19 júlí, 2007 15:38  
Anonymous Nafnlaus said...

Tek undir þetta með Indu, þú ert sko BIKER ;-) Snilld hjá þér að skella þér í þetta ferðalag og það alein. Alger nagli :-)
p.s passa svefnpokann þinn vel.

19 júlí, 2007 19:35  

Skrifa ummæli

<< Home