3.8.05

Hver ég er...

"Hver ég er" eftir Guðmund E. Geirdal.

Ég lifi og lífið þrái
og lífið var og er mitt.
Ég er skugginn af eigin sköpum
er skyggir á takmark sitt.

Ég græ og þrái að gróa,
er gróður á tímans möl.
Einn af litum málarans mikla
í myndinni af heimsins kvöl.

Ég elska. - En hvað er að elska?
Það er upphaf að nýrri þrá
og ósk, sem að æsir og kvelur.-
Ég er óskin á lífsins brá.

Ég er athugull áhorfandi -
og oft mig í hjartað sker
annarra þjáning, en - eigin
áhyggjur nægja mér.

Ég er fræið við fótskör lífsins,
sem fram úr duftinu grær. -
Ég er myrkrið, sem meðtek ljósið
frá meðbræðrum nær og fjær.

Ég er vafalaust verðandi stjarna
í vestri - því sjáið þið til:
frá meðbræðrum meðtekið hef ég
svo mikið af ljósi og yl.


Ég fann þetta ljóð í bók hjá ömmu á Bökkunum. Bókin er gefin út í kringum 1919 og þetta höfðaði svo til mín um leið og ég las það. Þetta er eins og talað úr mínum munni. Langaði að deila þessu með ykkur :)

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

vá flott ljóð!
ég er einmitt að safna ljóðum í gestabókina mína þessa dagana. ef þú átt eitthvað í safninu, endilega settu það inn :)

19 ágúst, 2005 17:01  

Skrifa ummæli

<< Home